22.12.1958
Efri deild: 42. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

73. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Björn Jónsson:

Herra forseti. Þegar n. flytja mál fyrir ríkisstj., er það venja, að nm. hafi óbundnar hendur um að gera við það brtt. í samræmi við þetta vil ég boða það, að við þm. Alþb. munum flytja við einhverja umr. málsins hér í hv. d. brtt. við þetta frv.

Það er að sjálfsögðu auðsætt, að ríkisstj., hvort sem það er ríkisstj., sem starfar til bráðabirgða, eins og nú er, eða önnur ábyrg ríkisstj. er við völd, verður að hafa slíka heimild sem í þessu frv. er gert ráð fyrir til þess að geta starfað, þegar svo er ástatt sem nú. Vil ég á engan hátt mótmæla því, að þetta frv. sé að því leyti sjálfsagt mál. En í sambandi við þá stjórnarkreppu, sem nú ríkir og í sambandi við það, að fjárlög eru ekki afgr., þá er þetta þó engan veginn sá eini vandi, sem við er að fást og áreiðanlega ekki sá mesti.

Ég hygg, að mesti vandinn, sem stafar af þessu tvennu nú fyrir alla þjóðina, sé sá, að ekki er nein trygging fyrir því, að atvinnuvegum hennar verði haldið gangandi nú á næstu tímum. A. m. k. er það algerlega ljóst, að allur bátaflotinn mun stöðvast um áramót, ef ekki verður nú þegar undinn að því bráður bugur af hv. Alþ. að ráða þar bót á.

Það er öllum hv. þdm. kunnugt, að ekki hefur enn verið samið um rekstrargrundvöll fyrir bátaflotann og það er jafnframt vitað, að útgerðarmenn geta ekki samið við sjómenn, sem nú hafa sagt upp samningum sínum, fyrr en þessir samningar liggja fyrir.

Vegna þessara ástæðna hefur Alþb. snúið sér munnlega til þingflokkanna um það, að hæstv. sjútvmrh. og fulltrúum flokkanna verði veitt fullt umboð til þess að semja við útvegsmenn nú fyrir áramótin. Þessi till. hefur einnig verið borin upp í ríkisstj., en hefur þar verið hafnað til þessa af ráðh. Alþfl. og Framsfl. Mér virðist því, að allt stefni til þess, að fullkomin stöðvun verði á bátaflotanum um áramótin og vertíð geti ekki hafizt á eðlilegan hátt, a. m. k. ef ríkisstj. verður ekki mynduð nú næstu daga, en á því munu vera taldar litlar líkur.

Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að öll þjóðin vænti aðgerða Alþ. í þessu máli. Kunnugt er um fjöldann allan af áskorunum, sérstaklega frá útvegsmönnum, um það, að Alþ. fari ekki í jólaleyfi, fyrr en einhverjar aðgerðir hafa verið gerðar til þess, að vertíð geti hafizt á eðlilegan hátt, enda tel ég, að slíkt væri algerlega óverjandi. En fundir Alþ. eru nú að öllum líkindum senn á enda, áður en jólafrí hefjast,og það er því e. t. v. eina tækifærið til þess fyrir hv. alþm. að fjalla um þetta mikla vandamál allrar þjóðarinnar að gera það í sambandi við þetta frv., sem hér er á ferðinni.

brtt., sem við þm. Alþb. hér í hv. d. höfum hugsað okkur að flytja í sambandi við málið, yrði á þá lund, að aftan við 2. gr. kæmi ákvæði til bráðabirgða, á þá leið, að Alþ. kysi 5 manna n. með fullu umboði til þess að ganga frá samningum við samtök útvegsmanna, samningum, sem tryggðu rekstur útgerðarinnar á næstunni, þannig að bátaútvegurinn geti hafið veiðar þegar í ársbyrjun.

Það er kunnugt, að samningar hafa oft og iðulega farið fram við útvegsmenn án þess, að gengið hafi verið frá fjáröflunarleiðum í sambandi við uppbætur til útgerðarinnar. Og það er e. t. v. algengara, að sá háttur hafi verið hafður á, að samningarnir hafi fyrst farið fram, en síðan hafi fjáröflunarleiða verið leitað í samræmi við gerða samninga. Og það verður ekki séð, að neitt sé því til fyrirstöðu, að þetta verði gert á sama hátt nú eins og á undanförnum árum. Auk þess mundi slík þingkjörin 5 manna n. að sjálfsögðu hafa að baki sér meiri hl. Alþ. alveg á sama hátt og ábyrg ríkisstj.

Ég hyggst ekki hafa um þetta öllu fleiri orð nú á þessu stigi málsins. Ég tel eðlilegt og vil bera fram þá ósk við hæstv. forseta, að hann að lokinni þessari 1. umr. málsins boði til fundar í hv. fjhn., þannig að hún geti fjallað um málið og jafnframt verði gert það langt hlé milli funda, sem e. t. v. eru fyrirhugaðir, að þingflokkarnir geti fengið tækifæri til þess að fjalla um málið og taka afstöðu til þess.

Ef hæstv. forseti verður við þessum óskum, þá munum við ekki flytja þessa brtt. nú við þessa umr. málsins, heldur geyma það til síðari umr., ef þörf krefur. Hitt væri að sjálfsögðu langæskilegast, ef hv. n. og þingflokkarnir gætu staðið saman um till., sem gengi í svipaða átt og sú, sem ég nú hef boðað að flutt verði.