19.03.1959
Efri deild: 88. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

51. mál, skipun prestakalla

Frsm. ( Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. flytur allmargar brtt. við þetta frv. á þskj. 325 og hefur nú talað fyrir þeim brtt.

Hann byrjaði mál sitt á því að segja, að ég hefði fyrir hönd n. tekið heldur illa undir það, að n. athugaði þær till. nánar, sem hann hafði flutt í öðru frv. en því, er nú liggur hér fyrir. Þessar till. hans gat n. ekki athugað, áður en hún afgreiddi sitt nál., af því að þær voru ekki komnar fram og komu ekki fram fyrr, en fyrir tveim dögum. Ég átti þá tal við tvo nm., sem ég náði til, um það, hvort þeim sýndist ástæða til, að ég boðaði fund í n. að nýju til að athuga þessar brtt., en þeir töldu það ekki aðkallandi, og ég verð að segja það líka, að mér finnst það ekki hafa verið aðkallandi, vegna þess að n. var búin að taka afstöðu til málsins áður og þar með til þessara tillagna.

Það er misskilningur hjá flm., að menntmn. vilji innleiða nýja stefnu eða nýja aðferð, þá aðferð, að söfnuðirnir eigi alveg að ráða þessu, hvar sé prestssetur. Það er alls ekki svo í frv., eins og það liggur fyrir núna, heldur hitt, að þegar kirkjustjórninni er veitt heimild til að flytja prestssetur, þá skal liggja fyrir samþykki meiri hluta safnaðarmanna í tveim prestaköllum, sem nefnd eru í frv., eins og það liggur núna fyrir, Æsustaðaprestakalli og Vatnsendaprestakalli. En ekki er neitt á slíkt minnzt af okkar hálfu um Kirkjubæjarprestakall eða fyrrv. Hofteigsprestakall. Hvernig stendur á þessu? Það stendur nefnilega þannig á því, og það tók ég ýtarlega fram um daginn, að af því að n. hafði gögn heiman úr héruðunum um, að það er ágreiningur heima í þessum tveimur prestaköllum um flutninginn, þá taldi n. ástæðu til, að meiri hluti safnaðarmanna þyrfti að samþykkja flutninginn, áður en kirkjustjórninni yrði heimilt að flytja prestssetrið. Hins vegar er engin vissa fengin fyrir því, hvort prestssetur verður flutt, þó að slíkur meiri hluti safnaðarmanna óski þess. Kirkjustjórnin hefur það alveg á valdi sínu eftir sem áður. Nei, það er ekki svo að skilja, að n. sé að innleiða þá stefnu að fá þetta alfarið í hendur söfnuðunum. Það er alveg rétt, að n. var þeirrar skoðunar, að söfnuðirnir ættu að ráða miklu um þetta. Hins vegar datt n. aldrei í hug að fara að innleiða eða fyrirskipa atkvgr. í einstökum prestaköllum um flutning prestsseturs, jafnvel þó að ekki ein einasta ósk hafi komið fram um það heiman úr prestakallinu, að prestssetrið skuli flutt. Það datt n. aldrei í hug, ekki heldur að fara að fyrirskipa atkvgr. um prestssetur, þar sem menn eru alveg sammála um, hvert á að flytja það, eins og er um Kirkjubæjarprestakall, sem um ræðir í þessu frv. Til hvers að vera að hafa atkvgr. um það? Það lágu fyrir hjá n. gögn frá öllum sóknarnefndum í hinu væntanlega Kirkjubæjarprestakalli, þar sem allir eru sammála um að flytja prestssetrið. Okkur datt ekki í hug að fara að leggja til, að þar yrði fyrirskipuð nein atkvgr., heldur aðeins í þessum tveimur prestaköllum, þar sem vitað var, að ágreiningur var um málið. Og þó er kirkjustjórnin ekkert bundin við að fara eftir því.

