20.11.1958
Neðri deild: 25. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. meiri hl. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þarf í raun og veru ekki að svara hv. þm. A-Húnv., því að það kom ekkert nýtt fram í ræðu hans. Aðeins vildi ég vekja athygli á því, að þm. A-Húnv. virtist leggja sérstaka áherzlu á, að það væri meiri þörf á því að verja fé til að byggja vegi og brýr og annarra nauðsynlegra hluta, og skal ég sízt af öllu mæla móti því, að það séu þarflegir hlutir. En hann hefur sýnilega ekki fylgzt fyllilega með, því að eitt af því, sem kom fram t. d. á síðasta stéttarsambandsfundi frá skoðanabræðrum hans, andmælendum þessa máls var, að það væri ríkissjóður, sem ætti að byggja þetta hús Búnaðarfélagsins, félagið væri það mikið ríkisfyrirtæki, að það væri sanngjarnt, að ríkið legði fram fé til þessarar byggingar. En því fé a. m. k., sem ríkið legði fram til þeirrar byggingar, verður þó ekki varið til þess að byggja vegi eða brýr.