06.03.1959
Efri deild: 80. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1150 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

105. mál, samband íslenskra berklasjúklinga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Í þessu frv. til laga um happdrætti Sambands ísl. berklasjúklinga eru engin ákvæði, sem ég ætla að andmæla, og fer því mjög fjarri. Hins vegar gæti ég hugsað mér eitt eða tvö ákvæði til viðbótar þeim, sem fyrir eru, og þess vegna kveð ég mér hljóðs nú. Hér er um að ræða vandasama og mjög mikilvæga starfsemi, og hér er einnig um að ræða geysimikla fjármuni. Það er því full ástæða til að huga vel að og gera frv. þannig úr garði, ef unnt er, að sem bezt verði fyrir öllu séð.

Samband ísl. berklasjúklinga hefur áunnið sér traust bæði ríkisvalds og almennings. Þetta samband hefur haft frumkvæði og framtak og unnið stórvirki, sem hinu opinbera eiginlega bar að vinna. Fyrir þetta hefur sambandinu hlotnazt viðurkenning og traust og enda margs konar fyrirgreiðsla af hálfu stjórnarvalda. Má segja, að milli þessara aðila hafi verið góð samvinna, enda þarf hún að vera bæði mikil og náin, ef vel á að fara. En mér finnst ekki nægilega séð fyrir þeirri samvinnu í frv., og mætti að mínu áliti auðveldlega bæta úr því með örlítilli breyt. í 3. gr., þar sem kveðið væri fastar að orði um eðlileg og sjálfsögð tengsl milli félmrn. og sambandsins um allar framkvæmdir.

Það er í raun og veru lagður mikill vandi á herðar Sambands íslenzkra berklasjúklinga. Því eru ekki aðeins ætlaðar vandasamar framkvæmdir, heldur einnig lögð á það sú þunga ábyrgð að fara með mikið fjármagn, sem nálgast að vera almannafé. Því veltur á miklu, að með það fé verði farið af fullri gætni og að þannig sé um hnútana búið, að hvenær sem er sé unnt að gera full skil reikningslega, ef einhvern tíma kynnu að rísa upp grunsemdir eða aðdróttanir um ógætilega meðferð þessa fjár.

Mér finnst vanta í frv. ákvæði, er verndi sambandið fyrir óréttmætum aðdróttunum í framtíðinni. Það ákvæði gæti verið á þann veg, að ársreikningar happdrættisins skyldu endurskoðaðir, t.d. í endurskoðunardeild fjmrn., og síðan birtir í Lögbirtingablaðinu. Slíkt gæti girt fyrir, að skæðar tungur síðar meir ynnu þessu góða málefni tjón.

Ég er viss um, að hv. flm. eru síður en svo mótfallnir því, að gerðar verði á frv. breyt., sem miða til bóta. Ég á einnig von á því, að sú hv. n., sem málið fær til athugunar, ljái eyra þessum ábendingarorðum mínum og öðru því, sem orðið getur til framdráttar þessu mikilsverða máli.