19.03.1959
Efri deild: 89. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

132. mál, bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af meiri hl. fjhn. Einn nm. var ekki á fundi, þegar nefndin samþykkti að taka að sér flutning frv., og annar nm., hv. 8. landsk., taldi sig ekki viðbúinn að taka afstöðu til málsins.

Efni frv. er að heimila ríkisstj. bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á árinu 1959 til 1. maí. Þegar sams konar lagafrv. lá hér fyrir á milli jóla og nýárs og var samþykkt, hafði ríkisstj. ekki farið fram á þessa heimild til lengri tíma en til 1. febr. Ég benti þá þegar á, að þetta mundi reynast of stuttur tími. En frv., eins og það var lagt fyrir, varð þá að lögum. Í lok janúarmánaðar fór svo hæstv. ríkisstj. aftur fram á að fá heimild til að greiða úr ríkissjóði lögboðnar greiðslur til 1. marz. Þá benti ég enn á, að það mundi reynast of stuttur tími, og varð það til þess, að skilaboð komu frá hæstv. fjmrh., að hann væri sízt á móti því, að heimildin yrði veitt til 1. apríl, og var svo borin fram brtt. um það og hún samþ. En nú er það fyrirsjáanlegt, að þetta er ekki nægilegt, því að það sjá allir nú, að fjárlög verða ekki afgr. fyrir 1. apríl. Er því hér farið fram á að framlengja þetta enn um einn mánuð. Mundi mega vænta þess, að ekki þyrfti oftar að setja lög um þetta atriði hér á yfirstandandi Alþingi.

Ég get ekki látið hjá líða í sambandi við þetta frv. að spyrjast fyrir um það, hvað líði afgreiðslu fjárlaga. Ég hefði gjarnan viljað, að hæstv. fjmrh. hefði verið hér viðstaddur og getað svarað einhverju um það, en hann er nú ekki viðstaddur. Hér er aftur á móti hæstv. dómsmrh, og gæti kannske einhverjar upplýsingar gefið, og hér er a. m. k. einn maður úr hv. fjvn. Það fer að verða mjög bagalegt, að afgreiðsla fjárlaga dragist öllu lengur, því að eins og allir vita, þá hefur þingið ekki átt annríkt nú undanfarið. Og ég sé ekki annað t. d. hér í hv. d., en að minnsta kosti eftir morgundaginn liggi hér ekkert mál fyrir, sem hægt er að afgreiða. Að vísu liggur fyrir eitt mál, sem nál. er til um, en ýmis atvik valda því, að fjhn., sem hafði það mál til meðferðar, mun óska eftir því, að það verði ekki tekið fyrir fyrr en eftir páska, og þá er hér algert atvinnuleysi eftir morgundaginn.