19.03.1959
Efri deild: 89. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

132. mál, bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði

Björn Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. frsm. fjhn. gat um, var í árslok síðasta árs veitt bráðabirgðaheimild til fjárgreiðslna úr ríkissjóði til 1. febr., og sú ástæða var þá færð fram fyrir þeirri beiðni, að vegna mikilla anna ríkisstj., vegna samninga við útgerðina og þess, að ný ríkisstjórn hefði tekið við völdum, væri ekki unnt að ljúka afgreiðslu fjárlaganna á þessum tíma. Ég hygg, að eftir atvikum hafi allir getað verið sammála um það, að til þess var naumast hægt að ætlast með sanngirni.

Næst gerðist það í málinu, að hæstv. fjmrh. ritaði fjhn. bréf, þar sem hann óskaði eftir því, að hún flytti frv. um, að heimildin yrði framlengd til 1. marz. Daginn eftir, þegar það mál var tekið fyrir hér í hv. d., sendi þessi sami ráðh. hraðboða inn í d., meðan á umr. stóð, til þess að æskja þess, að heimildin yrði enn þá framlengd um einn mánuð eða til 1. apríl, og var orðið við því. Ég held, að það hafi allir álitið, að þessi frestur væri svo rúmur, að engin ástæða væri til þess að ætla, að það þyrfti enn að fara bónarveg til þingsins um að framlengja greiðsluheimildina. En sú virðist ekki vera raunin á, og ég vil segja það í því sambandi, að þó að vera kunni einhverjar fullgildar ástæður til þess, að hæstv. Alþ. sé haldið hér viku eftir viku starfslitlu og verkefnasnauðu, eins og hv. formaður fjhn., forseti d., gat hér um, þá hefði verið full ástæða til þess, að hæstv. fjmrh. hefði heiðrað d. með nærveru sinni og gert grein fyrir því, af hverju þessi óeðlilegi dráttur stafar. Og það er sannarlega ekki smámál, þegar hvort tveggja er, að þinginu er haldið starfslitlu í bið eftir þessu máli og þriðjungur ársins á að líða án þess að landið hafi fjárlög, en samtímis er fé ausið úr ríkissjóði í gegndarlausara mæli, en nokkur dæmi eru til. Mér finnst, að þegar svo stendur á, hefði verið viðkunnanlegra, að hæstv. ráðh. hefði verið hér viðstaddur og gert grein fyrir þeim ástæðum, sem til þess liggja. Mér er kunnugt um það af viðtali við formann fjvn. nú rétt áðan, að það stendur ekki á fjvn. eða störfum hennar. Hún hefði getað verið búin að ljúka sínu verkefni fyrir löngu og getur að hans sögn hvenær sem er, þegar ríkisstj. æskir þess, lokið störfum sínum á 2–3 dögum.

Í þessu sambandi má minna á það, að s. l. sunnudag hélt Alþfl. fund á Selfossi, og þar talaði hæstv. menntmrh. um afgreiðslu fjárl., og samkv. Alþýðublaðinu í gær skýrði hann svo frá á þessum fundi, að það mætti búast við afgreiðslu fjárl. innan hálfs mánaðar, þ. e. a. s., að fjvn. hefði skilað frv. til 2. umr. í síðasta lagi laugardaginn fyrir páska.

Það kom líka fram í ræðu hæstv. ráðh. við þetta sama tækifæri, að hæstv. ríkisstj. væri ekki í neinum vandræðum með afgreiðslu fjárl., og lýsti hann því í aðalatriðum, hvernig hún ætti að verða. Hann gat þess í þessari ræðu, að það yrði haldið fast við þá stefnu, sem ríkisstj. boðaði í upphafi ársins, þegar hún settist að völdum, þ. e. a. s., að engir nýir skattar yrðu lagðir á, en fjár til niðurgreiðslna og annarra aukinna útgjalda yrði aflað með sparnaði á fjárlögum. Meginverkefni ríkisstj. til þessa hefði verið að tryggja rekstur sjávarútvegsins og hindra stöðvun hans um áramótin. En það væri aðeins eftir, sagði ráðh., að standa undir kostnaðinum af niðurgreiðslunum. En sem sagt, að hans dómi var ekki við mikinn vanda að etja, það mundi verða haldið fast við þá stefnu, sem ríkisstj. hefði lýst yfir.

Nú vil ég spyrja: Þar sem ekki stendur á fjvn. um að afgreiða fjárlögin og einn ráðh. a. m. k. úr ríkisstj. lýsir því yfir, að það standi ekki heldur á ríkisstj., á hverjum stendur þá? Ég hygg, að það sé ekki til of mikils mælzt, að hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir þessu, um leið og hún fer fram á það, að enn þá líði einn mánuður, sem landinu er stjórnað fjárlagalaust, og ef til vill ákveðin af ríkisstj. ný útgjöld. Það er vitað, að enn þá muni liggja fyrir þessu þingi stórmál, sem mun taka mjög langan tíma og samkv. öllu eðli sínu á að vera síðasta mál þingsins. Mér sýnist, að ef þessi heimild fæst og ef hún verður notuð til hins ýtrasta, að þá muni kosningar tæplega geta átt sér stað á eðlilegum tíma, og það er líka atriði, sem vert er að taka til greina.

Ég mun ekki greiða atkvæði á móti þessu frv., en ég óska eftir því við forseta, að hann fresti málinu og æski þess við hæstv. fjmrh., að hann mæti hér í d. og geri hv. þdm. fullnægjandi grein fyrir því, af hverju þessi óhæfilegi dráttur á afgreiðslu fjárl. stafar.