13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er á dagskrá, var lagt fram í Nd. á fyrstu dögum þingsins. Það var lagt fram sem stjfrv. og hafði verið samið með hliðsjón af gildandi lögum og þeim breytingum á stjórnarskipunarlögunum, sem voru þá til umræðu hér í hv. d., en samþ. voru á síðasta Alþ. Var á fyrstu fundum í þessari hv. d. kosin sérstök stjskrn. til þess að athuga frv. og hafa samvinnu um athugun á því við hv. stjórnarskrárnefnd Nd.

Nefndirnar unnu saman að athugun á frv. og breytingum á fimm fundum og sé ég ekki ástæðu til þess að ræða þær breytingar, sem gerðar hafa verið á frv. í hv. Nd. og ég sé ekki heldur ástæðu til að ræða einstök atriði frv., það gerði hæstv. ráðh., þegar hann lagði frv. hér fram við 1. umr. í gær.

Eftir að frv. var vísað til hv. stjskrn. þessarar hv. d., tók hún það strax til athugunar og hélt um það tvo fundi í gær. Henni þótti rétt að bera nákvæmlega saman sjálft frv., eins og það lá fyrir, við gildandi lög og við þær breyt., sem hafa verið gerðar á stjórnarskránni, til þess að fullvissa sig um, að þar væri fullt samræmi á milli. Henni þótti einnig rétt í svo stóru máli, að fá aðstoð hjá skrifstofustjóra Alþ. til þess að starfa með nefndinni að þessari athugun og lét hann það fúslega í té við n. Við þessa athugun kom í ljós, að nauðsynlegt þótti að gera nokkrar smávægilegar breyt. til leiðréttingar á frv., og eru þær birtar á þskj. 38. Síðan þessar brtt. voru prentaðar, hefur enn farið fram á ný nokkur athugun á málinu og þá kom í ljós, að nauðsynlegt mundi þykja að gera eina brtt. enn við ákvæði til bráðabirgða, sem ég skal koma að síðar.

N. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með þessum breyt., sem ég þegar hef lýst og skal nánar skýra frá, en þó eru 2 nm., sem skrifa undir með fyrirvara og hafa auk þess gefið út brtt. á þskj. 39, en annar eða báðir gera grein fyrir því við þessa umr. Leggja þeir til, að gerð sé ákveðin breyt. við 9. gr. Að öðru leyti er n. sammála um, að frv. sé samþykkt óbreytt, að öðru leyti en því, sem ég hef þegar tekið fram um brtt. á þskj. 38 og hina skriflegu brtt., er ég mun bera hér fram.

Í 12. gr. frv., sem er á bls. 3 á þskj. 20, stendur í upphafi gr.: „Varamenn taka sæti í landskjörstjórn og undirkjörstjórn í forföllum aðalmanna.“ En þar hefur fallið út, ætti að vera: „Varamenn taka sæti í landskjörstjórn, yfirkjörstjórn og undirkjörstjórn í forföllum aðalmanna,“ vegna þess að það eru varamenn í öllum þessum stjórnum og er því þessi fyrsta brtt. borin fram til leiðréttingar á þessu, orðað þannig: „Á eftir orðinu „landskjörstjórn“ í 1. mgr. komi: „yfirkjörstjórn“.

2. brtt. er við 39. gr. Þar stendur nú: „Nú er framboðslisti úrskurðaður ógildur og skal þá afrit af úrskurði þá þegar afhent.“ Þetta þótti n. rétt að leiðrétta og láta orðið „þá“ falla niður, en brtt. er orðuð þannig: „Fyrir orðið „skal þá“ komi: skal.“ Er það einnig aðeins til leiðréttingar.

3. brtt. er við 71. gr., 3. mgr. N. þótti rétt að leggja til, að á eftir orðinu „bæjarfógeti“ komi „borgarfógeti“ innan sviga, og er þar átt við Reykjavík, eins og víða er í frv.

