13.03.1959
Efri deild: 85. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

51. mál, skipun prestakalla

Frsm. ( Sigurvin Einarsson ):

Herra forseti. Ég get leitt hjá mér að ræða sérstaklega um Æsustaði, því að hv. 1. þm. N-M. beindi því ekki til mín eða nefndarinnar, sem hann sagði um það prestssetur. Hann greindi frá því, að það þyrfti viðgerð á íbúðarhúsinu í sumar og að það sýndist full þörf á því að láta þá atkvæðagreiðslu fara fram nú þegar, hvort söfnuðirnir vildu flytja prestssetrið, svo að ekki væri farið að gera við húsið, ef svo til þess kæmi að flytja prestssetrið. Þetta er atriði, sem ég læt hlutlaust. Ég vil benda honum á það, að jafnvel þó að þessi atkvgr. færi fram nú strax, er hún heldur ekki bindandi um flutning á prestssetrinu. Þetta er aðeins heimild fyrir kirkjustjórnina að flytja prestssetrið. Hún er ekki bundin við það.

En hann nefndi nokkur atriði úr frv. því, sem hann flutti um breytingar á prestssetrum, og biður nú nefndina að taka þær til athugunar. Nefndin er búin að athuga þessar till. Hún er mótfallin þeim. Nefndin hafði umsögn biskups um þetta frv. hv. 1. þm. N-M., en í þessu frv. ætlaðist hv. flm. til, að flutt verði nokkur prestssetur. Það er á 7 stöðum, sem hann ætlast til að flutt verði prestssetrin á þá leið, að þar verði um tvo staði að ræða, prestur megi sitja á þessum eða öðrum stað, sem hann greinir í frv. Um þetta atriði segir biskup í umsögn sinni:

„Ekki er ljóst af frv., hvort ætlazt er til þess, að kirkjumrh. skuli ákveða hverju sinni, hvar presturinn skuli sitja í þeim prestaköllum, sem hafa tvö prestssetur, eða hvort prestur sjálfur segi til um það, á hvorum staðnum hann kjósi að hafa aðsetur, né heldur er það ljóst, hvort eða hve oft sami prestur megi skipta um þá tvo aðsetursstaði, sem ákveðnir eru í umræddum prestaköllum. Mundi slíkt fyrirkomulag leiða til þess, að tvö prestssetur þyrftu jafnan að vera tilbúin og laus úr leigu eða ábúð, þegar prestur teldi sig þurfa á að halda og tel ég slíkt bæði vera dýrt og óheppilegt. Svipuðu máli gegndi, þó að val á aðseturstað yrði eingöngu bundið við prestaskipti. Sé það aftur á móti ætlunin, að prestar eða kirkjumrh. ákveði í eitt skipti fyrir öll, að prestssetur skuli endanlega flutt frá fornum höfuðbólum og í nærliggjandi kauptún og að staðirnir hverfi þar með til fulls undan kirkjunni og yfirráðum kirkjustjórnar, þá verð ég að telja slíkt með öllu fráleitt. Samkv. framansögðu hlýt ég því að mæla gegn a-, b-, e-, f-, h- og i-liðum nefnds frv.“ — þ.e. frv. hv. 1. þm. N-M.

Biskup leggur því gegn þessum tilfærslum prestssetra, sem fólust í frv., og með þeim rökum, sem ég hef nú lesið. En hann segir sérstaklega um Hvanneyri, með leyfi hæstv. forseta:

„Liður g, — þ.e., að í staðinn fyrir Hvanneyri komi Staðarhóll, — er smáatriði, sem ekki skiptir máli, þar sem hér er aðeins um að ræða nafn á því húsi, sem reist hefur verið sem prestssetur í landi Hvanneyrar.“

Ég sé, að hv. þm. brosir. Hann telur þetta kannske ókunnugleika hjá biskupi. Ég vil ekkert um þetta segja, en þessar upplýsingar fékk n., og af þeim ástæðum gat n. ekki fallizt á að taka þessa liði upp í frv. það, sem hér er til umr. N. sýndist þetta vera nokkur rök hjá biskupi um þessi tvö prestssetur í hverju prestakalli. Og ég vil segja alveg sérstaklega frá mínu sjónarmiði: ég tel það bókstaflega fráleitt að vera með tvö prestssetur í sama prestakalli. Mér sýnist, að biskup hafi þarna full rök að mæla og það er vægast sagt mjög óheppilegt, að prestar skuli geta svo að segja hringlað til um aðsetursstað, prestar, sem eiga að búa á jörð uppi í sveit, geti farið í næsta kauptún og setzt þar að, látið jörðina vera í eyði. Svo ganga húsin úr sér og svo vill enginn koma þangað, þó að einhver nýr prestur væri tilbúinn að setjast að í sveit á hið forna prestssetur, af því að það er orðið ónothæft, vegna þess að það hefur verið í eyði, af því að annar, sem átti að vera þar, var þar ekki. Ég kann ekki við þetta fyrirkomulag og ég segi fyrir mig: ég er alveg á móti þessum tveimur prestssetrum í einu og sama prestakalli. En út af þessu, sem hv. þm. sagði, þá féllst n. á, að biskup hefði rök fyrir sér í þessu, og af því voru ekki þessir liðir teknir upp í frv., sem hér er til umr.

Að lokum minntist hv. þm. á Kirkjubæ og segir, að íbúðarhúsið í Kirkjubæ sé ekki í því ástandi, að þangað muni koma prestur, eins og er. Þetta getur verið alveg rétt. Við höfðum enga aðstöðu til að dæma um það og þó að við hefðum vitað það, þá veit ég ekki, hvort það hefði breytt neinu. En í frv. hv. 1. þm. N-M. stóð, að prestssetur skuli vera Stóri-Bakki eða þar, sem sameiginlegur barnaskóli fyrir Hlíðar- og Tunguhrepp verði byggður. Við gátum ekki fallizt á að fara að ákveða prestssetur einhvers staðar, sem enginn veit, hvar verður. Það er þó vægast sagt, að það verður að nefna staðinn. Það er ekki farið að byggja neinn barnaskóla þarna. Það getur vel verið, að þessi staður væri heppilegri fyrir prestssetur, Stóri-Bakki heldur en Kirkjubær. En það er áreiðanlegt, að það þarf að gera þar framkvæmdir, ekki minni en á Kirkjubæ, til þess að það geti orðið prestssetur. Það er ekkí svo fyrirhafnarmikið að breyta lögum um eitt eða tvö prestssetur, að það þurfi að hafa þann háttinn á, að prestar skuli vera annaðhvort „þarna“ eða „hérna“. Ef samkomulag er um það heima fyrir í söfnuðunum að flytja prestssetur, þá fullyrði ég, að það tekur ekki mjög langan tíma á Alþingi að fá slíkt samþykki. Og væri heppilegra að halda sig við þá reglu, að það skuli aðeins vera eitt prestssetur í hverju prestakalli í landinu og prestarnir verði að vera þar og séu ekki annars staðar. Sé svo þörf á því og fullt samkomulag heima fyrir um að flytja prestssetur, þá eru engin vandkvæði á því að fá það samþykkt á Alþingi, að ég hygg.