Ég skal víkja að einstökum till. hv. 1. þm. N-M. Sú fyrsta er um prestssetrið Kirkjubæ. Hann leggur til, að kirkjustjórnin láti fara fram atkvgr. um það, hvar prestssetrið verði. Ég hef skýrt frá því og gerði það við 2. umr. líka, að um þetta er enginn ágreiningur þar heima fyrir. Og þar af leiðandi sé ég enga ástæðu til að vera að efna til slíkrar atkvgr. þar. Það er full eining um málið. Ég get því ekki mælt með þeirri till. En svo vil ég auk þess benda hv. 1. þm. N-M. á það, að ég sé ekki betur, en ef þessi till. hans verður samþ., þá verði ekkert prestssetur í þessu prestakalli, þangað til þessi atkvgr. hefur farið fram. Og ef það kynni nú að dragast eitthvað lengi, kannske árum saman, þá er ekkert prestssetur þar, því að hann leggur til, að það verði felld niður orðin „prestssetur Kirkjubær“, en í staðinn komi: „Kirkjustjórnin skal láta fara fram atkvgr. meðal safnaðarmanna í sóknunum um það, hvar prestssetrið skuli vera.“

Verði þetta samþykkt, verður þarna ekkert prestssetur, þangað til atkvgr. hefur farið fram. Ég er ekki að segja, að það geri mikið til. Ekki kann ég samt við að hafa lög þannig úr garði gerð að hafa prestakall með fimm sóknum, en ekkert prestssetur, þó að það sé skamman tíma.

Ég vil benda hv. flm. á annað atriði í þessu, ef þetta yrði samþykkt. Það er ekkert nefnt, hve mikill hluti atkv. á að falla með þessu væntanlega prestssetri, ekki að það skuli vera meiri hluti safnaðarmanna, sem sameinast um ákveðið prestssetur, ekki heldur, að sá staður skuli vera prestssetur, sem fær flest atkv. Það er ekkert á þetta minnzt. Og hvernig á að fara að, ef það fengju t.d. tveir staðir eða fleiri jafnmörg atkv., t.d. einn staður í hverri sókn, fimm staðir, allir jöfn atkvæði? Hvar á prestssetrið að vera? Ég veit það ekki. Ég get ekki séð, að það sé hægt að samþykkja þetta svona, en þar að auki, eins og ég sagði áðan, algerlega óþarft, af því að það er full eining um þetta þar fyrir austan.

Þá kem ég að a-lið í 2. till. hv. þm. Það er Skálholtsprestakall. Hann leggur til, að kirkjustjórnin láti fram fara atkvgr. meðal safnaðarmanna í sóknunum um það, hvort prestssetrið skuli heldur vera í Skálholti eða á Torfastöðum. Nú er prestssetrið Skálholt, en alls ekki Torfastaðir. Það er ekki, eins og um önnur prestaköll, þar sem eru tvö prestssetur tilnefnd. Þarna er það eitt, það er Skálholt. En þegar þetta prestsembætti var auglýst laust síðast, var það gert með því fororði, að hinn væntanlegi prestur yrði fyrst um sinn að sitja á Torfastöðum, og þess vegna situr hann þar. En þetta mun vera vegna þess, að uppi eru ýmsar ráðagerðir um það, hvað verði gert við Skálholt. Það er hv. 1. þm. N-M. kunnugt um, að ýmsar till. hafa verið fluttar um það atriði, m.a. á síðasta Alþingi var flutt till. um að flytja þangað biskupinn. Vegna þessara ráðagerða um ráðstöfun á Skálholti mun það vera, að kirkjustjórnin hefur tekið þessa ákvörðun að láta Skálholtsprest sitja fyrst um sinn á Torfastöðum.

En nú leggur hv. þm. til, að það skuli efna til atkvgr. um það í Skálholtsprestakalli, hvar prestssetrið eigi að vera. Ég er hræddur um, að þetta geti valdið árekstri við fyrirætlanir manna um Skálholt. Ekki hefur nein ósk komið um þetta heiman úr Skálholtsprestakalli. Og samkv. því, sem ég hef áður sagt um skoðun menntmn., þá vill hún kynna sér fyrst, hvaða skoðanir eru uppi í viðkomandi prestakalli um það, hvort eigi að flytja prestssetrið og þá hvert eigi að flytja það. Það hefur ekki bólað á neinum slíkum óskum þaðan að heiman, og meðan það er ekki, mun ég mega segja það fyrir hönd n., að hún telur ekki ástæðu til að fara að fyrirskipa þar neina atkvgr. um þetta atriði.

Þá kem ég að b-lið, það er Hraungerði. Þar eru tvö prestssetur nefnd í núgildandi lögum, Hraungerði eða Selfoss. Eins og mönnum er kunnugt, situr núverandi prestur á Selfossi. Hv. 1. þm. N-M. segir, að þessi till. sín sé í fullu samræmi við till. frá hv. 2. þm. Árn. á þskj. 326. Þetta er alger misskilningur. Hann flytur enga till. um það að breyta til um prestssetur. (Gripið fram í.) Það er öðru nær. Hann er að flytja till. um að nefna Laugardælasókn öðru nafni, nefna hana Selfosssókn. Hann hreyfir ekki við prestssetrinu. Og ég get þá um leið minnzt á till. hv. 2. þm. Árn.

