07.04.1959
Efri deild: 96. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

105. mál, samband íslenskra berklasjúklinga

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er fátt, sem ég þarf að bæta við orð mín í gær. — Hv. 1. þm. N-M. flytur brtt. á þskj. 351 um það, að hækka megi hlutatölu í happdrættinu úr 65 þús., ef landsmönnum fjölgar, og þá í vissu hlutfalli þar við. Nú er það svo, að Samband ísl. berklasjúklinga hefur sjálft farið fram á töluna 65 þús., sem er nokkur hækkun frá því, sem nú er, og mér finnst ekki ástæða til þess að fara að hækka þetta eða veita heimild til frekari hækkunar, það getur komið á sínum tíma. M.a. er það svo um happdrætti háskólans, að þar hefur jafnan frá upphafi verið ákveðin hámarkstala, og ef sala hefur gengið svo vel, að ástæða þætti eða líklegt til árangurs að hækka töluna þá hefur stjórn happdrættisins snúið sér til Alþingis, sem jafnan hefur orðið við beiðnum í þá átt. Ég sé því ekki ástæðu til þess að mæla með samþykkt þessarar tillögu og fara að hrekja málið milli deildanna af þeirri ástæðu.

Varðandi brtt. á þskj. 315, þá minntist ég nokkuð á hana hér í gær og benti á það, að í reglugerð, sem ríkisstj. hefur sett um þetta vöruhappdrætti, er skýrt tekið fram, að af ríkisins hálfu eða fjmrn. skuli tilnefndir tveir endurskoðendur og þriggja manna stjórn happdrættisins er einnig skipuð af ríkisstj., og ætti þetta að vera fyllilega nægilegt eftirlit.

Hv. 8. landsk. þm. minntist á skrá um 1.100 öryrkja, sem eru á bótum hjá Tryggingastofnun ríkisins, en þessi skrá um sundurliðun á þessum 1.100 öryrkjum eftir orsökum örorkunnar er frá Tryggingastofnuninni, og las ég hana hér í gær. Hann taldi, að sú skrá væri, svo langt sem hún næði, rétt og gæfi þó ekki alveg rétta mynd af tölu öryrkjanna. Ég gat þess sjálfur, að öryrkjar væru miklu fleiri en 1.100, — þetta eru aðeins þeir, sem eru á bótum hjá Tryggingastofnuninni hér í Rvík, — og taldi, að öryrkjarnir mundu samtals vera a.m.k. hátt á annað þúsund. Auk þess er það við þessa skrá að sjálfsögðu að athuga, eins og kom fram í hans ræðu, að ýmsir eru þar ekki taldir, m. a. börn, sem fengið hafa lömun. En sem sagt, skráin er óvefengjanlega rétt um það, hvernig þessir 1.100 öryrkjar skiptast.

Nú mátti skilja það svo á ræðu hv. 8. landsk., og jafnvel hafa sumir dregið þá ályktun líka af bréfi því, sem Sigursveinn Kristinsson skrifaði f.h. Sjálfsbjargarfélaganna til nefndarinnar, að Sjálfsbjargarfélögin væru í rauninni fulltrúar fyrir alla eða svo til alla öryrkja í landinu nema berklasjúklinga. Það er langt frá því, að þetta sé rétt, enda býst ég alls ekki við, að það hafi verið ætlun Sjálfsbjargarfélaganna eða þess, sem skrifar þetta bréf, né heldur að það hafi verið ætlun hv. 8. landsk., en ég hef orðið var við þennan misskilning. En svo er mál með vexti, að þeir öryrkjar, sem heyra undir félög fatlaðra, Sjálfsbjargarfélögin, eru aðallega tveir flokkar, það er lömunarveikisjúklingar og svo ýmsar bæklanir, og þeir eru eftir skránni frá Tryggingastofnuninni rúm 10% af öryrkjunum. Nú má vera, að gigtarsjúklingar komi þarna t.d. að einhverju leyti til, en tæplega aðrir öryrkjaflokkar, a.m.k. ekki að neinu ráði. Ég tel rétt, að þetta komi fram. Um leið og við að sjálfsögðu viljum veita sem mestan atbeina til þess, að Sjálfsbjargarfélögin og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra geti notið sín og gegnt sínu þýðingarmikla hlutverki, þá er þó rétt að gera sér grein fyrir því, að það eru mjög fjölmennir hópar öryrkja, sem alls ekki eru í þeim félögum og ekki falla undir þau.

