07.11.1958
Efri deild: 15. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

12. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það er nú nýkomið til Dýraverndunarfélag Íslands, sem nær yfir landið allt í nokkrum deildum. Enn hefur ekki verið haldinn fundur til að kjósa stjórn, svo að til bráðabirgða starfar enn sem stjórn, stjórn Dýraverndunarfélags Reykjavíkur, svona í millibilsástandi, þangað til þetta samband, heldur sinn fyrsta fund. Þeir skrifuðu okkur um þetta og við töluðum við þá Þorbjörn í Borg og Þorstein Einarsson íþróttafulltrúa, sem stjórna þessu, þangað til kosin verður stjórn fyrir landssambandið. Þeir lögðu til, að þetta yrði haft þannig, að á tímabilinu 1. nóv. til 1. júní sé óheimilt að flytja hross á erlendan markað. Þó má leyfa útflutning á hrossum á tímabilinu 1. nóv. til 1. des., ef við flutninginn eru notuð viðurkennd gripaflutningaskip og leyfa má útflutning eldishrossa á tímabilinu 1. nóv. til 1. júní, að fengnu samþykki og meðmælum þeirra aðila, sem áður getur. Þetta voru þeirra tillögur, en við útvíkkum þær og látum líka sérstök viðurkennd flutningaskip ná yfir október, svo að við höfum ekki einungis tekið upp það, sem þeir vilja, heldur gengið lengra til verndar dýrunum og betri meðferðar hrossa, en þeir óskuðu eftir.