19.03.1959
Efri deild: 88. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

51. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil svara nokkru frsm. nefndarinnar. Ég vil fyrst benda honum á það, að ég ætlaðist ekki til þess og hef aldrei ætlazt til þess, að hæstv. n. gæti farið að athuga till. mínar, áður en þær kæmu fram þannig, að hún sæi þær endanlega. En við 2. umr. málsins lýsti ég skoðun minni á þessum efnum, sem till. hljóða um, og spurði n., hvort hún vildi athuga það á milli umræðna, og því var tekið fálega. Öðru þarf ég ekki að svara því.

Viðvíkjandi því, sem nefndarformaðurinn segir nú, að það eigi ekki að vera nein algeng regla að spyrja sóknarbörnin, hvar prestssetur skuli vera, og þess vegna séu sumar till. mínar rangar, af því að ég byggi þær á röngum forsendum, þá skulum við aðeins líta svolítið nánar á þetta. Það stendur hjá nefndinni:

„Heimilt er kirkjustjórninni, þegar prestaskipti verða, að flytja prestssetrið að Auðkúlu, enda liggi fyrir samþykki meiri hluta safnaðarmanna í prestakallinu.“

Hvernig á sá meiri hluti að liggja fyrir, ef ekki með atkvæðagreiðslu? Skrifleg áskorun með undirskriftum er kannske nokkuð sama og atkvgr.

Hvað Kirkjubæ snertir segir hann: „Heimilt er kirkjustjórninni að flytja prestssetrið á annan stað í Kirkjubæjarsókn, ef hentara þykir.“ Þar á ekki að spyrja um það. (SE: Þeir eru sammála þar.) Þeir eru ekki sammála um það, það er langt frá því. Þar á ekki að spyrja um það, þar á bara kirkjustjórn alveg að ráða því. Ég sagði þess vegna áðan, að ég vil vera samkvæmur sjálfum mér, og ef ég leyfi þeim að greiða atkvæði um það á einum stað, hvar prestssetrið á að vera, og það er lýðræðislegt og getur vel verið, að það eigi að fallast á það, — ég er þar sammála þeim, — en ég benti á það áðan, að það gæti oft orðið kirkjustjórninni miklu dýrara að gera það heldur en gera það ekki.

Þess vegna getur farið þannig við slíka atkvgr., að það sé ákaflega vafasamt, hvort á að veita það lýðræði, að það geti kostað ríkissjóð mikið.

En ég fór inn á það með n. að veita lýðræðið, en vildi þá bara láta ganga jafnt yfir, — úr því að væri verið að segja um það í Vatnsendasókn og segja um það í Æsustaðaprestakalli, í hvorum tveggja staðanna, hvar þeir vilji hafa prestssetrið, þá yrði fólkið og að segja um það annars staðar líka. Hann segir, að það sé engin þörf á því að láta segja um það t.d. í Súðavík eða í Ögurþingum, það sé engin þörf á því þar. Ja, hví sat presturinn alveg þangað til núna, að hann fór fyrir stuttu, — hví sat hann í Súðavík, en ekki á Hvítanesi? Var ekki ágreiningur um það, á hvorum staðnum hann ætti að sitja? Hefði enginn ágreiningur verið, þá hefði hann verið í Hvítanesi. En það er ágreiningur. Kirkjustjórnin vill láta hann eða hann sjálfur a. m. k. vill sitja annars staðar, en á prestssetrinu og gerir það að öllum fornspurðum. Þá á að spyrja sóknina, úr því að maður vill fara að láta söfnuðina ráða, hvar prestssetrið er, á hvorum staðnum söfnuðurinn vildi heldur hafa það, og alveg eins í Kirkjubæjarsókn, úr því að þeir segja: „Heimilt er kirkjustjórninni að flytja prestssetrið á annan stað í Kirkjubæjarsókn, ef hentara þykir.“ Hví eru þeir með þetta, ef enginn kærir sig um að hafa það annars staðar, en í Kirkjubæ? Hvað á þá að gera með þetta ákvæði í lögunum? Nei, það eru óskir um, að hann sitji annars staðar, en í Kirkjubæ, og þess vegna á að fá að ganga til atkvæða um það þar alveg eins og annars staðar. Hitt er svo annað mál, hvort þetta er heppileg stefna. Það má deila um það. En það á að gerast á einum staðnum eins og á öðrum. Það á að gerast alls staðar, og yfirleitt ætti ekki að líða kirkjustjórninni að láta prest árum saman sitja annars staðar, en á hinu löglega prestssetri. Prestssetrin fara í niðurníðslu og alla vega ganga úr sér með leiguábúð frá ári til árs eða þá alauð eins og stundum er. Það eru núna þannig prestssetur á landinu, sem um er sagt: Presturinn situr allt annars staðar, kemur ekki á þau, og þau eru að verða óbyggileg fyrir alla, sem kynnu að vilja eða hugsa sér að setja þau í ábúð aftur. — Og líklegast yrði að taka þau upp sem nýbýli aftur og veita nýbýlastyrk til að koma þeim aftur í lag, eins og búið er að fara með sum þeirra.