Það féllu svo orð hjá hv. 8. landsk. hér áðan, að svo mætti ekki fara, að samtök öryrkja — og átti hann þar við Sjálfsbjargarfélögin — væru sniðgengin af Alþingi. Ég tel þetta ástæðulaus og jafnvel ómakleg orð, því að ég veit ekki til þess, að óskir þeirra félaga, Sjálfsbjargarfélaganna, hafi á nokkurn hátt verið sniðgengnar af Alþingi. Það hafa ekki komið beiðnir frá félögunum enn þá til Alþingis um aðstoð eða leyfi til fjáröflunar mér vitanlega eða leyfi fyrir sérstökum tekjustofnum, og ég tel víst að því muni verða mjög vel tekið, ef slík beiðni kemur hingað. Ég tel hins vegar æskilegt, að öryrkjafélögin reyni sjálf að benda á einhverja tekjustofna, eins og SÍBS gerði á sínum tíma. Þegar SÍBS hóf sitt starf, gerði sá félagsskapur það ekki með þeim hætti að ætla að ganga inn á tekjustofna annarra líknarfélaga, sem fyrir voru, og ég vænti þess líka, að sá hugsunarháttur og sá andi sé enn ríkjandi, að önnur líknarfélög ætlist ekki til, að farið sé að skerða þann tekjustofn, sem SÍBS hefur unnið upp, og taka hluta af honum til annarra.

Nú er það svo varðandi þau félög, sem hér hafa verið nefnd, Sjálfsbjargarfélögin og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, að eins og ég gat um í gær, tel ég mikla nauðsyn að veita þeim sem mestan stuðning, og ég vil sérstaklega benda á það, að sá sjóður, sem ég nefndi hér í gær að stofnaður var með lögum frá 1952, erfðafjársjóðurinn, er sérstaklega til þess ætlaður að veita lán og styrki til þess að koma upp vinnuskólum, vinnuhælum, vinnuheimilum, kaupa vinnutæki o.s.frv. Ég vil nefna sérstaklega, að það, sem talið er hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra einna mest aðkallandi af öllu, er að koma hér upp fullkomnum umbúðaverkstæðum, en mjög skortir á, að það verkstæði, sem fyrir er, geti annað eftirspurninni. Hér þarf auðvitað nokkurt fé, og ég segi það sem mína skoðun persónulega, að ég teldi mjög eðlilegt, að erfðafjársjóður styrkti slíka starfsemi. Í erfðafjársjóði voru um síðustu áramót 5.3 millj. kr., eign sjóðsins, en af því mun búið að lána út um 800 þús.

M.ö.o.: þarna eru 41/2 millj. kr., sem ekki hefur enn þá verið ráðstafað, fé, sem ætti að vera tiltækt til þess að styðja þessi félög öryrkjanna öll, bæði SÍBS eftir þörfum eða Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, Sjálfsbjargarfélögin, blindrafélögin, Heyrnarhjálp, en þessi eru þau öryrkjafélög, sem mér er kunnugt um hér í landinu.

Ég ætla, að það séu ekki fleiri atriði úr þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar um málið, sem ástæða er til að rekja, en að sjálfsögðu vil ég taka undir þær óskir, sem hér hafa komið fram, að unnt verði, áður en langt um líður, að stofna bandalag eða samtök allra öryrkjafélaganna. Það mundi vafalaust verða til góðs fyrir félögin og á marga lund auðvelda Alþingi og ríkisstj. alla fyrirgreiðslu í þessum efnum, ef þar væri einn aðili, sem hefði innan sinna vébanda öll þessi ágætu og ötulu félög.