19.03.1959
Efri deild: 88. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

51. mál, skipun prestakalla

Fram. ( Sigurvin Einarsson ):

Herra forseti. Ég get verið fáorður um þetta mál að þessu sinni. — Það er þá fyrst um atkvæðagreiðsluna um prestssetur á Æsustöðum, sem hv. þm. vill láta fara fram nú þegar. Ég benti honum á, að það væri auðvelt fyrir kirkjustjórnina að kynnast því, hvort söfnuðirnir óskuðu eftir þessum flutningi eða ekki, án þess að fara að fyrirskipa almenna atkvgr. um það, og ég held, að hv. þm. hljóti að sjá, að það er hægt. En eins og frv. er, segir: „Heimilt er kirkjustjórninni, þegar prestaskipti verða, að flytja prestssetrið, enda liggi fyrir samþykki meiri hluta safnaðarmanna“. M.ö.o.: ég skil þetta svo, að kirkjustjórnin sé ekki nauðbeygð til að láta þessa atkvgr. fara fram, fyrr en kemur að næstu prestaskiptum. Hv. þm. ber fjárhag ríkissjóðs fyrir brjósti, og það er fallega gert að vera ekki að kosta upp á prestsbústað á Æsustöðum, ef presturinn á að fara þaðan í burtu. En hann á alls ekki að fara þaðan, fyrr en prestaskipti verða. Þetta er ungur prestur og ekkert ólíklegt, að hann geti enzt í ein 20–30 ár. Það er ekki heldur útilokað, að þessi viðgerð á íbúðarhúsinu verði uppétin fyrir tímans tönn á því tímabili, svo að henni er ekki alveg á glæ kastað. Ég sé enga nauðsyn á því að fara að fyrirskipa þessa atkvgr. eins og sakir standa, þar sem þessi flutningur prestssetursins á ekki undir neinum kringumstæðum að koma til framkvæmda, þó að hann yrði samþykktur, fyrr en við næstu prestaskipti.

Þá ræddi hv. 1. þm. N-M. nokkuð um, að það væri ekki samræmi í till. n. hvað snerti Kirkjubæjarprestssetur við það, sem n. leggur til um Æsustaði og Vatnsenda. Ég skal endurtaka það aftur: N. leggur þetta til um þessi tvö prestssetur aðeins vegna þess, að það er ágreiningur um málið heima fyrir. Ef ágreiningurinn hefði ekki verið, hefði aldrei komið til, að n. legði þetta til. En hann heldur hinu fram nú um Kirkjubæ, að það sé ágreiningur um prestssetur þar. Flutti hann ekki sjálfur frv. um, að prestssetrið skyldi vera í Kirkjubæ eða Stóra-Bakka? Mig minnir það. Var hann að flytja till. um prestssetur að Kirkjubæ, ef ágreiningur er um það? Það lágu fyrir n. bréf frá sóknarnefndum allra sóknanna, Möðrudalssókn, Eiríksstaðasókn, Hofteigssókn, Sleðbrjótssókn og Kirkjubæjarsókn. Allir voru sammála því, að prestssetrið, sem var á Hofteigi, skyldi flutt að Kirkjubæ. Þó var í einhverri af umsögnunum, mig minnir í þeirri frá Kirkjubæjarsókn, að það mætti vera á öðrum hentugri stað, innan sóknarinnar. M.ö.o.: það mátti ekki setja það á annan stað utan Kirkjubæjarsóknar, heldur yrði það að vera innan sóknarinnar. Ég held, að það sé alveg eining um þetta fyrir austan. Ég held, að þetta sé eitthvert rangminni hjá hv. þm. Og af því að þetta lá fyrir n. frá öllum þessum sóknarnefndum, taldi hún enga ástæðu til að leita frekar eftir vilja safnaðanna þarna fyrir austan, og ég álít, að það sé engin þörf á því að fyrirskipa þessa atkvgr.

Hv. 1. þm. N-M. segir, að það hafi verið ágreiningur um prestssetrið að Hvítanesi í Ögurþingaprestakalli. Ég veit ekkert um það. N. hefur engar upplýsingar fengið um neinn ágreining þar og engar óskir um það frá söfnuðunum þar vestra, að prestssetrið verði flutt, og því tók n. ekkert upp í frv. um þetta prestssetur. Hv. þm. segir: Presturinn sat í Súðavík, það sýnir, að það hafi verið ágreiningur um það. — Það er ekki víst, að það hafi verið nokkur ágreiningur um það hjá söfnuðunum, það getur verið, að presturinn hafi heldur viljað sitja í Súðavík, og það er heimild í lögum að flytja prestssetrið þangað. Kirkjustjórnin getur gert það, hvenær sem hún vill. En ég er aftur á móti alveg sammála hv. þm. um, að það er alveg óhæft að vera með tvö prestssetur í sama prestakalli. Samt flutti hann till. um þetta í sínu frv., ég held í einum sex prestaköllum, að hafa prestssetrin tvö. En hann hefur fallið frá því og viðurkennir alveg þau rök, sem menntmn. hefur flutt í þessu efni. Ég er alveg sammála honum um, að það er óþolandi, að prestarnir séu á allt öðrum stöðum, en þeir eiga að vera, þ.e. á prestssetrunum, og ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að það mundi mörg jörðin, sem er prestssetur, hafa níðzt niður fyrir það, að presturinn, sem átti að vera þar, var þar ekki. Þarna erum við alveg sammála. Ég er því síður en svo á móti því, að prestssetrið verði flutt frá Hvítanesi með lagabreytingu til Súðavíkur, en ég vil bíða eftir því, að einhverjar óskir komi um það heiman frá, eða a.m.k. að það liggi fyrir vitneskja um það, hvað söfnuðirnir segja um það, en ekki fara að fyrirskipa atkvgr. um málið.

Hann minntist enn á Hvanneyri. Þar erum við alveg sammála. Ég legg til, að þessi till. hans verði samþykkt um Staðarhól, og hann segir, að ég sé sér sammála um það, að presturinn skreyti sig ekki lengur með Hvanneyrarnafni. Ég hef ekkert sagt um það, að presturinn sé að skreyta sig með Hvanneyrarnafni, heldur er sú ein ástæða fyrir því, að ég er þessu samþykkur, að það er rétt, að prestssetið er á Staðarhóli, Staðarhóll er lögbýli og þess vegna á að leiðrétta þetta í lögum. Það er ekkert annað. Ef presturinn skreytir sig með Hvanneyrarnafni, hef ég ekkert um það að segja. Prestssetrið heitir Hvanneyrarprestakall eftir sem áður, svo að hann getur víst skreytt sig með nafninu. Sóknin heitir Hvanneyrarsókn. Það er ekki fyrir það að synja, að hann geti skreytt sig með þessu nafni. Ég held, að ágreiningurinn á milli okkar sé minni, en kemur fram í þessum ræðum. Hann er þá helzt sá, að hv. flm. þessara till. vill fyrirskipa atkvgr. í prestaköllum um staðsetningu prestsseturs, án þess að nokkrar óskir komi um það heiman frá söfnuðunum og án þess að um neinn ágreining sé þar að ræða. Menntmn. telur enga ástæðu til þess að vera að efna til slíkrar atkvgr., nema um ágreining sé að ræða heima fyrir, og það var aðeins á þessum tveimur stöðum, hvað snertir Æsustaðaprestakall og Vatnsendaprestakall.