15.01.1959
Neðri deild: 56. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Ræður falla nú hér á þá lund og einkum og alveg sérstaklega sá hluti ræðu hv. 1. þm. Rang., sem ég hlustaði nú á og hann var að ljúka, að hér sé ærinn voði á ferðinni. Það er hvorki meira né minna en það, að hér er verið að stefna bændastéttinni í slíkan háska, að hún geti ekki lítið björtum augum til framtíðarinnar, ef að henni verður búið með slíkum hætti sem felst í þessu frv.

Mér þætti ákaflega vænt um, ef hv. þm. vildi strax draga í land. Mér hálfheyrðist, að frammítekt hans væri nokkurt merki þess. En þvílík gífuryrði og fjarstæða sem þetta, að bændastétt landsins gæti ekki litið björtum augum til framtíðarinnar, þótt þeir láti þetta fé af höndum, að þetta skuli falla af vörum fulltrúa bænda í landinu í sambandi við þetta mál, það sætir furðu. Er það virkilega svo, að framtíð bændastéttarinnar hangi á slíkum bláþræði frá hans sjónarmiði séð? Mín skoðun er aftur á móti sú, að ef nokkur stétt í þessu landi geti litið björtum augum til framtíðarinnar og það geta þær vissulega allar gert, þá er það bændastéttin með þeim verkefnum, sem hún hefur með höndum í landi sínu, og með þeim framfarahug og úrræðum, sem hún býr yfir, bæði á sviði atvinnulífs og félagsmála. Fjárframlag það, sem hér um ræðir, er nauðsynlegur þáttur í uppbyggingu hinnar félagslegu starfsemi bændanna. Hér eru þess vegna algerlega höfð hausavíxl á hlutunum, og það gætir undraverðs skilningsleysis hjá hv. 1. þm. Rang., að þetta mál sé þáttur í því að hnekkja bændastéttinni og hrekja hana út af bjartri braut framtíðarinnar.

Mér hefur verið sagt, að í fyrri hluta ræðu hv. 1. þm. Rang. hafi verið að því vikið, að það gjald, sem sjómenn og útgerðarmenn hafa lagt fram til stórbyggingar þeirrar, sem þeir hafa reist á vegum Fiskifélags Íslands, sé ósambærilegt þessu gjaldi. Og mér virtist, að hv. 1. þm. Rang., er hann nú hóf mál sitt, færi nokkuð enn inn á þessa braut. Hv. 2. þm. Skagf., sem hélt mjög rökfasta framsöguræðu í þessu máli, gerði samanburð á þeirri aðstöðu, sem fyrir hendi er hjá Fiskifélagi Íslands til þess að byggja upp stofnun hjá sér fyrir fé fiskimanna og útvegsmanna, hún væri alveg samstæð við þá aðferð, sem lagt væri til að hér væri farin, að bændur legðu sjálfir fram með sama hætti og sjómenn og útgerðarmenn fé til þessarar byggingar.

Ég þarf ekki að lýsa því frv., sem hér liggur fyrir um þetta efni. Það er öllum kunnugt. Þar er eingöngu farið fram á það eitt að Alþingi setji lög, þar sem ríkisvaldinu er falið að nota innheimtukerfi sitt til þess að innheimta þetta ½% gjald, jafnframt því sem lögákveðið er, að það skuli á lagt.

Um það fé, sem Fiskifélagið hefur haft til umráða í þessu efni, hefur verið farið alveg eins að. Ég hef, til þess að ég væri ekki einn til frásagnar um þetta, beðið fiskimálastjóra að gefa á því skýringu, hvernig þetta er til komið og hvernig þetta er gert. Og sú skýring er á þá lund, að með bráðabirgðaákvæði í lögum um stofnlánadeild sjávarútvegsins 1946 var svo ákveðið, að 1/8% af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sem áður hafði runnið til Fiskveiðasjóðs Íslands, skyldi renna til þess að standa straum af stofnkostnaði við byggingu rannsóknarstofnunar fyrir sjávarútveginn á vegum Fiskifélags Íslands. Þetta ákvæði skyldi fyrst um sinn gilda til ársloka 1949, en var síðan framlengt. Loks var svo ákveðið með lögum frá 4. júní 1957, um breyt. á lögum 5. júní 1941 um útflutningsgjald af sjávarafurðum, að eitt útflutningsgjald skyldi leggja á allar sjávarafurðir, 2¼% af verði afurðanna, og var þetta gert í samráði við stofnanir sjávarútvegsins, sem annast útflutning afurðanna, og enn fremur í samráði við fiskiþing og Fiskifélag Íslands. Þetta var gert samkvæmt tillögum þeirra, sem voru hér í forustu fyrir útvegsmenn og sjómenn. Þetta gjald var svo lagt á og jafnframt ákveðið, að það skyldi renna til sjávarútvegsins, og skiptingin átti að vera á því eins og hér segir: Til fiskveiðasjóðs áttu að renna 74% teknanna, til þess að standa straum af kostnaði vegna byggingar rannsóknarstofnunar sjávarútvegsins á vegum Fiskifélags Íslands 4%, til Landssambands íslenzkra útvegsmanna 4% og til fiskimálasjóðs 18%.

