29.12.1958
Efri deild: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (728)

73. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Forseti (BSt):

Eins og menn sjálfsagt muna, var á síðasta fundi d. 1. umr. um þetta mál, og hafði ég hugsað mér að afgreiða málið út úr d. þann dag. Ástæðan til þess, að svo varð ekki, var sú, að boðuð var brtt., sem nú er fram komin á þskj. 145, og óskað eftir, að fjhn. taki málið til nýrrar athugunar.

Ég þóttist því sjá, að ekki gæti orðið um afgreiðslu málsins fyrir jól að ræða, eins og á stóð, mundi þessi till. valda allmiklum umr., og þess vegna varð ekki af því, að ég boðaði nýjan fund í d. þennan dag. Það er því algerlega rangt, sem staðið hefur í blaði hér í bænum, að tiltekinn stjórnmálaflokkur hafi komið í veg fyrir það, að þetta mál væri afgreitt fyrir jól. Ég ber einn ábyrgð á því og kannske að nokkru leyti hv. 8. landsk. líka með því að lýsa þessari till. En málið er hér til 2. umr.