20.11.1958
Neðri deild: 25. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem mig langaði til að segja hér í sambandi við það, að hér hefur komið fram till. um að senda þetta mál að nýju, áður en það fengi afgreiðslu hér á Alþingi, heim í sveitirnar og leita enn á ný álits bændanna um afstöðu þeirra til þess. Út af þessu þykir mér rétt að benda á, að þetta mál hefur fengið alveg sérstakan undirbúning að því er það snertir, að fyrir liggur á réttan og eðlilegan hátt álit bændanna á þessu máli. En frv. felur ekkert annað í sér, eins og hér hefur verið lýst, en það, að Alþingi veiti fast form þeim skatti, sem bændurnir vilja leggja á sjálfa sig til þess að byggja upp félagsskap sinn. Þetta er eðli málsins. En þetta mál hefur fengið, eins og ég sagði, alveg sérstakan undirbúning. Áður, en það er nú að þessu sinni lagt fyrir Alþingi, hafa tvö aðalfélagssamtök bændanna, sem eru brjóstvörn þeirra út á við, þ. e. Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, eða réttara sagt aðalfundur Stéttarsambands bænda, sem fulltrúar af öllu landinu kjörnir af þeim mæta á, — þessar stofnanir báðar hafa að heita má einróma mælt með því og óskað eftir því, að Alþ. létti þannig fyrir um innheimtu þessa skatts, sem bændurnir vilja leggja á sjálfa sig og verja til þess að byggja upp með myndarlegum hætti þeirra félagssamtök, sem veiti þeim í félagsmálabaráttu sinni stoð og styrk, bæði nú og í framtíðinni. Hér er lagður grundvöllur að byggingu, sem ekki einasta á að þjóna deginum í dag eða næsta dag, heldur kemur þar fram stórhugur bændanna í því að reisa myndarlega byggingu yfir starfsemi sína, er sýni stórhug þeirra og framsýni.

Ég vil þess vegna segja með tilliti til þessa sérstaka undirbúnings, að ég teldi það vera móðgun við bændastéttina og lítilsvirðing á þeim félagsstofnunum, sem sagt hafa álit sitt um þetta mál og álit bændanna á því, ef Alþ. tæki upp þann hátt að hafa að engu tillögur þeirra og óskir í þessu máli og færi að senda það aftur heim til bændanna. Það væri móðgun við bændastéttina, ef Alþ. léti sig henda slíkt.