Þannig hefur frá upphafi vega frá 1946 verið ákveðin í löggjöf viss prósenta af útflutningsgjaldi sjávarafurða, sem átti að renna til Fiskifélags Íslands til byggingar í þarfir sjávarútvegsins hér í Reykjavík. Þetta er þess vegna algerlega og nákvæmlega hliðstætt við það, sem hér er farið fram á, að bændurnir leggi fram lítinn skatt til byggingar búnaðarfélagshúss á vegum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Hér er enginn munur á. Þörf þessara höfuðatvinnuvega landsins fyrir að eiga slíkar byggingar í Reykjavík fyrir starfsemi sína er alveg hliðstæð og framlag til þeirra sömuleiðis. Og ég minnist þess ekki, þegar lögin um þetta voru sett 1946 og aftur 1957, að þar kæmi fram nein viðkvæmni, hvorki hjá hv. þm. A-Húnv. né hv. 1. þm. Rang., fyrir því að vera að leggja þennan skatt á fiskimenn og útvegsmenn til þess að byggja stórhýsi í Reykjavík. Þeir tala mjög mikið um það að byggja stórhýsi. Og hér hefur verið byggt stórhýsi á vegum Fiskifélags Íslands, sem er upp á 6 hæðir. Áður hafði Fiskifélagið — fyrir 30 eða 40 árum byggt yfir starfsemi sina, þ. e. a. s. skrifstofustarfsemi sína hérna í Reykjavík. Og þegar það hús var byggt, var það svo vel við vöxt, að það var leigður út helmingurinn af því til tekjuauka fyrir Fiskifélagið, sem voru vitanlega drjúgar tekjur fyrir það til þess að standa undir þeim þörfum og þeim framkvæmdum, sem Fiskifélagið hafði á hendi fyrir fiskimennina og útvegsmennina í landinu.

Þróunin hjá Fiskifélagi Íslands hefur verið sú, eins og ég áður lýsti, að það notar nú allt gamla húsið, en þeim margháttuðu rannsóknum í þágu sjávarútvegsins, sem það rekur, hefur verið komið fyrir í hinni nýju byggingu. En þetta stórhýsi er vel við vöxt, því að félagið er þegar búið að leigja út 2½ hæð í byggingunni einni ríkisstofnun hér, sem er ríkisútvarpið. Og þetta er gert með þeim hætti, að ríkisútvarpið hefur lagt fram 3 millj. kr. nú þegar til þess að innrétta þessar hæðir, sem það svo borgar með leigugjöldum samkvæmt þeim samningi, sem um þetta hefur verið gerður. Ég hef ekki heyrt einn einasta mann í sjómannastétt eða útgerðarmannastétt hneykslast á því eða telja það vera nokkurt hneykslunarefni, þó að forráðamenn fiskimanna og útgerðarmanna hafi farið svona að í sínum byggingarmálum. Þvert á móti líta þeir svo á, að í þessu felist hvort tveggja í senn fyrirhyggjusemi og framsýni.

Þegar maður svo ber þetta saman við það, sem er að gerast hjá Búnaðarfélagi Íslands, þá er alveg sama upp á teningnum nema það, að Búnaðarfélagið og Stéttarsambandið, það eru félög, sem eru í fararbroddi fyrir félagsmálum bændanna, — þau hafa orðið hér seinni til, og bændunum hefur þótt miður, að þeir skyldu dragast hér aftur úr.

