07.11.1958
Efri deild: 15. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

12. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Áður en ég kem að sjálfu málinu, langar mig til að benda hv. d. á það, að þó að útflutningur hrossa og sala á erlendan markað sé mál, sem skipti okkur Íslendinga töluverðu, skiptir það okkur ekki á sama hátt máli og það áður gerði. Hrossum í landinu hefur fækkað. Þau komust upp fyrir 60 þús., þegar þau voru flest, en s. 1. vetur voru þau 32.310, sem voru fram talin í sveitum. Sumir segja, að eitthvað hafi fallið undan, en það hefur sjálfsagt gert það áður líka og ekki minna, og þetta, hvort við getum sent hross á útlendan markað eða ekki og hvernig, það er ekki nema nokkur hluti af landinu, sem það skiptir máli. Af þessum 32.310, sem voru á fóðrum í sveitum landsins s. l. vetur, er meginið af þeim stofni í fimm sýslum. Mýrasýsla á 8,4% af öllum hrossastofni landsins, Austur-Húnavatnssýsla 11,7%, Skagafjarðarsýsla 16%, Rangárvallasýsla 15,5% og Árnessýsla 10,4%. Hinar sýslurnar eiga miklu minna, Borgarfjarðarsýsla um 5% og svo brot úr prósenti í mörgum sýslunum. Það eru þess vegna aðallega þessar fimm sýslur, sem það skiptir máli, hvort hrossasala hefst til útflutnings og þeirra vegna þarf náttúrlega um það lög og reglur.

Frv., sem til okkar kom frá Nd., fól bara í sér eina breytingu, þ. e. við lögin frá í fyrra, að leyft yrði að flytja hross út lengur fram eftir haustinu eða fram á veturinn, en áður hafði verið. Við athugun á þessu máli öllu þótti okkur heppilegra að hafa þau lög, sem giltu um útflutning hrossa, í einu lagi og sameinuðum þess vegna frv., sem fyrir lá, og þær breyt., sem við vildum á því gera, lögunum frá í fyrra og l. frá 1932 og flytjum það allt fram sem brtt. við frv., svo að það þarf ekki nema eina umr. hér í d. á eftir þessari og eina í Nd.

Eins og ég hef oft tekið fram áður hér í d. og menn eru mér yfirleitt sammála um, held ég, þó að það hafi ekki verið framkvæmt, þá tel ég ákaflega óheppilegt að vera að hnýta breytingu ofan á breytingu, svo að það þurfi að leita að hverjum lögum í ótal árgöngum og stundum í sama árganginum að tveimur breytingum við sömu lögin. Okkur þótti þess vegna heppilegra að sameina þetta allt saman og þó að þessar brtt. sýnist nokkuð miklar fyrirferðar, þá er það af þeirri ástæðu, en ekki af því að breyt. séu svo miklar við lögin sjálf. Eiginlega eru þessar breyt., sem við höfum flutt við frv. og lögin, ekki nema þrjár hvað efni snertir, og þær eru yfirleitt í 2. gr. eða b-lið undir 1. brtt.

Það er þá fyrst þess að geta, að í l. frá 1932 er svo fyrir mælt, að ekki megi flytja út yngri hross en þriggja vetra, en fyrir þann tíma átti eftir öðrum lögum að vera búið að gelda hestana og því voru yfirleitt ekki fluttir út neinir hestar ógeltir. Í fyrra er svo tekið upp að flytja út folöld og þá ógelt. Við gerðum þá í landbn. enga athugasemd við það, og það var af ýmsum ástæðum. Sannleikurinn er sá, að ég hef aldrei haft mikla trú á þessum útflutningi. Hrossanotkun yfirleitt í heiminum er að minnka alls staðar og hrossum alls staðar að fækka og þess vegna fannst mér ekki líklegt, að við mundum ná í nokkurn verulegan útflutning fyrir okkar hross. Hins vegar lítur út fyrir, að það sé í augnablikinu að verða tízka, ekki kannske Parísartízka, en eins konar tízka hjá betur stæðum mönnum erlendis að hafa þessa smáhesta íslenzka og frá Shetlandseyjum sem nokkurs konar leikföng fyrir börn sín. Og það má vera, að gegnum þá tízku, sérstaklega ef hún verður enn almennari, en hún er nú, megi vinna upp einhvern markað fyrir hesta okkar, en ef það er, teljum við ekki hyggilegt að flytja út folöld ógelt og þessi maður, sem hér var uppi núna síðast, þýzkur og keypti þann farm, sem fór núna um mánaðamótin, vildi ekki heldur flytja út ógelt folöld af þessari ástæðu. Hann lagði sig eftir að kaupa hryssur eða eldri hesta gelta, en vildi ekki fá út hesta, sem gætu orðið til þess, að þar væri farið að ala upp hross, og bendir þetta bæði til þess, að hann hugsi sér að kaupa hér hross eitthvað framvegis og líka til þess, að hann vilji ekki vinna að því, að farið sé að ala þau upp erlendis.

