19.03.1959
Efri deild: 89. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

132. mál, bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu eðlilegt, að menn óski eftir upplýsingum um eina og aðra hluti, þegar um afgreiðslu mála er að ræða, og þá gildir það sama að sjálfsögðu um þetta mál og önnur. Ég átti nú á stundinni tal við hæstv. fjmrh., og mun hann hafa ætlað að vera viðstaddur þessar umr. hér, en af sérstökum ástæðum orðið að tefjast við störf í sínu ráðuneyti og átti þess ekki kost að mæta hér. Hann tjáði mér, að hann sé fús til þess að vera viðstaddur framhaldsumræður um málið og gefa þá þær upplýsingar, sem óskað er eftir.

Um hin atriðin, sem hv. 1. landsk. og hv. 8. landsk. þm. hafa hér sagt, þá er, eins og ég sagði áðan, eðlilegt, að menn óski upplýsinga um málið, en ég vil nú segja frá mér persónulega, að mér kemur það dálítið einkennilega fyrir sjónir, að þessum mönnum blöskrar nú svo mjög dráttur á afgreiðslu fjárlaga, þegar þess er gætt, að á s. l. ári dróst annar líður fjárhagsmála ríkisins fram á mitt sumar, án þess að þessir sömu menn hefðu nokkrar aths. við þá hluti að gera.

En eins og ég sagði í upphafi minna orða, þá er fjmrh. fús til þess að vera viðstaddur framhaldsumræður hér um málið og er samþykkur því, að málið verði ekki afgr. úr d. að honum fjarverandi.