Þetta ýtir Alþingi undir með því að láta afskiptalaust, þó að prestur sitji á Torfastöðum, þegar hann á að vera í Skálholti, og prestur situr í Súðavík, þegar hann á að vera í Hvítanesi, o.s.frv., þó að hann sitji á þessum staðnum þetta árið og á öðrum staðnum hitt árið, eins og Vatnsendapresturinn hefur setið, o.s.frv. Þetta á ekki að líðast og þetta á að reyna að fyrirbyggja. Úr því að kirkjustjórnin hefur ekki þann manndóm í sér að geta látið vera að veita mönnum leyfi til að vera svona hér og þar, annars staðar, en þeir eiga að vera að lögum, þá á Alþingi að grípa til og lofa söfnuðunum að ráða, hvar prestssetrið er, geta valið um það og presturinn sitji síðan þar.

Ég heyrði það á frsm., að hann er sammála mér í því, að það sé ekki bein nauðsyn á að lofa þeim presti, sem þjónar Hestþingum, að skreyta sig með Hvanneyrarbústað, eins og biskupinn hélt að honum væri svo mikill plús að fá þá skrautfjöður í hattinn, að það væri rétt að láta heita svo, að hann væri á Hvanneyri, þótt hann ekki sæti þar og ætti þar ekki heima, — kalla samt, að prestssetrið væri Hvanneyri. Ég heyri, að hv. þm. er sammála mér í því, og vonandi þá líka, að hann ætlist til þess, að prestarnir hafi það til brunns að bera frá sjálfum sér, að þeir þurfi ekki að hafa svoleiðis skrautfjaðrir til að reyna að punta sig með, þó að biskupinn haldi hið gagnstæða.

Ég held nú, að ég hafi ekki meir um þetta að segja. Það er nokkuð greinilegt, að n. hefur ekki krufið málið til mergjar. Henni mundi vera ákaflega auðgert t.d. að lofa prestssetrinu að vera áfram í Súðavík, en ekki í Hvítanesi, ef hún þekkti til, og lofa sóknarmönnunum að ráða, á hvorum staðnum það væri. Úr því að presturinn situr ekki á prestssetrinu, er ágreiningur um það. Þegar presturinn situr annars staðar en á prestssetrinu, er ágreiningur um, hvar hann á að sitja, ágreiningur milli Alþingis, sem ætlar honum að sitja þar, sem prestssetrið er, og milli kirkjuyfirvaldanna, sem sjaldan hafa nú gefið leyfi til þess, heldur liðið það svona hinsegin, stundum meira að segja að sitja mjög langt frá prestssetrinu, eins og þegar prestur sat í Bolungavík og seinna á Ísafirði, en þjónaði Stað í Grunnavíkurhreppi, og það ekki í eitt ár, heldur áratugi. Á þessum leyfum þarf að taka hart og ekki láta slíkt líðast alveg umtalslaust og bótalaust.