12.01.1959
Neðri deild: 54. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls, sem hér er á dagskrá, frv. til l. um breyt. á l. um búnaðarmálasjóð, gerði ég það að till. minni, að þetta frv. yrði sent í búnaðarfélögin, hreppabúnaðarfélögin á landinu, til umsagnar, þannig að bændum gæfist kostur á því að segja til um það, hvort þeir vildu taka á sig þann skatt, sem hér um ræðir, til þess að hann yrði síðan notaður til húsbyggingar hér í Rvík, ekki til þess að fullnægja þörfum Búnaðarfélags Íslands eða bændanna, heldur til þess að leigja út, vegna þess að það hefur komið í ljós, að þær tekjur, sem búnaðarmálasjóður hefur núna samkv. gildandi lögum, mundu nægja til þess að byggja gott og myndarlegt hús yfir Búnaðarfélag Íslands og yfir bændasamtökin í heild.

Ég held, að það efist enginn um það, sem hefur kynnt sér þessi mál, að þær 2 millj. kr. eða allt að 3 millj. kr., sem tekjur búnaðarmálasjóðs nú eru árlega samkvæmt gildandi lögum, að þeir peningar, sem þannig koma, væru nægilegir til þess að byggja myndarlegt hús yfir bændasamtökin í landinu. En það er vegna þess, að flm. þessa frv. og talsmenn þessa frv. láta sér nægja að byggja það, sem er nauðsynlegt fyrir bændasamtökin í nútíð og náinni framtíð, að talið er nauðsynlegt að bera þetta frv. fram, sem fer fram á það, að lagt verði ½% gjald á söluverð landbúnaðarvara, eða eykur tekjur búnaðarmálasjóðs árlega um allt að 2 millj. kr. með því framleiðslumagni, sem nú er á landbúnaðarafurðunum og með því verði, sem nú er. Vonandi vex þessi upphæð með vaxandi framleiðslu og hækkandi verðlagi á landbúnaðarvörum í samræmi við dýrtíðina í landinu. Gert er ráð fyrir, að þessi lög gildi í fjögur ár, en vitað er, að ef samþykkt verður að byggja samkvæmt þeirri teikningu, sem fyrir hendi er, þá nægir ekki tekjuöflun í fjögur ár, það verður að framlengja þessi lög um ótiltekinn tíma og er bændum þá gert að greiða um langa framtíð þennan skatt, sem gengur til þess að byggja verzlunarhús hér í Rvík, sýningarsali og fundarhús til þess að leigja út, sem á að verða fyrir bændastéttina, að sagt er, gróðafyrirtæki, en þó ekki fyrr, en eftir langan tíma. Það getur vel verið, að samkvæmt þessu megi segja, að þeir, sem gerast talsmenn fyrir þessu, séu að berjast fyrir fagurri hugsjón, þeir séu að berjast fyrir metnaði bændastéttarinnar, þeir séu að berjast fyrir því, að bændastéttin sýni mátt sinn og afl sitt með þeim samtakamætti, sem speglast í þessu frv. og þeim lögum, ef að lögum verður, sem á þessu frv. eru byggð. En ég hygg, að bændastéttin hafi sýnt ótvírætt án þess að reisa hér hús, að hún er þess virði í þjóðfélaginu, sem hvern þjóðfélagsþegn verður að meta og bændastéttin hefur ekki þörf á því að sýna metnað sinn á þann hátt, sem þetta frv. fer fram á, því að hún hefur sýnt það með störfum sínum í þjóðfélaginu, að hún hefur metnað, að hún hefur þann tilverurétt í þjóðfélaginu, sem enginn sanngjarn maður efast um.

