07.11.1958
Efri deild: 15. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

12. mál, útflutningur hrossa

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Þetta mál um útflutning hrossa hefur verið til umræðu hér á hinu háa Alþingi á tveim síðustu þingum. Skoðanir hafa verið nokkuð skiptar um það, hve lengi fram á veturinn leyfa skyldi útflutning hrossa. Í fyrra varð það ofan á hér í þessari hv. d., að eigi skyldi leyfa þennan útflutning lengur en til 1. nóv. Nú ber hv. landbn. þessarar d. einróma fram till. um, að heimildin skuli ná til 1. des., gagnstætt því, sem var á síðasta ári. Ég ætla ekki að deila neitt um þessa breytingu, sem hefur orðið síðan í fyrra, en ég vildi vekja máls á þessu í tilefni þess, að nýlega hefur verið sett löggjöf um dýravernd. Samkvæmt henni á menntmrn. að hafa yfirstjórn allra mála, er varða dýravernd, en rn. nýtur aðstoðar dýraverndarnefndar um stjórn þeirra málefna.

Mig langar til að spyrja, hvort hv. landbn. hafi leitað umsagnar eða álits dýraverndarnefndar um þetta mál og hafi það ekki verið gert, vildi ég mælast til þess, að hv. nefnd gerði það, áður en gengið væri endanlega til atkvæða um málið hér í hv. deild.