Það hafa á þessum tveimur árum, það sem af er árinu í ár og árinu í fyrra, verið flutt út 687 hross, og af því hafa verið 57 ógelt folöld, svo að það er kominn þarna stofn út, sem hægt væri að hugsa sér að alið væri af. En þó að það sé, vildum við a. m. k. ekki auka við það og setjum þess vegna inn í l. ákvæði um, að yfirleitt skuli ekki fluttir út óvanaðir hestar. Þó komum við á móts við einstaka menn, sem vildu leyfa það, með því að gefa heimild til þess, að það væri gert, ef það væri mælt með því af yfirvöldunum hér á landi og þeirra ráðunautum í þessu máli, svo að það er ekki alveg loku skotið fyrir, að það geti orðið gert, en í aðalatriðum er það þó stöðvað.

Þetta er fyrsta brtt., sem við gerum á lögunum. Í öðru lagi komum við á móti brtt. núna og leggjum til, að heimilt sé að flytja út hross til 1. des., ef það sé gert í sérstökum skipum, sem til gripaflutninga eru ætluð. Það er á öllum Norðurlöndunum a. m. k. við skipaskoðun ákveðið, hvaða skip mega flytja gripi og það eru búin til sérstök skip, sem gera ekki annað, en flytja gripi og eru innréttuð til þess að öllu leyti. En slíkt skip kom og sótti síðasta farm, sem fór út, í kringum 400 hross og skipstjórinn, sem var með það skip, hefur verið með þetta skip í yfir 20 ár, og hann er að ná milljóninni í gripum, sem hann hefur flutt milli landa í þessu skipi. Og munurinn á að flytja í þessum skipum eða í skipum, sem eru sérstaklega útbúin í hvert skipti, eins og okkar skip hafa verið yfirleitt, — það hafa einu sinni fyrir mörgum árum verið flutt hross héðan með svona skipi, og er þetta í annað sinn, sem svona skip kemur til landsins, — en munurinn að flytja með þeim er svo mikill, að þessi maður er vanur að missa svona eitt hross af 50–100 þús. í sínu ferðalagi, en í fyrravetur fórust fjögur af þeim fáu hrossum, sem við sendum út. Öryggið og aðbúnaðurinn í þessum skipum fyrir gripina samanborið við það, sem er í öðrum, er svo mikill, að þegar það var athugað, horfðum við ekki í það að færa tímann frá 1. nóv. og til 1. des. En jafnframt fannst okkur líka, að það gæti orðið von á þeim haustveðrum, þegar kæmi fram í októbermánum, að við létum sama gilda um október og það er þá eiginlega þriðja breytingin, sem við gerum á l., að við leggjum til, að hvorki í október né í nóvember sé leyft að flytja út hross nema í sérstökum skipum, sem ætluð eru til gripaflutninga. Með því verður skapað meira öryggi og betri meðferð á skepnunum og þegar hrossin koma yfirleitt af fjalli, þau síðustu, sem á afrétt ganga, geta menn náð í þau til að selja þau hvenær sem er í október eða nóvember og ekki ástæða til þess, að við þurfum þá að vera að senda út sérstaka smáhópa í alls konar skipum.

Þetta eru aðalbreytingarnar, sem við gerum á frv. Ég tel ekki, þó að það sé t. d. sagt í staðinn fyrir „lögreglumál“: opinber mál, það leiðir af breytingu, sem búið er að gera á öðrum lögum. Og eins tel ég ekki, þó að við höfum sett „eru“ í staðinn fyrir „séu“ og auk þess annað smávegis, því að það eru ekki neinar efnisbreytingar og skipta ekki neinu máli í þessu sambandi.

Dálítill misskilningur hefur komið upp um það, hvernig eigi að skilja orðið eldishross, en eftir lögum, sem samþykkt voru hér í fyrra, var leyft að flytja út eldishross að vetrinum, sem var náttúrlega dálítið varasamt að gera. En það var gert og við höfum látið það standa. Í mæltu máli eru eldishross talin manna á milli, hross sem tekin eru á hús að vetrinum og gefið til þess að koma í þau bata, og það er þessi skilningur, sem öll landbn. leggur í „eldishross“, og annað ekki. Þó að hrossin séu í góðum holdum, ef þau t. d. eru útigengin, eru þau ekki eldishross, og má þá ekki að vetrinum flytja þau út, þá köllum við þau ekki „eldishross“. Þennan skilning vil ég láta koma fram í þingræðu, og ég vona, að allir séu sammála um það, svo að það liggi ljóst fyrir, þegar um það er að ræða eða kann að verða að ræða í framtíðinni að flytja út hross að vetrinum, eitt eða tvö, að þá er þetta það, sem við skiljum við eldishross. Það hafa ekki verið flutt nema tvö eldishross að vetrinum til Ameríku, það er allt og sumt, og fyrir 5 þús. kr. hvort. Þetta mun ekki oft koma fyrir. En vegna þess, að annars skilnings hefur orðið vart hjá mönnum, sem hafa með þessi mál að gera dálítið eða koma til með að hafa í framtíðinni, ef þeir lifa og aðstæður breytast ekki, þá vil ég láta þetta koma fram.

Með þessum þremur breytingum leggjum við til, að frv. verði samþykkt og teljum, að með því sé skapaður grundvöllur fyrir, að þær sýslur, sem eiga það mörg hross, að þar séu aflögu hross til útflutnings, geti komið þeim í verð, ef að öðru leyti er markaður og aðstæður til þess.