11.11.1958
Neðri deild: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

35. mál, dýralæknar

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég frv. um breyt. á l. um dýralækna, samhljóða frv. því, sem hér liggur fyrir. Það hlaut meðmæli hv. landbn. í þessari d. og var samþykkt í þessari hv. d. óbreytt. En í hv. Ed. var málinu vísað frá með rökst. dagskrá. Ég hef því leyft mér að bera þetta frv. fram enn að nýju. Ástæður fyrir því eru þær sömu sem ég gerði grein fyrir við flutning málsins í fyrra.

Efni frv. er það, að lagt er til, að dýralæknisumdæmi Austurlands verði skipt í tvö umdæmi, þ. e. Austurlandsumdæmi, sem nái yfir Norður-Múlasýslu, Seyðisfjörð, Neskaupstað og Suður-Múlasýslu að Berufirði, og Hornafjarðarumdæmi, sem nái yfir Austur-Skaftafellssýslu og Búlandshrepp og Geithellnahrepp í Suður-Múlasýslu.

Að undanförnu hefur sú þróun átt sér stað, að fjölgað hefur verið við og við umdæmum dýralækna hér á landi. En það er ótvírætt, að dýralæknisumdæmi Austurlands er nú hið langvíðáttumesta allra dýralæknisumdæma í landinu. Það nær frá Langanesi að Skeiðarársandi, og er einum dýralækni, sem hefur aðsetur á Egilsstöðum, ætlað að veita fullnægjandi þjónustu á öllu þessu svæði.

Reynslan hefur sýnt, að það er einum manni ofvaxið að veita þá þjónustu á þessu sviði, sem bændur telja sér brýna þörf á að geta notið. Einkum er það svo, að eftir því sem meiri alúð er lögð við búfjárrækt og bændur stefna að því marki að fá sem mestar afurðir af hverjum einstaklingi búfjárins, eftir því reynist það tilfinnanlegra, ef ekki er auðið að ná til dýralæknis og bægja frá dyrum sjúkdómum, sem oft vilja herja í búfé bænda.

Þörfin á þessu sviði vex þó sérstaklega, þegar lögð er stund á mjólkurframleiðslu. En nú hagar svo til á Hornafirði, að á síðustu árum hefur verið reist þar mjólkurbú, og fer mjólkurframleiðsla mjög ört vaxandi í héraðinu. Bændafundir í Austur-Skaftafellssýslu hafa gert samþykktir í þessu máli og óskað þess eindregið, að sú breyt. fengist lögfest á skipun dýralækna, sem farið er fram á með þessu frv.

Ég mun nú ekki fara fleiri orðum um þetta mál, en vænti þess, að þessi hv. d. taki málinu vel nú eigi síður en á síðasta þingi. Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. landbn. og til 2. umr.