05.03.1959
Efri deild: 79. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ræða sú, sem hv. 1. þm. N-M. hefur nú flutt hér, gekk í svipaða átt og sú ræða, sem hann flutti hér í fyrradag í sambandi við þetta mál. Mér þykir rétt vegna þess tilefnis, sem hann drap einnig á í byrjun sinnar ræðu núna, að fara nokkrum orðum um málið, sem verður þá á svipaðan hátt og ég gerði í fyrradag, þegar ég flutti mína framsöguræðu og mælti fyrir minni brtt. við frv.

Hv. frsm. landbn. lagði áherzlu á tvennt í þessu máli í þessari ræðu sinni. Það var í fyrsta lagi, að bændasamtökum þeim, sem hér um ræðir, væri þörf á húsnæði, nýju húsnæði, auknu húsnæði, og í öðru lagi lagði hann áherzlu á það, að óþarfi væri að spyrja þá, sem vegna þessa ætti nú að skattleggja, hver afstaða þeirra væri til málsins, vegna þess að það væri ekki síður, þegar hv. Alþingi legði á skatta og ákvæði gjöld, að vera að spyrja þá, sem gjalda ættu, heldur réði Alþingi fram úr því máli án þess að vera að spyrja. En hv. þm. var þó búinn að segja það áður í sinni ræðu, að búnaðarfélögin hefðu verið spurð. Af hverju voru þau þá spurð, ef það var óþarfi? Hv. þm. hefur tjáð mér, að hann hafi á fundum í sínu kjördæmi einmitt rætt þetta mál við sína kjósendur þar. Hann sagði síðar við mig, að hann hefði gert það sem þingmaður, en það er alveg sama. Þetta sýnir bara það, að í þessu tilfelli hefur honum þótt rétt að skýra bændum frá þessu máli og heyra álit þeirra um það. Ef hann hefði álitið það vera algerlega óþarft að tala við bændurna um þetta, þá hefði hann vitanlega aldrei gert það. Þá leggur hann líka áherzlu á það, að Stéttarsamband bænda hafi samþykkt þetta gjald með miklum meiri hluta atkvæða. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. En það má benda á, að síðan hafa komið fram mótmæli úr ýmsum áttum og það allhörð, bæði frá samtökum bænda úti um land og einstaklingum, þar sem þeir mæla harðlega á móti þessu gjaldi.

Hv. þm. minntist í þessu sambandi á frv., sem hv. þm. S-Þ. og ég flytjum um bjargráðasjóð. Hann segir, að þar leggjum við til, að tekið verði gjald af bændum, og spyr, hvort þeir hafi verið nokkuð spurðir um það. Þetta er nú náttúrlega nokkuð annað mál. En ég veit ekki til, að það hafi enn sem komið er komið nein mótmæli fram á móti þessu frv. Það getur skeð, að þau eigi eftir að koma, en þau hafa ekki komið enn.

Það er nauðsyn á auknu húsnæði fyrir bændasamtökin. Ég lýsti því í minni framsöguræðu um þetta mál, að ég viðurkenndi það. Auðvitað er það öllum kunnugt, að þetta er sjálfsagt, og ég viðurkenndi það líka, að úr því sem komið væri, þá væri ekki annað að gera, en að halda áfram við byggingu á þessu stóra húsi, sem byrjað er á, sem ég sýndi einnig fram á að ekki er byggt svona stórt vegna þarfa bændasamtakanna, sem að því standa, heldur vegna þess, að það er byggt á þeim stað, þar sem skipulagið ákveður, að svona skuli byggt og öðruvísi ekki. Þetta er staðreynd. En ég viðurkenndi einnig, að það væri ekki um annað að gera héðan af en að halda þessu áfram. En það, sem spurningin stendur um frá mínu sjónarmiði, er þetta, að þegar spurt er um, hvað húsið sé komið langt á leið, hve mikið fé sé til, til þess að halda áfram að byggja, þá hlýtur það að vera undir því komið, hvað þá kemur í ljós, hvort nauðsynlegt sé að leggja 1½millj. kr. til 2 millj. kr. á ári í næstu 4 ár á bændur með beinum skatti af söluvörum þeirra til þess að koma húsinu áfram. Stöðvast það, ef þetta gjald verður ekki innheimt?