Þá er 4. till. við 101. gr. Þar leggur n. til, að síðari málsl. 2. mgr. orðist um og hljóði þannig: „Að lokinni atkvæðatalningu býr yfirkjörstjórn um kjörskrárnar í innsigluðum umbúðum og sendir þær dómsmrn.“ En í frv. stendur nú á þskj. 20, að þetta skuli afhendast sýslumanni eða bæjarfógeta — í Reykjavík borgarfógeta — til varðveizlu. Nú er það vitað, að eftir að kjördæmin hafa verið stækkuð, þá er um fleiri en einn sýslumann að ræða í kjördæmi, og þótti því rétt að breyta þessu þannig, að þessi gögn yrðu send til dómsmrn.

5. brtt. er við 140. gr., um refsiákvæði. Þar er talað um að refsa sýslunefndum, ef þær gæta ekki embættisskyldu sinnar, svo sem fyrir er mælt í frv. En með því að, á sýslunefndir er nú ekki lögð nein embættisskylda í sambandi við frv., eins og það lítur út, þótti rétt að fella þetta orð niður, og er gerð till. um það með 5. brtt.

Í ákvæði til bráðabirgða á þskj. 34 þykir rétt að leggja til, að á eftir 2. mgr. komi ný mgr., svo hljóðandi: „Er kosningu er lokið hinn fyrri kjördag, skal um meðferð kjörgagna fara eftir ákvæðum 4. mgr. 123. gr.“ Það má segja, að það sé ekki alveg óhjákvæmilegt að samþykkja þetta ákvæði, en úr því að málið fer aftur til hv. Nd., þótti rétt að setja inn skýrt ákvæði um þetta, svo að það gæti ekki valdið neinum misskilningi síðar meir.

Þá vil ég leyfa mér að taka fram í sambandi við 6. gr. frv. á þskj. 20, að þar stendur í 3. mgr.: „Í hreppum, þar sem kjördeildir eru færri en fjórar, eiga 15 kjósendur, sem búsettir eru innan sama hreppshluta, rétt á, að hann verði gerður að sérstakri kjördeild, ef þeir krefjast þess, áður en kjörskrá hefur verið lögð fram, enda sé þessi hluti hrepps afskekktur og erfitt um kjörsókn þaðan að áliti yfirkjörstjórnar.“ Hv. 1. þm. N-M. hafði óskað eftir því við mig sem formann n., að ég gerði tilraun til þess að fá þessu ákvæði breytt og lækka þessa tölu niður í 12 kjósendur í staðinn fyrir 15, þar sem honum væri kunnugt um a.m.k. eina kjördeild, sem væri mjög afskekkt og gæti vel komið til mála, að hún færi niður fyrir þá tölu, sem tekin er upp í gr. N. vildi ekki fallast á að gera till. um breyt. á þessu ákvæði, en hins vegar er það samkomulag, að ég lýsi því hér yfir, að það er fullkomlega skilningur stjskrn. efri deilda, og sá skilningur kom einnig fram á sameiginlegum fundi hjá stjskrn. beggja d., að þessa gr. bæri ekki að skilja svo, að það væri heimilt að leggja niður kjördeild, sem áður hefði verið, þótt kjósendatalan færi niður fyrir þá tölu, sem ákveðin er í gr. Það væri hins vegar engin heimild að setja á stofn nýja kjördeild, ef færri en 15 kjósendur óskuðu þess.

Með þessari yfirlýsingu væntum vér í n., að fullnægt sé óskum hv. 1. þm. N-. og annarra, sem kynnu að hafa sömu ástæðu til þess að óska, að þessari gr. verði breytt. Að sjálfsögðu verður sú kjördeild, sem kynni að verða í færri en 15 kjósendur, að uppfylla öll önnur ákvæði I. í sambandi við kjörfund, eins og þau eru ákveðin í frv.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða að sinni meira um þetta mál hér. Fyrir hönd stjskrn. legg ég til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem ég hef þegar lýst og mun afhenda hæstv. forseta hina skrifl. brtt. til þess aðbera hana einnig upp við þessa umr., en það hefur ekki gefizt tími til þess að láta prenta hana.