Þetta frv. hefur verið borið saman við það, að Fiskifélag Íslands hefur byggt hús fyrir nokkuð af því fé, sem hefur komið inn samkvæmt lögum um útflutningsgjald af seldum sjávarafurðum. Þetta er náttúrlega að mörgu leyti mjög ólíkt því, sem hér er farið fram á vegna bændastéttarinnar, vegna þess að fiskifélagshúsið er byggt aðeins fyrir lítið brot af þeim tekjum, sem inn koma vegna útflutningsgjalds af sjávarafurðum, en með þessu frv. er farið fram á að leggja aukaskatt á bændur eingöngu til þess að byggja hús, sem vitað er fyrir fram að bændastéttin sjálf hefur ekki brúk fyrir. Í öðru lagi er þetta ólíkt að því leyti, að útflutningsgjaldið er ekki tekið af sjómönnunum, það er ekki tekið af verkamönnunum, sem vinna að framleiðslunni, það mun einhver segja, að það sé tekið af útgerðarmönnunum, en ég spyr: Borga útgerðarmennirnir þetta gjald úr eigin vasa? Ég spyr: Er ekki hliðsjón höfð af þessu út flutningsgjaldi, þegar krafa er gerð um styrk frá ríkissjóði eða útflutningssjóði til útgerðarinnar, eða hvernig ættu útgerðarmenn að borga þetta fé úr eigin vasa, ef þeir eru alltaf að tapa árlega, eins og sagt er? Ég hygg, að með því fyrirkomulagi, sem nú er á útgerðarmálum okkar Íslendinga, megi segja, að þetta gjald sé greitt af því opinbera. Það er ólíku saman að jafna, útflutningsgjaldi af sjávarafurðum og gjaldi samkv. búnaðarmálasjóðslögunum á landbúnaðarafurðir. Ef það ætti að vera líku saman að jafna, ætti útflutningsgjaldið að vera tekið af sjómönnunum, vera tekið af verkamönnunum, sem vinna að sjávaraflanum. Útflutningsgjald af sjávarafurðum er ekki kauplækkun á sjómenn eða verkamenn, sem vinna að sjávarafurðum, en gjald það, sem á að leggja á bændastéttina samkv. þessu frv., er beinlínis lækkun kaupgjalds bændunum til handa.

Það er tekið af kaupi bændanna í þetta hús. Og það er það, sem ætlazt er til að hv. Alþingi lögfesti nú, það er kauplækkun handa bændum að þessu leyti. Og ég spyr nú hv. alþm.: Vilja þeir ekki vera lausir við að gera slíkt? Væri ekki eðlilegt, að þeir bændur, sem telja nauðsynlegt að sýna metnað bændastéttarinnar í því að byggja veglega höll hér í höfuðstaðnum, legðu þetta gjald á sig af frjálsum vilja? Til þess eru ótal leiðir, að þeir bændur, sem vilja og hafa efni á að taka á sig þetta gjald, geri það án þess, að um það hafi farið fram lagasetning á Alþingi.

Nú munu sumir halda því fram, að bændur skorti skilning á þessum málum til þess að gera slíkt af frjálsum vilja, enda þótt þeir hafi fullkomlega efni á því að láta þetta gjald af hendi. Ég er þeirrar skoðunar, að stór meiri hluti bændastéttarinnar sé á móti þessu frv. og þeirri lagasetningu, sem hér er fyrirhuguð. Ég hef einnig ástæðu til þess að halda, að þeir, sem berjast fyrir þessu máli, séu sömu skoðunar og ég í þessu efni, vegna þess að ef þeir hefðu ekki verið hræddir um, að meiri hluti bændanna snerist á móti málinu, þá hefðu þeir getað fallizt á till. þá, sem ég lýsti hér við 1. umr. málsins, að bera málið undir bændur. Það vildu þeir ekki gera af ótta við, að það kæmi greinilega í ljós, að bændastéttin væri á móti málinu. Sú viðbára, sem kom fram, að það tæki heilt ár að spyrja bændastéttina í þessu máli, er vitanlega blekking ein. Með þeim samgöngum, sem nú eru, og aðstöðu allri til þess að ná til manna er hægt að gera slíkt á einum mánuði. En þessu var hafnað. [Frh.]