Hv. 1. þm. Rang. segist tala hér í nafni bændastéttarinnar, þegar hann er að mótmæla framlagi hennar til byggingarinnar. En ég vil spyrja — (Gripið fram í.) Er hann þá líka að draga í land í því? Hann sagði þetta. — Ég sagði, að hann hefði sagt, að hann segðist tala hér í nafni bændastéttarinnar, og nú vona ég, að þetta hafi borizt til eyrna hv. 1. þm. Rang. En ég vil bara spyrja hann: Í hvers umboði talar hann? Hvar er umboðið, sem hann hefur til þess að tala hér fyrir bændastéttina, nema þá kannske einhverja fáeina Rangæinga, — ég veit það ekki, — en hvar er umboðið? En okkur, sem stöndum að þessu máli, telur hann umboðslausa og telur það ákaflega eðlilegt, að við skulum ekki heldur hafa umboð til þess að vinna slíkt skemmdarverk fyrir bændastéttina eins og í þessu frv. felist. En ég hef fært að því full rök, að við höfum umboð, sem flytjum þetta mál. Ég þarf náttúrlega ekki að vera að endurtaka það hér, það hefur svo oft verið sagt, að búnaðarþing hefur eftir tillögum frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda samþykkt, að frv. þetta skuli borið fram á Alþingi og það hefur samþykkt það svo rækilega, að það voru aðeins tveir menn, sem greiddu atkvæði gegn því. Ég held kannske, að annar þessara manna hafi verið Rangæingur, og máske er það umboðið, sem hv. 1. þm. Rang. þykist hafa til þess að tala hér fyrir meiri hluta bændastéttarinnar, — þetta eina atkvæði úr Rangárvallasýslu, sem féll á móti samþykkt málsins á búnaðarþingi.

Á stéttarsambandsfundinum, þar sem fulltrúarnir eru eitthvað um 80, — hvað voru það margir þar, sem greiddu atkvæði á móti þessu frv.? Þeir voru sex, sem greiddu atkvæði á móti málinu á þessum fjölmenna fundi. Og svo ber hv. 1. þm. Rang. fram hér, að það hafi enginn annar en hann og máske hv. þm. A-Húnv. (JPálm) umboð til þess að tala fyrir bændurna hér á Alþingi í þessu máli.

Það er ekki einasta það, að þessar félagsmálastofnanir bændanna hafi samþ. þetta svona eindregið og samhljóða, því að við kosningar til búnaðarþings, sem eru nýafstaðnar, voru þeir menn allir endurkosnir, sem að máli þessu stóðu og á annað borð voru í framboði við þessar kosningar og var þetta mál þó að sjálfsögðu rætt á búnaðarsambandsfundunum, þar sem þessi kosning fer fram. Sama er um kosningar á stéttarsambandsfundinn. Hvað felur þetta í sér annað, en samþykki og eindrægni bændastéttarinnar fyrir því, að þetta gjald skuli á lagt til þess að hrinda áfram þeirri byggingu, sem nú er verið að reisa hér í Reykjavík?

Hv. 1. þm. Rang. hefði átt að athuga, áður en hann talaði, hvar hann stóð í þessu máli og hvar við, sem flytjum þetta mál hér á Alþingi, stöndum, að því er tekur til vilja og álits bændastéttarinnar í málinu.

Það er nú of seint séð fyrir hv. þm. að gera þetta að vísu. En hann á þó enn eftir leið til þess að viðurkenna, hvernig þetta mál stendur og alveg sérstaklega hve höllum fæti hann stendur í málinu.

Ég skal nú ekki lengja mitt mál mikið úr þessu, því að málið er búið að koma oft fyrir og þarf að fá hér afgreiðslu. En ég get aðeins sagt það í sambandi við þann stórhug bændastéttarinnar, sem fram kemur í þessari byggingu, að það er engin eftirherma fiskimanna og útvegsmanna í þeirra framkvæmdum í þessu hliðstæða máli, heldur er þetta rétt spegilmynd og lýsing af hug bændastéttarinnar almennt á Íslandi til félagsmálastarfsemi sinnar. Aðalstofnanir félagsmálastarfseminnar eru hér í Reykjavík og þær hafa verið það frá upphafi vega. Hér var reist um aldamótin hús fyrir þessa starfsemi, sem þá var óþarflega stórt fyrir starfsemina, eins og hún var þá. En hún hefur nú þróazt það, að þessi starfsemi er löngu búin að sprengja utan af sér það húsrými, sem þá var byggt mjög vel við vöxt, og ég býst við því, ef hv. 1. þm. Rang. hefði verið uppi á þeim tíma og haft aðstöðu hér á Alþingi og eitthvað slíkt borið hér fyrir, ætli það hefði þá ekki verið svipaður söngur, sem hann hefði sungið um óþarfar byggingar og stórhýsi á vegum bændastéttarinnar í Reykjavík? Ég býst við því. Og það náttúrlega var miklu afsakanlegra, þó að slíkt kæmi fram á þeim tímum, heldur en að slíkur söngur birtist nú, eins og ástatt er með þjóð vorri og öllum þeim framförum, sem hér hafa orðið á verklegu sviði og félagsmálastarfsemi í þessu landi og bændur eru síður en svo, eftirbátar í. Þetta hús, sem verið er að byggja núna, það er alveg rétt, það er nokkuð umfram þörf þessara félagsheilda, eins og hún er nú. En við sjáum vel það langt fram í framtíðina, að hér verður breyting á, þróun í þessu efni, svipuð og hún hefur verið á undanförnum áratugum og það er ekki af rasandi ráði gert, að ákveðið hefur verið að taka nokkurn hluta í þessu húsi og leigja til verzlunar og einnig máske til gistihúsahalds eða veitinga, — þetta er allt að fullkomlega yfirveguðu máli gert.