Það er svo, að Hraungerðisprestur er setztur að á Selfossi. Jafnframt er búið að flytja kirkjuna frá Laugardælum að Selfossi og Laugardælasókn er svo að segja ekkert annað, en Selfoss. Þess vegna flytur hv. 2. þm. Árn. till. um að breyta um nafn á sókninni, og hann hefur í dag afhent mér bréf frá formanni sóknarnefndar Laugardælasóknar, Degi Brynjólfssyni, — bréfið er dags. í gær og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á aðalsafnaðarfundi Laugardælasóknar í Árnesprófastsdæmi, sem haldinn var s.l. haust í Selfosskirkju, var vakið máls á því, að æskilegt væri að breyta nafni á sókninni úr Laugardælasókn í Selfosssókn, þar sem kirkjan væri flutt frá Laugardælum að Selfossi og allt safnaðarstarf færi nú þar fram, enda safnaðarfólk nær allt búsett á Selfossi, en þar eru um 1.600 manns. Voru allir fundarmenn á einu máli um, að rétt væri að kenna sóknina við þann stað, þar sem kirkjan væri staðsett, en ekki eins og hér væri gert, síðan kirkjan var flutt frá Laugardælum að Selfossi, að kenna sóknina við Laugardæli, því að nú væru þeir kirkjulaus staður og í öðrum hreppi en þeim, sem kirkjan er nú í og nær allur söfnuðurinn býr. Af því, sem að framan er sagt, leyfi ég mér að vænta þess, að nafnbreyting þessi nái fram að ganga.“

Þarna er komið erindi frá formanni sóknarnefndar, og auk þess er hv. flm. þessarar till. safnaðarfulltrúi þessarar sóknar, svo að mér sýnist full ástæða til að taka þetta til greina. Þetta er ekki breyting á prestssetri. Þetta er engin breyting á prestakallinu, heldur aðeins nafnbreyting á sókn, sem er eðlileg vegna þeirrar þróunar, sem þarna hefur átt sér stað, og vænti ég þess, að hv. 1. þm. N-M. hafi ekkert á móti þessari breyt. Ég legg því til, þótt ekki hafi verið hægt að hafa fund í menntmn., að þessi brtt. hv. 2. þm. Árn. sé samþykkt.

Þá kem ég að c-lið, það er Hvanneyri. Hv. þm. leggur til, að prestssetrið heiti Staðarhóll, en ekki Hvanneyri, og minni ég á það, sem ég sagði við 2. umr., að n. barst bréf frá biskupi, umsögn hans um það frv., sem hv. 1. þm. N-M. flutti í vetur, þar sem þessi till. var einnig. Biskup segir í því bréfi, að Staðarhóll sé aðeins nafn á húsi. Nú hef ég aflað mér upplýsinga um þetta hjá landnámsstjóra, og hann staðfestir í öllum atriðum það, sem hv. 1. þm. N-M. segir. Þetta er ekki nafn á húsi. Þetta er lögbýli. Þetta er jörð, sem heitir Staðarhóll, með íbúðarhúsi, skepnuhúsum og landi, alveg eins og jarðir gerast. Og þar situr presturinn, og þangað var presturinn fluttur frá Hesti. Mér sýnist því, að þessi till. hv. þm. eigi fullan rétt á sér og sé alveg hliðstæð leiðrétting á nafni og ég legg til að verði samþ. um Laugardælasókn, að breyta henni í Selfosssókn. Þessar báðar till. eru ekkert annað, en leiðrétting á nafngift. Sé ég ekkert á móti þessari till. Hún snertir ekkert hagsmuni prestsins eða safnaðarins eða neinna annarra.

Ég skal geta þess, þó að það skipti ekki miklu máli, að þótt samþ. verði þessi nafnbreyt. á prestssetrinu í Hvanneyrarsókn, þá heitir sóknin Hvanneyrarsókn og prestakallið Hvanneyrarprestakall eftir sem áður, en prestssetrið Staðarhóll. Nú hef ég litið yfir þetta í l., hvort það er ekki föst regla, að prestakallið sé kennt við prestssetrið. Það má heita svo. Það er reglan, að prestakallið er kennt við prestssetrið, en ekki alls staðar. Það eru nokkur prestaköll í landinu, sem eru ekki kennd við prestssetrið. Í Norðfjarðarprestakalli er prestssetrið Neskaupstaður, í Hofsprestakalli í Öræfum er prestssetrið Sandfell og í Ögurþingaprestakalli er prestssetrið Hvítanes. Þetta er því ekki algild regla og það er sjálfsagt á fleiri stöðum, sem svona er, svo að það rekst ekki á neina reglu, þó að í Hvanneyrarprestakalli sé prestssetrið Staðarhóll.

