02.02.1959
Neðri deild: 69. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (890)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr., sem eru orðnar alllangar, enda þótt oft hafi gefizt tækifæri til þess, þar sem inn í þetta mál hefur verið dregið stórpólitískt mál. En af vissum ástæðum höfum við samt ekki farið inn á þá braut, framsóknarmenn, að fara út í almennar umr. í þessu sambandi. En þegar þau tækifæri hafa verið margendurtekin, er nokkur ástæða til þess.

Um málið í heild vil ég segja það, að ég tel það skyldu mína sem fulltrúa úr sveitakjördæmi að fylgja þessu frv., þar sem landssambönd bændastéttarinnar, bæði Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, hafa með miklum meiri hluta óskað eftir því, að þetta mál næði fram að ganga og hefur af hálfu flm. verið gerð svo glögg grein fyrir málinu í heild, að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það.

Ég hélt því, að það væri þess vegna ekki ástæða til fyrir hv. 1. þm. Rang. að fara að ræða meira um samanburð á húsi Fiskifélagsins og Búnaðarfélagsins, því að svo skörulega hrakti hv. þm. Borgf. þessa firru hv. 1. þm. Rang. um daginn, að það hefði átt að nægja honum.

En í tilefni af till. á þskj. 177 vildi ég mega spyrja hv. þm. A-Húnv., forseta Sþ., hvað hann segði nú um virðingu þessarar ágætu stofnunar, ef lög ættu því aðeins að taka gildi, að þau væru samþ. við almenna atkvgr., eftir að þau hefðu verið afgr. hér frá hæstv. Alþ. Mér sýnist nú, þrátt fyrir það að ég kunni ekki nema takmörkuð skil á afgreiðslu mála hér á hæstv. Alþ., þar sem ég hef átt hér stutta setu, að hér væri þó farið inn á braut, er mundi vera hæpin, og ég held, að þessi virðulegi forseti ætti ekki að standa að því, að svo yrði gert.

Út af því, sem þeir hv. þm., bæði hv. 1. þm. Rang. og hv. þm. A-Húnv., segja um verðlag á landbúnaðarvörum, vil ég bara segja það, að um verðlagningu á landbúnaðarvöru giltu lögin um framleiðsluráð frá 1947. Þar hefur engu verið breytt og á engan hátt verið gengið á rétt bændanna. Og ég vil segja það, að stjórn Stéttarsambands bænda og framleiðsluráðið hafa kunnað til þessa að fara svo giftusamlega með mál bændastéttarinnar, bæði þessi haust og önnur, að það er ástæðulaust að vera að sneiða að þeim hér á hv. Alþ. Ég vil líka segja það, að tvö s. l. haust hefur betur verið séð fyrir kostnaði við útsölu landbúnaðarvara, en gert var áður, svo að hið raunverulega verð mun vera nær því að nást þessi síðustu haust, en áður, vegna þessa ákvæðis. Þetta atriði olli nokkrum deilum í fyrrv. ríkisstj., eins og mönnum er kunnugt um, en það er sízt ástæða til fyrir þá, er telja sig fulltrúa bændastéttarinnar, að fara að ásaka þá, sem fyrir því stóðu að fá þetta leiðrétt.

Þá vil ég í sambandi við það, þegar þessir hv. þm. eru að tala um, að nú eigi í fyrsta sinn að verðleggja oftar, en einu sinni á ári, benda á, að það er í beinu sambandi við það, að þetta er gert við sjávarútveginn, sem ekki hefur verið áður, og var þess vegna eðlilegt, að þetta fylgdist algerlega að, en væri ekki sett sem undantekningarákvæði, eins og gert hefur verið í samþykkt á l., sem afgr. voru hér fyrir helgina.

Ég vil svo segja það í sambandi við það, sem hv. 1. þm. Rang. kastaði hér fram, að við framsóknarmenn lýstum því yfir við afgreiðslu frv. um niðurfærslu verðlags og kaupgjalds, að við mundum ekki fara að taka upp þá óábyrgu stjórnarandstöðu, sem flokkur hv. 1. þm. Rang. hafði hér, þegar fyrrv. ríkisstj. sat að völdum, og þess vegna mundum við ekki spilla fyrir framgangi málsins, jafnvel þó að málið hefði ekki fengið þá afgreiðslu, sem við óskuðum. Þeim var það ekki of gott, þessum herrum, að taka það til baka, sem þeir höfðu lagt á sig að koma hér fram til þess eins að fella fyrrv. ríkisstj. Og það var bezta sönnunin fyrir þeirra vinnubrögðum, að þeir skyldu nú sjálfir fara með það heim.