Bæjarstjórn Reykjavíkur, — og á borgarstjórinn mikinn hlut í því, — hefur sýnt bændastéttinni þann velvilja og fyrirgreiðslu í þessu efni að úthluta henni til byggingar á þessu húsi einhvern fegursta og bezta framtíðarstað í þessum bæ, þar sem þegar er orðin allmikil bygging í kring, en eykst óðum. Og á slíkum stað, miðað við alla staðhætti hér í Reykjavík, er auðvitað alveg sjálfsagt að nota út í yztu æsar þá aðstöðu, sem bæjarstjórnin hefur veitt bændunum hér, um það að hafa aðstöðu til þess í þessu húsi, að hægt sé að hafa þar verzlunarrekstur á neðstu hæð og einnig að áætla eina hæð, sem hægt væri að leigja til gistihússrekstrar. Og meiningin er að fara að með byggingu þessa á líkan hátt til þess að létta kostnaðinn og gera hægara í vöfum að koma byggingunni upp eins og Fiskifélag Íslands hefur gert, að leigja út þessar hæðir, þegar þær eru fokheldar, gegn því, að þeir, sem taka þær á leigu, leggi fram það fé, sem þarf til þess að koma þeim í það horf, sem nota á þær til í sambandi við væntanlegan rekstur.

Þetta er sú hyggilega aðferð, sem bændurnir eða forráðamenn þeirra hyggjast hafa um þetta og til þess að létta þeim gönguna við að koma þessu upp. Þess vegna er það, að bygging þessara hæða er gerð í því skyni að tryggja fjárhagsrekstur þessa húss í framtíðinni, því að það þekkja allir, sem nokkuð þekkja til hér í Reykjavík, að slíkt húsnæði gefur góðar tekjur, auk þess sem það er trygg og góð eign. Hér kemur þess vegna einnig fram fyrirhyggja og framsýni þeirra manna, sem að þessum málum standa f. h. bændastéttarinnar og bændastéttin hefur með samþykki sínu fyrir þessari byggingu, sem ég hef nú lýst, viðurkennt það og lýst því yfir, að hún er sammála því og samþykkir það, að svona skuli farið að. Það er með hennar samþykki gert, að svona skuli farið að og hún á sannarlega ekki heldur eftir að iðrast þess að hafa gert það. Þeir menn, sem leggjast á móti þessari ráðstöfun, sem þó væntanlega verður ekki til þess að hindra framgang málsins, enda væri það illa farið, — þeir eiga eftir að iðrast og þeir eiga bæði lifandi og dauðir eftir að standa bændastéttinni reikningsskap af þessu framferði sínu.

Ég get nú að mestu lokið máli mínu. Ég vil aðeins benda á, að það er sýnilega gert til að villa mönnum sýn í þessu máli, sem fram kemur í nál. minni hl., hv. þm. A-Húnv., þar er sagt, að þessi bygging sé fyrirhuguð hér í Reykjavík. Hvað þýðir það að vera „fyrirhuguð“? Ber ekki að skilja það svo, að talað hafi verið um eða ákveðið að gera einhvern hlut? Hér er þetta mál miklu lengra á veg komið. Máske hefur hv. þm. ekki vitað betur um þetta. Það er nefnilega búið að byggja hér kjallarann og neðstu hæðina, steypa hana upp. Svo segir hann, að „fyrirhugað“ sé að gera þetta. Ég veit það vel og ég fylgist alveg eins með þessari byggingu og hef gert mér alveg eins ljósa grein fyrir henni og framhaldi hennar og hv. þm. A-HÚnv., það getur hann verið alveg viss um.