Það er þetta, sem mér finnst vera aðalspurningin í þessu máli, eins og nú stendur. Og hvað kemur svo í ljós, þegar spurt er um það, hvað búið sé að byggja mikið af þessu húsi? Það kemur í ljós, að búið er að byggja kjallara og fyrstu hæð, að til eru í byggingarsjóði um 2 millj. kr., fyrir utan ýmislegt af byggingarefni, sem til er, að von er á tekjum á þessu ári frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandinu. Þetta venjulega tillag, sem þessi bændasamtök leggja í byggingarsjóð á hverju ári, það er von á því, en hvað það er mikið, hef ég ekki fengið vitneskju um. En þegar þetta liggur fyrir, þá verður maður að halda, að það hafi ekki nein úrslitaáhrif á framgang byggingarinnar, hvort þessi nýi skattur verður innheimtur. Húsið mun ekki stöðvast vegna þess. Nú veit enginn enn þá, hve mikil fjárfestingarleyfi verða gefin fyrir þessu húsi í þetta sinn. Ég hef það frá áreiðanlegum heimildum frá því í gær, að það hefur ekki verið veitt fjárfestingarleyfi fyrir húsinu enn þá, það er ekki búið að afgreiða það. Nú veit enginn um það enn, hvað fjárfestingarleyfið verður hátt, e. t. v. ekki nema fyrir þeirri upphæð, sem til er núna.

En nú vil ég ekki gera neitt til þess, að byggingin stöðvist, þó að ég viðurkenni það, eins og ég segi, að húsið þarf að komast áfram, og það þýðir ekki, úr því sem komið er, að reyna að breyta því. Mín tillaga er því sú til þess örugglega að stöðva ekki bygginguna vegna fjárleysis á þessu ári að innheimta þetta gjald, 1½ millj. kr., í eitt ár. Að því loknu verði athugað frekar en, enn hefur verið gert, hvort nauðsyn verði á að framlengja þessa skattheimtu. Þá verði málið lagt fyrir búnaðarfélög landsins á næsta sumri, svo að álit þeirra geti legið fyrir á aðalfundi Stéttarsambands bænda á næsta hausti. Ég álít vera rétt að spyrja búnaðarfélögin um álit þeirra á þessu máli. Ef í ljós kemur, að meiri hluti þeirra gefur jákvætt svar við því, að gjaldið skuli innheimt, eða svarar ekki, þá skal ég ekki vera á móti málinu. En því verður ekki neitað, að eftir minni till. stöðvast húsið ekki, þ. e. a. s. ekki byggingin þetta ár, og ef til vill ekki einu sinni næsta ár, einkanlega ef yrði farið eftir því, sem ég benti á í framsöguræðu minni og hv. 1. þm. N-M. benti líka á í sambandi við Fiskifélagshúsið, að það hefur verið leigt og að mér skildist leigt fyrir fram og þeir peningar notaðir til þess að halda áfram að byggja. Þetta var einmitt það, sem ég benti á í minni framsöguræðu, að þetta væri leið, sem ætti að fara í þessu tilfelli. En þó að þetta yrði ekki gert, þó að húsið haldi áfram, eins og nú er, og verði byggt fyrir það fé, sem til er og von er á, á þessu ár, og einkanlega að viðbættri þessari 1½–2 millj. kr., ef mín till. yrði samþykkt, þá er alveg öruggt, að það tefst ekki nokkurn skapaðan hlut. En með því að fara og spyrja búnaðarfélögin, leggja þetta fyrir búnaðarfélögin, er hægt að koma í veg fyrir það leiðindaþref, sem orðið er um þetta mál, bæði hér á hæstv. Alþingi og eins úti um land. Þá er það algerlega slegið niður.

Ég sé ekki, að ég þurfi að hafa um þetta fleiri orð, en ég vænti þess, að hv. dm. sjái þetta og skilji, hvað fyrir mér vakir. Það vakir fyrir mér að binda ekki þetta gjald á bændurna í fjögur ár, ef það skyldi vera óþarfi. En ég stöðva ekki málið með minni brtt., að gjaldið skuli innheimt á þessu ári og féð verða þess vegna handbært til þess að halda áfram að byggja alveg stanzlaust þetta ár og e. t. v. eitthvað fram eftir næsta ári og kannske alveg næsta ár, án þess að þetta gjald sé framlengt.