13.03.1959
Efri deild: 85. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

51. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. um skipun prestakalla er komið frá Nd. Um það leyti, sem það var flutt og þó öllu fyrr flutti hv. 1. þm. N-M. frv. hér í þessari hv. d. um breyt. á l. um skipun prestakalla. Þessi tvö frv. eru í aðalatriðum um sama efni. Ég hafði samráð um það við hv. flm., 1. þm. N-M., að frumvarp hans biði í vörzlu menntmn., þar til lokið væri afgreiðslu frv. frá Nd. og var hann ásáttur um það.

Þetta frv., sem hér er til umr., snertir 2 prestaköll í Norður-Múlaprófastsdæmi. Það eru Hofteigsprestakall og Kirkjubæjarprestakall. Í Hofteigsprestakalli eru fjórar sóknir: Hofteigssókn, Eiríksstaðasókn, Sleðbrjótssókn og Möðrudalssókn, en í Kirkjubæjarprestakalli eru þrjár sóknir: Kirkjubæjarsókn, Eiðasókn og Hjaltastaðasókn. Prestssetur í Hofteigs prestakalli er Hofteigur samkv. gildandi lögum. En þar hefur ekki verið prestur í allt að 30 ár. Prestssetur í Kirkjubæjarprestakalli er Kirkjubær.

Þær breyt., sem ráðgerðar eru með þessu frv., eru í stuttu máli þessar: Hofteigsprestssetur verður lagt niður, en allar fjórar sóknir Hofteigsprestakalls verða sameinaðar Kirkjubæjarprestakalli, og auk þess verður fimmta sóknin þar með, Kirkjubæjarsókn, svo að 5 sóknir verða þá í hinu nýja Kirkjubæjarprestakalli. Prestssetrið verður Kirkjubær, eins og nú er. Hins vegar verða 2 sóknir, sem nú tilheyra Kirkjubæjarprestakalli, skildar frá, Eiðasókn og Hjaltastaðasókn, og myndað nýtt prestakall, sem á að heita Eiðaprestakall, með prestssetri að Eiðum. M.ö.o.: allar sóknirnar austan Lagarfljóts verða þá sameinaðar í Kirkjubæjarprestakalli, en hinar tvær sóknirnar tilheyra þá Eiðaprestakalli.

Hvað fólksfjölda snertir samkv. manntali 1957, hef ég fengið þær upplýsingar hjá biskupsskrifstofunni, að í Kirkjubæjarprestakalli verði 556 manns, en í Eiðaprestakalli 373.

Menntmn. hefur fengið erindi frá öllum sóknarnefndum sóknanna austan Lagarfljóts, þ.e. öllum sóknarnefndum í hinu nýja Kirkjubæjarprestakalli, og eru þær allar sammála því, að þessi breyt. verði gerð. Erindi frá hinum tveimur sóknunum hafa engin komið, sem ekki er heldur ástæða til, þar sem þær tvær sóknir eiga nú að fá sérstakan prest og eru að sjálfsögðu ánægðar með það. Það er því sýnt, að það er enginn ágreiningur heima fyrir um þessa skipan, sem frv. gerir ráð fyrir. Menntmn. mælir því með því, að þessi skipan verði samþ. hvað snertir þessi tvö prestaköll, það er a- og b-liður frv., eins og það er nú. En í a-liðnum er þó þess að geta, að samkv. frv. er kirkjustjórninni gert heimilt að flytja prestssetrið á annan stað í Kirkjubæjarsókn, þ.e. flytja það frá Kirkjubæ og á annan stað, ef hentara þykir, en þó innan sóknarinnar.

Þá var samþ. í Nd. sú viðbót við frv. frá því, sem það var flutt, að heimilt skuli kirkjustjórninni að flytja prestssetrið frá Æsustöðum í Húnavatnsprófastsdæmi að Auðkúlu, það er c-liður frv. Um þetta er ágreiningur heima fyrir, og barst menntmn. erindi frá þremur sóknarnefndum í prestakallinu, þar sem mótmælt er þessu ákvæði. Í þessu prestakalli eru fimm sóknir, þrjár austan Blöndu og tvær vestan Blöndu. Það eru sóknirnar austan Blöndu, sem mótmæla þessu ákvæði. Það er stefna menntmn. í þessu að fara sem næst því, er söfnuðirnir vilja í hverju prestakalli, bæði um prestssetur og um skipan prestakallanna. Hún hefur því í nál. sínu mælt með því, að þessi heimild um flutning prestssetursins frá Æsustöðum verði samþykkt með þeirri viðbót, að til komi samþykki meiri hl. safnaðarmanna í prestakallinu. — Með þeim hætti telur n. sig fara sem bezt að vilja safnaðarmanna, þeirra manna, sem eiga að sjálfsögðu að njóta starfa prestsins.

Þá flutti hv. þm. S-Þ. á síðasta Alþingi frv. um breyt. á l. um skipun prestakalla og var efni þess að heimila kirkjustjórninni að flytja prestssetrið frá Vatnsenda í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi á hentugri stað í prestakallinu. Þegar þetta mál lá fyrir n. í fyrra, taldi hún sig þurfa nánari upplýsingar heiman að úr prestakallinu, svo að hún gæti sem bezt gert sér grein fyrir skoðunum safnaðarmanna yfirleitt þar. Fól hún þá biskupsskrifstofunni að afla þeirra upplýsinga. Nú hafa þær borizt, og það kemur fram í þeim gögnum, sem fyrir n. hafa legið, að það er ágreiningur heima fyrir um málið. Að vísu bendir margt til þess, að ágreiningurinn sé ekki mjög mikill, en hann er þó einhver. Menntmn. hafði sama hátt á um afgreiðslu þessa máls og um flutning prestsseturs frá Æsustöðum, að láta vilja safnaðarmanna fyrst og fremst ráða í þessu efni. Þess vegna flytur n. viðbótartill. við þetta frv. á þskj. 316 á þá leið, að heimilt skuli að flytja prestssetrið frá Vatnsenda á hentugri stað, ef fyrir liggur samþykki meiri hluta safnaðarmanna í prestakallinu. Er þetta sams konar afgreiðsla og er um flutning prestssetursins frá Æsustöðum.

Menntmn. leggur því til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fluttar eru á þskj. 316, þ.e. annað orðalag á c-lið í frv. og viðbótartillaga um Vatnsendaprestakall.