20.03.1959
Neðri deild: 97. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (924)

132. mál, bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Það hefur allmikið verið um það rætt manna á meðal, hvað hafi dvalið afgreiðslu fjárlaga svo langan tíma sem raun er á orðin. Ég held það hafi verið síðast í desember eða byrjun janúar, að þá óskaði hæstv. fjmrh. eftir að fá frest á afgreiðslu fjárl. til 1. febr. s. l. Eins og þá stóð á, má segja, að ósk um frest væri eðlileg. Næst gerist það svo, að enn er farið fram á frest og þá til 1. marz. Sú heimild var enn fremur samþykkt, en með þeirri breyt., að heimildin skyldi gilda til 1. apríl n. k. Og enn liggur fyrir hér frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. um bráðabirgðagreiðslur úr ríkissjóði á árinu 1959, sem skuli taka gildi 1. maí n. k.

Á fundi, sem hæstv. menntmrh. hélt s. l. sunnudag að Selfossi, segir blaðið Tíminn og birtir þar ummæli eftir hæstv. menntmrh. innan gæsalappa, og ég tel, að það megi hafa það eftir, að hæstv. menntmrh. hafi gert ráð fyrir því, að fjárlög yrðu afgreidd innan hálfs mánaðar. Nú væri ekki ófróðlegt að spyrja um það, í hvers umboði hæstv. menntmrh. hefur gefið slíkar upplýsingar. Það virðist sem ekki gæti fyllsta samræmis í þessari yfirlýsingu hans og því, sem nú liggur fyrir hér í frv.-formi um það, að fjárl. verði frestað, eða réttara sagt liggur fyrir frv. um leyfi fyrir ríkisstj. að greiða fé úr ríkissjóði til 1. maí. Nú leyfi ég mér að spyrja hæstv. fjmrh., hvað það er, sem hefur tafið afgreiðslu fjárl. svona langan tíma. Á hverju hefur staðið? Hefur staðið á hæstv, fjmrh., eða hefur staðið á fjvn.? Mér finnst, að alþm. og aðrir eigi alveg skilyrðislausan rétt til þess að fá að vita hið rétta í málinu. Það er ákaflega óvanalegt, að það sé þrisvar á sama þingi beðið um slíkan frest, eins og hér liggur fyrir. Ég minnist þess a. m. k. ekki þann tíma, sem ég hef setið hér á hinu háa Alþingi, að farið hafi verið jafnoft fram á frest til afgreiðslu fjárlaga eins og nú.

Ég tel, að þessi sífelldi dráttur og frestur á afgreiðslu fjárlaga sé lítt forsvaranlegur. Alþingi er látið sitja hér dag eftir dag, viku eftir viku og jafnvel mánuði, án þess að nokkuð sé að gera og án þess að nokkuð sé afgreitt af málum, svo að teljandi sé.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta. Ég vil bara endurtaka það, sem ég hef sagt hér, að ég óska eftir því, að hæstv. fjmrh. gefi glögg og greinargóð svör við því, hvað það er, sem er þess valdandi, að farið er fram á þennan sífellda drátt á afgreiðslu fjárl. Hefur staðið á honum, eða er það fjvn., sem hefur ekki hraðað þessum málum eins mikið og nauðsynlegt hefði verið? Þetta er það, sem ég óska eftir að fá upplýsingar um, og ég tel, að ég mæli fyrir munn margra, bæði utan þings og innan. Það er lítt forsvaranlegt að láta þingið sitja hér vikum saman, mánuðum saman, án þess að nokkuð sé gert, og ég held, að það sé sízt af öllu til þess að auka á virðingu þessarar ágætu stofnunar, ef slík vinnubrögð eiga að vera áframhaldandi eins og þau hafa verið hér undanfarnar vikur og mánuði.