20.11.1958
Neðri deild: 25. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég skal nú mjög stytta mál mitt og ekki fara neitt að skattyrðast við hv. 1. þm. Rang. (IngJ), enda skildist mér á hans ræðu, að hann væri þessu meðmæltur í meginatriðum, og ég efa ekki, að því betur sem hann kynnir sér málið, þá verður hann því meðmæltari því og öruggara, að hann fylgi því.

En mér fannst þó koma fram í hans ræðu dálítið einkennilegur misskilningur að sumu leyti. Honum finnst, að það þurfi að leita umsagnar hvers einstaks bónda á landinu um þetta mál. En ég vil aðeins leyfa mér að spyrja: Til hvers erum við með slíkar stofnanir eins og Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, sem hafa fundi árlega með kosningum með mjög fárra ára millibili, ef ekki á að taka neitt mark á því, sem fulltrúar þessara stofnana ákveða? Það vildi nú svo til, að Búnaðarfélagið — (Gripið fram í.) Já, já, það þarf ekki meira, en þetta. En það vildi nú svo til, að það var síðasta búnaðarþingið, sem háð var í fyrra, áður en kosningar skyldu fara fram og þá samþykkti búnaðarþingið því nær einróma að óska eftir, að þetta gjald yrði lagt á bændurna. Ég hef ekki séð, að þetta hafi haft áhrif á það, að þeir fulltrúar, sem fylgdu þessu á búnaðarþingi, hafi farið verr út úr kosningunum, en aðrir.

Ég veit ekki, hvað Ingólfur Jónsson, hv. 1. þm. Rang., eiginlega meinar með því að hugsa sér, að það verði um hvert einstakt mál að fara til hvers einstaks félagsmanns. Þetta er alveg óhugsandi. Ég efast um, að hann geti framkvæmt þetta í sínu ágæta kaupfélagi þar austur frá. Að vísu veit ég það ekki. En það má vera mikil þrautseigja, ef hann um hvert einstakt mál getur fengið atkv. hvers bónda og hvers félagsmanns um það, hvað gera á í hverju einstöku máli.

Eftir þetta, að búnaðarþing gekk á þennan hátt frá þessu máli, eins og við erum auðvitað alveg sammála um, að það leikur ekki á tveim tungum, hvernig það var gert, þá var málinu frestað í fyrra, aðallega til þess að fá umsögn Stéttarsambandsins skjallega á borðið.

Stjórn Stéttarsambandsins var einhuga um málið. Hún leggur málið fyrir aðalfund Stéttarsambandsins í haust. Og það er afgreitt á stéttarsambandsfundinum á þann hátt, sem segir hér og ég skal ekki orðlengja að neinu leyti. Ég veit eiginlega ekki, hverjar sannanir hv. 1. þm. Rang. vill frekar en þetta. Ef ekki má taka gilt fulltrúaráð félaga eins og þessara, sem eru kosin á jafnlýðræðislegan hátt og búnaðarþingskosningar eru og kosningar til Stéttarsambands bænda, þá skil ég eiginlega ekki, hvernig á að fara að þessum málum. Við erum að vísu smáríki, en við erum þó of stórir til þess, að það sé hægt að skrifa hverjum einasta manni, sem er í þessum samtökum og spyrja hann: Ert þú með eða móti? Þetta auðvitað hljóta allir að skilja. Og þetta skilur hv. 1. þm. Rang. vitanlega mjög vel. En það var þetta, sem ég var dálítið undrandi yfir, að hann skyldi vera að flagga með í þessu máli, að ekki væri búið að fá upplýsingar um vilja þeirra, er eiga að taka á sig þessi gjöld. Ég held, að búið sé að gera það, eins og mögulegt er. Og þess vegna vænti ég þess nú, að hv. þm., Ingólfur Jónsson, verði nú, þegar hann athugar þetta mál frekar, öruggur stuðningsmaður þess.

Hann var með einhverjar vangaveltur út af þeim upplýsingum, sem ég gaf um bygginguna. Þær voru ekki tæmandi, enda er ómögulegt að gefa tæmandi upplýsingar um byggingu, sem er á þeirri leið eins og hún er nú. En hv. þm. er ungur maður, og hann getur kannske lifað 70 ár enn, því að þá verða menn sjálfsagt komnir á það stig að verða yfir 100 ára. Og þá vil ég bara segja honum það, að ég er alveg sannfærður um, að þessi höll, sem hann telur nú að sé ákveðin allt of stór fyrir stofnanir landbúnaðarins, hún verður þá talin allt of lítil. Hún verður þá talin eitthvað svipað því og við núna lítum á Lækjargötu 14 og hvað úrelt hún er orðin og erfið fyrir okkur. — Lífið er nú svona, og framvindan er þannig. Ég vildi auðvitað óska þess, að hv. 1. þm. Rang. lifði það að sannfærast um þetta af reynslunni. — Svo sé ég ekki ástæðu til að segja fleiri orð.