12.02.1959
Neðri deild: 75. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

51. mál, skipun prestakalla

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv., sem er að finna á þskj. 249, og í henni fer ég fram á það, að þegar næst verða prestaskipti í því prestakalli, sem nú heitir Æsustaðaprestakall, þá verði prestssetrið fært að Auðkúlu. Þetta prestakall var að fornu þrjú eða jafnvel fjögur prestsumdæmi. En um marga tugi ára að undanförnu voru það tvö prestaköll, Bergsstaðaprestakall og Auðkúluprestakall. En þegar þau voru sameinuð við síðustu lagabreytingu, var séra Gunnar Árnason prestur á Æsustöðum, en sá staður er enginn kirkjustaður og hefur ekki verið prestssetur nema um skamman tíma. En það þótti þó ekki gerlegt og var ekki að hans vilja að færa prestssetrið að Auðkúlu, sem eðlilegt má telja, einkum vegna þess, að samgöngur voru þá lakari þangað, en að Æsustöðum.

Nú gerðist það fyrir tveimur árum, að síðasti prestur, sem var á Auðkúlu, séra Björn Stefánsson, fyrrverandi prófastur, sem nú er látinn, beitti sér mjög rækilega fyrir því að fá prestssetrinu breytt og þannig, að það yrði fært á hið fornhelga prestssetur Auðkúlu, sem er elzt af prestssetrum á þessu svæði, og hann skrifaði um þetta rækilegt bréf bæði til kirkjuráðs og biskups, sem ég fékk afrit af.

Bæði kirkjuráðið og biskupinn mæltu með því, að þetta yrði gert, og sömuleiðis prófasturinn í Húnavatnssýslu, en þó því aðeins, að presturinn, sem nú er þar starfandi, hefði ekkert á móti því. En það kom í ljós, þegar til hans var leitað, að hann vildi heldur vera kyrr á Æsustöðum, en færa heimili sitt yfir á Auðkúlustað og þess vegna frestaðist þetta mál.

Ég hef ekki talið mér fært að fara fram á það í minni brtt., að prestssetrið verði fært á hinn eðlilega stað, fyrr en næst verða prestaskipti. En nú er svo komið, að þangað eru jafngóðar samgöngur og alls staðar annars staðar í prestakallinu og ekkert til fyrirstöðu, að prestssetrið sé fært þangað, þegar prestaskipti verða. Nú skal ég taka það fram, að það veit auðvitað enginn, hvenær það kann að bera að höndum. Núv. prestur er ungur maður og góður prestur og á vonandi langa framtíð fyrir höndum. En það er eins með hann og marga aðra embættismenn, presta sem aðra, að hann getur sótt í burtu þá og þegar, það veit maður ekkert um og ýmissa hluta vegna þykir mér réttara, úr því að breyting er gerð á prestakallalögunum, að þessi till. komi þá einnig til athugunar. Vil ég mega vænta þess, að henni verði vel tekið hér í hv. d. Annars væri það kannske eðlilegt, eins og sakir standa, af því að hún kemur svona seint fram, að þessari umr. væri frestað, svo að hv. n. fengi tækifæri til þess að athuga þessa till. og hafa samband við kirkjuráð og biskup, því að ég hef ekki nein skilríki hér frá þeim. En ég læt sem sagt hæstv. forseta um það, hvort hann heldur umr. áfram eða mundi verða við óskum hv. n., ef hún vill heldur fresta því, að atkvgr. fari fram um þessa till. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um það mál fleiri orðum.