09.12.1958
Neðri deild: 36. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

35. mál, dýralæknar

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er flutt af hv. þm. A-Sk., er samhljóða því frv., sem var hér til umr. á síðasta þingi og þessi hv. þd. samþykkti. Ég vænti því þess, að hugur hv. þm. til þessa máls sé nú hinn sami sem fyrr.

Það hefur sýnt sig á undanförnum árum, eftir því sem búfé hefur fjölgað í landinu, að þá er þörf alls staðar fyrir auknar leiðbeiningar um meðferð þess og á þetta ekki sízt við þar, sem mjólkurframleiðslan fer ört vaxandi, eins og í Austur-Skaftafellssýslu og þá sérstaklega í Hornafirðinum, enda er þaðan langt til dýralækna, því að þeir eru næst staðsettir á Egilsstöðum á Héraði og á Hellu á Rangárvöllum. Það er því bæði kostnaðarsamt og erfitt að ná til þeirra, þegar mest þarf með, en það er jafnan vetrarmánuðina. Þessi ósk Austur-Skaftfellinga er því fram komin af brýnni þörf og á sanngirni reist.

Starfandi eru nú dýralæknar í öllum lögskipuðum umdæmum, en auk þess hafa einstakar stofnanir ráðið til sín dýralækni, eins og til dæmis mjólkursamsalan hérna í Reykjavík. Erlendis eru við dýralæknisnám fimm ungir menn, sem koma heim á næstu árum og að öllum líkindum einn þegar á næsta ári. Það mun því ekki skorta sérmenntaða menn í þessum efnum nú á næstunni.

Yfirdýralæknir, sem fékk þetta frv. til umsagnar, mælir með því nú sem fyrr, og vænti ég, að hv. þm. samþykki einnig þetta frv. nú sem fyrr.