13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (110)

3. mál, kosningar til Alþingis

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, því að það er alls ekki ætlun mín að lengja þessar umr. með þjarki. En út af því, sem hv. frsm. n. sagði, þegar hann minntist á till. þá, sem við hv. þm. Str. flytjum, vildi ég aðeins segja nokkur orð.

Hann sagði, að það yrði erfitt að fá menn til að líta svo á, að með þessum hætti, sem lagt er til í frv. um kjör yfirkjörstjórnarmanna, væri verið að taka nokkurn rétt af kjósendum eða heimamönnum. M.ö.o.: Hann leit svo á, að það væri ekki hægt í raun og veru að kjósa til yfirkjörstjórnar á lýðræðislegri hátt, en Alþingi gerði það og þm. væru kosnir af almenningi til þess að fara með svona mál. Rétt er það, að umboð það, sem þm. hafa, er mikið til löggjafar. En víst er þó, að hefðir og almennur hugsunarháttur gerir það nokkuð ákveðið um viss atriði, hvað ætlazt er til að þm. gangi langt í því að beita þessu umboði.

Nú býst ég við því, að þegar farið verður að kjósa hér af hæstv. Alþ. í yfirkjörstjórnir, ef till. okkar framsóknarmannanna verður felld, þá komi það strax í ljós, að það verði lagðir fram listar, flokkarnir tilnefni sína flokksmenn heima í héruðunum og það fari svo eftir styrk þeirra hér á Alþ., hverjir það verða pólitískt, sem koma að mönnum í þessar yfirkjörstjórnir. Ég lýsti því yfir áðan, að ég teldi, að það ætti ekki að kjósa eftir pólitískum línum og ég fullyrði, eins og hv. 1. þm. N-M. sagði, að það hefur ekki yfirleitt verið gert í héruðunum, enda hafa enn aðrar ástæður verið látnar þar gilda meira, því að það hefur verið litið á mennina eins og menn, sem fara með úrskurðar- eða dómsvald. En á Alþingi verður áreiðanlega kosið eftir flokkslínum, svo að það er rangt að segja, að þá verði á fullkomnasta hátt kosið lýðræðislega.

Og svo kemur það til greina, að almenningur hefur alls ekki ætlazt til þess, að í umboði þm. fælist það, að þeir gengju inn á það svið, sem heima fyrir hefur með hefð verið helgað almenningi. Ef farið er að taka réttinn af almenningi heima fyrir til þess að kjósa yfirkjörstjórnir hjá sér, þá er eins hægt að hugsa sér, að næsta skrefið yrði það eftir túlkun hv. þm. Barð., að Alþingi færi að kjósa hreppsnefndirnar og sýslunefndirnar. Umboðið er náttúrlega ekki svo bundið stjórnlagalega, að þetta væri ekki hægt.

Ég er viss um það skv. framansögðu, að till. okkar er miklu lýðræðislegri og beinir þessu máli inn á lýðræðislegri brautir en frv. gerir, einmitt inn á þau svið, sem hefðin ætlast til að valdið í þessum efnum sé. En sé það nú hugmyndin að taka valdið af almenningi og flytja til Alþingis, þá er það satt að segja í nokkru samræmi við stjórnarskrárbreytinguna, en alveg ónauðsynlegt skv. henni að beita því bragði. Það tel ég óþarft og ofgert hjá þeim mönnum, sem annars hafa barizt fyrir stjórnlagabreytingunni, — ofgert að óþörfu og aðeins í þágu hófleysunnar.