23.02.1959
Neðri deild: 80. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1119 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

51. mál, skipun prestakalla

Jón Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls, þegar ég talaði fyrir minni brtt., tók ég það fram, sem raunar mættu allir sjá, að hún er flutt frá því almenna sjónarmiði, að það sé eðlilegast, að prestssetrin séu á kirkjustöðum og í öðru lagi vegna þess, að prestssetrið Auðkúla er eitthvert elzta prestssetur landsins og að sumu leyti virðulegasti staður á þessu svæði. En það, sem gerði að verkum, að presturinn var ekki þar, þegar prestaköllin voru sameinuð, var það, að þá voru þangað lélegar samgöngur.

Nú er það eins og kom fram frá minni hálfu við 2. umr., að í þessu efni er viss ágreiningur milli sveita um þetta mál. Hér er ekki farið fram á annað en, að breytingin verði gerð, þegar næst verða prestaskipti. Og ég skil það ákaflega vel, eins og hv. menntmn. hefur tekið fram, að breyt. á prestssetrinu getur auðvitað ekki orðið nema með samþykki kirkjustjórnarinnar. Þess vegna get ég verið þakklátur hv. menntmn. fyrir hennar till. Hún fullnægir í sjálfu sér þeim tilgangi, sem fyrir mér vakir og ég get þess vegna gengið að því að mæla með því, að brtt. hv. menntmn. verði samþykkt, og þar með tek ég aftur mína aðaltill. á þskj. 249.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál nú. Það er, eins og ég tók fram um daginn, mjög mikið áhugamál margra manna á þessu svæði, að breytingin verði gerð, en aðrir eru því hins vegar nokkuð andsnúnir.