02.02.1959
Neðri deild: 69. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég sagði hv. 1. þm. Rang. það áðan, að ég ætlaði ekki að fara að ræða um frv. til l. um útflutningssjóð við hann hér á þessum vettvangi, vegna þess að það liggur fyrir á næstu dögum, að það mál komi til umræðu. En ég vil bara taka það fram, að hv. þm. heldur því fram, að bændastéttin sé einráð um það, hvers konar húsrúm hún byggir hér í höfuðborginni. En það er síður en svo, allra sízt við Hagatorg í Reykjavík, þar sem eru fyrirhugaðar eingöngu stórar byggingar. Og mikið má vera, ef þetta hús, þó að kannske verði einhverjir örðugleikar á að koma því upp í bili, á ekki eftir að borga sig í framtíðinni. Það getur stundum borgað sig að láta nokkrar krónur til félagsmála, því að þær koma venjulega margfaldar þaðan aftur og miklu frekar, en þótt maður notaði þær til einhverra smávægilegra hluta heima fyrir. Og ég held, að hv. 1. þm. Rang. hljóti að hafa komið auga á það, að ræktun, bæði í Rangárvallasýslu og annars staðar á landinu, væri ekki jafnmikil, ef Búnaðarfélag Íslands hefði ekki á sínum tíma haft þá aðstöðu, sem það hefur nú, hefur haft og mun vonandi hafa í framtíðinni. Og það er með þessi félagssjónarmið fyrir augum, sem við, er stöndum að þessu frv., viljum, að það nái fram að ganga, því að við vitum, að það, sem verður lagt af mörkum af hálfu bændanna til þessara mála, kemur margfaldlega til þeirra aftur.