07.04.1959
Efri deild: 96. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (993)

105. mál, samband íslenskra berklasjúklinga

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram eina smábrtt., sem ég reyndar var búinn að segja frá að ég hefði í huga áður. Mér virtist í fyrstu, þegar ég leit yfir þetta, að þar sem þjóðinni fer ört fjölgandi og vonandi heldur henni áfram að fjölga og starfsemin undanfarið hefur sýnt, að þurft hefur að breyta fjölda þeirra seðla, sem happdrættinu er leyft að selja, á síðustu tíu árum tvívegis, þá mundi vera réttara að hafa í frv. möguleika til þess, að ekki þyrfti þess vegna að breyta l. á þeim tíu árum, sem þau ættu að gilda. Þess vegna legg ég til, að a-liðnum í 1. gr. verði breytt þannig lagað, að á árinu næsta, 1960, verði gefin út sú hlutatala, sem í l. segir, 65 þúsund, síðan megi hún fjölga um 6/17 af fólksfjölguninni á hverju ári. Þá verður alltaf sama hlutfall á milli miðanna, sem eru til sölu, og fólksfjöldans í landinu. Ég legg þetta þó undir leyfi ríkisstj. hverju sinni, því að þannig getur staðið á, að það séu ekki ævinlega verðbólgutímar, heldur geti komið verðhjöðnunartímar, peningar orðið litlir á milli manna og þá ekki ástæða til að hafa það hærra, en undanfarið ár. Það þyrfti því hverju sinni leyfi frá ríkisstjórninni til þess að bæta við hlutatöluna.

Þessar umræður, sem ég hef hlustað á hér, bæði hjá frsm., hans ýtarlegu ræðu, og hjá 8. landsk., lúta að því, að það séu fleiri öryrkjar, en berklaöryrkjar, og hér í þessu frv. er ætlazt til þess, að eitthvað af þeim öryrkjum fái vinnu og útgöngudyr úr sinni öryrku út í starfandi athafnalíf í gegnum Reykjalund, en það sé ekki einhlítt, það séu aðrir sjúklingar, sem þurfi að koma þar til greina líka og önnur samtök, sem vilji hjálpa þeim og þurfi á styrk að halda. Það kom greinilega fram í ræðu frsm., að n., sem hefur haft þetta mál til athugunar, hefur hug á því, hvort sem af því verður, — það dregst nú stundum hjá n. að koma í framkvæmd, hún hefur hug á því að koma með einhvers konar rökst. dagskrá, sem reyni að ýta á eftir því að finna leiðir til þess arna og reyni að samræma þetta starf meira, en gert hefur verið, eins og þeir áttu að gera með tryggingalögunum. Þó þykir mér nú líklegast við fljóta athugun, að það muni koma samband milli þeirra félagssamtaka, er hjálpa vilja öryrkjunum, og þá notast þau húsakynni, sem þegar eru komin á Reykjalundi og þar koma í viðbót eftir þessum lögum. Það eru ein fimm eða sex ár, síðan ég fór með búnaðarþingi upp að Reykjalundi, og okkur var gefið kaffi í félagshúsinu í sveitinni, sem er þar rétt skammt frá, og þá var nú mikið talað um það, að berklaveikin í landinu sé að verða búin og þegar ég þá þakkaði fyrir okkur, búnaðarþingið og búnaðarþingsfulltrúana, sem þar voru, þá sagði það, að þó að það yrði nú fljótlega, að vísindin ynnu þann sigur að geta útrýmt berklunum hér á landi, þá væru nógir aðrir öryrkjar, sem mundu hafa gott af þeim byggingum, sem þar væru upp komnar, og geta fengið þaðan útgöngudyr út í hið starfandi líf í landinu.

Ég held, að það sé svo, að það eigi að sameina það, sem fyrir er, og reyna að gera það, sem hægt er, til að veita öryrkjunum þá möguleika, sem þeir þurfa að fá til þess að geta orðið þátttakendur í sjálfu atvinnulífinu, og það er mín trú, að það sé betur gert með því að hlynna vel að á einum stað, heldur en að byrja einhverja vísa á mörgum stöðum. Séð frá því sjónarmiði, að ég tel líklegast, að það verði frekar unnið að því að efla Reykjalund, heldur en búa til aðrar stofnanir við hliðina á honum, sem standa undir stjórn annarra samtaka til hjálpar öryrkjum, tel ég ástæðu til þess að lofa happdrættismiðunum að fjölga, eftir því sem fólkið eykst og salan fyrir þá á markaðinum vex.