12.02.1959
Neðri deild: 75. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

51. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. mælir með því, að frv. þetta verði samþykkt, en þrír nm. skrifa þó undir nál. með fyrirvara.

Með frv. þessu er ekki stefnt að því að fjölga prestsembættum frá því, sem ákveðið er í gildandi lögum, heldur er stefnt að því að lögfesta skipan, sem orðin er í framkvæmd, þannig að prestur, sem þarna á hlut að máli, hafi aðsetur á skólastaðnum Eiðum, en jafnframt á að nema úr lögum, að Hofteigur skuli vera prestssetur, en á þeim stað hefur prestur ekki búið nú um alllanga hríð. Um leið og þessi breyt. á prestssetrum er gerð samkv. frv., verður ein kirkjusókn, Kirkjubæjarsókn, færð á milli prestakalla. Með þessum breyt. er komið til móts við óskir manna í hlutaðeigandi héruðum. Það er stefnt að því að taka til greina óskir þeirra, sem þarna eiga hlut að máli. En allar sóknarnefndir í þessum prestaköllum, sem hér um ræðir, munu hafa komið sér saman um að óska þess og leggja það til, að sú lagabreyting verði gerð, sem hér er farið fram á. Það er einnig stefnt að því að taka til greina óskir prestsins, sem þarna á í hlut og hefur nú aðsetur á skólastaðnum Eiðum og vill fá tryggingu fyrir því, að hann megi sitja þar áfram. Það mælir einnig með þessu frv., að nauðsyn ber til að reisa prestsseturshús á þeim stöðum, sem hér koma til greina, áður en langt líður. Húsakynni í Hofteigi munu vera þannig, að þau séu tæpast íbúðarhæf, og ef þangað ætti að koma prestur, yrði jafnhliða eða fyrir fram að reisa þar prestsseturshús. Í Kirkjubæ í Hróarstungu mun og vera mjög gamalt hús, sem presti er ætlað að búa í, en áður en ráðizt er í framkvæmdir á þessu sviði, er nauðsynlegt, að það liggi fyrir lögfest, á hvaða stöðum prestssetrin eiga að vera til frambúðar. Og verði frv. þetta samþ., verður úr því skorið og hægt að haga byggingarframkvæmdum samkv. því.

Það mæla því full rök með samþykkt þessa frv., og menntmn. mælir með frv. í því skyni að taka þau rök til greina.