Þá kem ég að d-lið, það er Ögurþingaprestakall. Þar leggur hv. flm. brtt. til að fari fram atkvgr. um, hvar prestssetrið skuli vera. Ef þessi till. yrði samþ., fer eins þarna og í Kirkjubæ, að það verður ekkert prestssetur í prestakallinu, þangað til þessi atkvgr. fer fram. Ég bendi aftur á það, að það tel ég ekki viðhlítandi. Hann sagði hér áðan, hv. flm., að presturinn sæti í Súðavík og hefði aldrei verið í Hvítanesi. Nei, hann situr ekki í Súðavík, því að það er ekki einn einasti prestur þarna núna. Þetta er prestslaust prestakall, svo að hann situr þar ekki heldur. En það er rétt, að hann sat í Súðavík, og það er í lögum heimild fyrir kirkjustjórnina að flytja þetta prestssetur til Súðavíkur, ef á að flytja það á annan hentugri stað frá Hvítanesi. En kirkjustjórnin hefur ekki notfært sér þessa heimild. Það hefur engin ósk borizt um það heiman úr héraði að breyta þarna til um prestssetur, og af þeirri ástæðu get ég ekki lagt með þessari till. samkv. þeirri skoðun, sem var ríkjandi í menntmn., að vera ekki að efna til atkvæðagreiðslu um flutning prestsseturs, þegar engar óskir koma fram um það heiman frá, eða ef menn eru alveg sammála um það heima fyrir, þá þarf ekki heldur atkvgr. um það. Ég get því ekki mælt með þeirri till.

Þá er það loks Æsustaðaprestakall. Þar leggur hann einnig til að fari fram atkvgr. nú þegar um það, hvort prestssetrið skuli flutt að Auðkúlu, og það er af sérstökum ástæðum, sem hann leggur til, að þetta sé gert. Það er vegna viðgerðar á prestshúsinu á Æsustöðum. Það er alveg rétt hjá hv. flm., að það er óheppilegt að fara að kosta miklu til viðgerðar á prestshúsinu á Æsustöðum, ef á að flytja það til Auðkúlu. En ég held, að kirkjustjórnin geti kynnt sér skoðanir heimamanna á annan hátt en að fara að fyrirskipa almenna atkvgr. Það er næsta auðvelt fyrir kirkjumrn. að spyrjast fyrir um það hjá viðkomandi sóknarnefndum, hvort fyrirhuguð er atkvgr. um flutning á þessu prestssetri. Það getur nefnilega vel verið, að það detti engum manni í hug heima fyrir að láta slíka atkvgr. fara fram, því að þessi ósk um flutning þessa prestsseturs er ekki komin heiman frá. Það er aðeins till. frá hv. þm. þessa kjördæmis að flytja þetta prestssetur, en óskir engar komnar heiman frá. En þegar frv. var komið til hv. Ed. og við fórum að athuga það í n., komu mótmæli til okkar gegn þessum breytingum. Af því setti n. þetta ákvæði inn í frv., að það skuli þurfa meiri hluta atkvæða safnaðarmanna, ef á að heimila kirkjustjórninni að flytja prestssetrið. Komi ekki til þess, að nein ósk komi um þennan flutning heiman frá, þá get ég ekki ímyndað mér, að kirkjustjórninni detti í hug að fara að flytja það, enda hefur hún ekki heimild til þess. Það er enginn vandi fyrir kirkjustjórnina að kynnast því, hvort þessi flutningur stendur til, án þess að vera að efna til atkvgr.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að taka fram um þetta, en ég vil endurtaka það, að það var ekkert tækifæri til þess að fara að ræða þessar brtt. aftur í menntmn., það eru ekki nema tveir dagar, síðan till. komu fram, og auk þess brjóta þær í bága við þær skoðanir, sem voru uppi hjá n., að undanteknum þeim tveim till., sem ég hef nefnt, sem ég fyrir mitt leyti vil leggja með að verði samþykktar. Það er till. um Staðarhól í Hvanneyrarprestakalli, og það er till. hv. 2. þm. Árn. um nafnbreytingu á Laugardælasókn.