Hann sagðist ekki bera neina ábyrgð á þessu. Þetta er alveg rétt. Hann ber enga ábyrgð á þessu, ekki neina. Hann hefur ekki heldur haft aðstöðu til að taka á sig neina ábyrgð í sambandi við þetta mál. Hvenær hafa bændurnir falið honum nokkra þátttöku í sinni félagsstarfsemi? Aldrei, svo að ég viti til. Það kann vel að vera, að hann sé framarlega í félagsskap bænda heima í sínu héraði, ég þekki það ekki, þó held ég, að hann sé ekki einu sinni í stjórn búnaðarsambandsins. Hv. þm. leiðréttir það og ég skal taka þá leiðréttingu strax til greina, ef ég fer ekki hér með rétt mál. En hitt er vitað, að honum hefur ekki verið falin nein þátttaka í þeim félagsskap bændanna, sem að byggingunni stendur, sem betur fer, liggur mér við að segja. Aldrei hefur hann verið í stjórn Búnaðarfélags Íslands, aldrei hefur hann, eða ekki a. m. k. síðan ég kom að þeim málum, verið á búnaðarþingi, aldrei hefur hann verið í stjórn Stéttarsambandsins eða framleiðsluráðs. Hann hefur þess vegna ekki haft neina aðstöðu til að bera neina ábyrgð á þessu. Og ég get sagt honum, að þó að hann gangi frá, þá eru nógu margir menn í bændastétt til þess að bera ábyrgð á þessari framkvæmd. Ekki svo að skilja, að ég hefði ekki gjarnan viljað þiggja hans góða lið í þessu máli og hefði talið, að hans hlutskipti væri allt annað og miklu betra, ef hann hefði veitt þessu máli lið, heldur en að snúast gegn því.

Sama má segja um hv. 1. þm. Rang. Hann hefur ekki heldur haft neina aðstöðu til þess að bera neina ábyrgð á þessu og þykir það víst gott, að hann hefur ekki haft það, — ég skal ekkert segja um það, en hann hefur ekki heldur haft hana. Honum hefur aldrei verið falið að standa fyrir neinni slíkri félagsmálastarfsemi á vegum bændanna hér. Hann var einhvern tíma í kjötverðlagsnefnd og vann sitt starf þar vel, að vísu ekki til þess kosinn af bændunum, heldur falið það af stjórnarvöldum og það starf vann hann vel og dyggilega.

Ég þarf ekki neinu við það að bæta, sem ég sagði hér áðan um það, að sá skattur eða hvað menn nú vilja kalla það, sem lagður er á fiskimenn og útvegsmenn til að afla fjár til ráðstöfunar fyrir Fiskifélag Íslands í byggingar, er alveg hliðstæður og með sama hætti til orðinn og sá skattur á bændurna, sem felst í þessu frv. Það er með samþykki og ósk þessara aðila, bæði sjávarútvegsmanna og bænda, sem skatturinn er til orðinn. Það kann náttúrlega að hafa átt sér stað, að einhverjar einstakar raddir hafi ekki verið sem ánægðastar með þetta, en þeirra hefur hvergi gætt og hvergi bólað á þeim, að þessi skattur yrði lagður á sjávarútvegsmenn, en í báðum tilfellunum er skatturinn tekinn af framleiðslunni. Það er viss hlutfallstala eða prósent af framleiðslunni, fiskframleiðslu sjávarútvegsins og kjöt- og mjólkurframleiðslu landbúnaðarins. Þar er ekkert, sem á milli skilur.

Ég skal svo ljúka máli mínu. Hv. 1. þm. Rang. hélt hér mjög langa ræðu áðan um kartöflur, um mjólk og kjöt og annað, sem mér í sjálfu sér fannst ekki koma þessu máli við. En það gerir ekkert til. Hann hóf þ. á m. mikla gagnrýni á það, hvernig búið hefur verið að landbúnaðinum núna undanfarin ár, og átti það víst að vera gagnrýni á fyrrv. stjórn. Ég get sjálfsagt tekið undir margt af því, sem hann sagði um þetta. En ég held nú, eins og þessum málum er núna komið, þá megi helzt segja, að það sé að leggjast á náinn.