13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

3. mál, kosningar til Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þegar hér var til meðferðar í hv. d. þáltill, um að kjósa sérstaka stjórnarskrárnefnd, áður en því máli var vísað til d., þá var ástæðan sú, sem færð var fyrir þessari till., að n. ætti þegar að vinna með stjskrn. Nd. og þá alveg sérstaklega að athugun kosningalaganna, því að stjórnarskrárfrv. sjálft virtist ekki að því leyti þurfa athugunar við, að meiri hluti þings hafði samið um það og það á síðasta þingi, að það skyldi, eins og það lá fyrir, ganga fram óbreytt, og þýddi þar í raun og veru ekki athugun. En við hinu var hægt að búast, að því er kosningalögin snerti, að þar yrði ekki beitt neinu flokksvaldi, heldur vildu menn hjálpast að því að gera kosningalögin sem bezt úr garði.

Ég hreyfði því þá þegar undir meðferð þessarar þáltill. hér í hv. d., að jafnvel þó að ég hefði ekkert á móti því, að sú nefnd yrði kosin þá þegar hér í d., og ég hefði ekki heldur á móti því, að hún ynni með hv. stjskrn. Nd., þá ætlaðist ég þó til, að það færi fram alveg sérstök athugun á þessu máli, þ.e.a.s. kosningalögunum, þegar það kæmi til þessarar hv. deildar.

Hv. frsm. stjskrn. upplýsti það að vísu, að n. hefði haldið um þetta tvo fundi, eftir að frv. var til hennar vísað, auk þess sem hún vann með stjskrn. Nd., en mér þykja tveir stuttir fundir satt að segja ekki bera vott um mjög mikla sérstaka athugun á málinu hér í hv. deild.

Ég ætla þó ekki að gera miklar athugasemdir við frv., eins og það liggur fyrir, en aðeins nefna örfá atriði.

Mér hefði fundizt, að það hefði ekki mátt minna vera en að frá hv. nefnd kæmu skýringar, sem væru þá birtar almenningi jafnvel, um það, hvernig skilja beri 110. gr. frv. og hvernig hún muni verka. Mér er til efs, að almenningur úti um land muni skilja þessa gr., eins og hún er orðin nú og jafnvel að allir kjörstjórnarmenn muni skilja það nákvæmlega, hvað við er átt með henni. Allir vita um tilganginn með þessari gr. Hann er sá að torvelda kjósendum að breyta til á framboðslista, að strika þar yfir nöfn eða færa til á listanum — og þó ekki beinlínis að torvelda mönnum að framkvæma þessa athöfn, heldur að draga úr verkunum hennar, sem mjög er dregið úr með þeim ákvæðum, sem nú eru í 110. gr.

Ég álít, að það sé alveg rétt stefnt með því atriði í frv. að draga úr verkunum tilfærslna og yfirstrikana, því að með því fyrirkomulagi, sem áður var, gat það hent og voru dæmi til, að það henti, að mikill minni hluti þeirra, sem lista kusu, réð því raunverulega, hver varð þm., en yfirgnæfandi meiri hluti réð því ekki. Þetta kom fyrir,og ekki er hægt að segja, að það sé lýðræðislegt. Þess vegna er réttmætt að gera ráðstafanir til að draga úr verkunum þessara athafna. En spurningin er: Þurfti að finna svona flókna aðferð til þess að ná þessu marki eins og hér er?

Ég er ákaflega hræddur um, að það verði einhverjir, jafnvel sem um þetta eiga að fjalla, sem ekki verða alveg á því hreina þegar í stað um, hvernig skilja beri ákvæði greinarinnar.

Hér virðist ekki vera ágreiningur í n., nema um eitt einasta atriði. Það er um það, hvernig eigi að skipa yfirkjörstjórnir í hinum einstöku stóru kjördæmum. Hv. þm. Barð. finnst það ekkert vera að draga úr rétti manna úti um land að láta Alþingi kjósa kjörstjórnirnar með hlutfallskosningu. Það hefur þó hingað til verið svo, að vald til að kjósa kjörstjórnirnar, að svo miklu leyti sem ákveðinn embættismaður hefur ekki gegnt þar starfi, hefur verið í höndum sýslunefnda í sýslum og bæjarstjórna í kaupstöðum og ég tel engan vafa á því, að ef sveitarstjórnarlögunum hefði verið breytt samhliða stjórnarskránni og kosningalögunum, þannig að hvert af þessum kjördæmum hefði verið gert að fylki, eins og stungið hefur verið upp á að skipta landinu í fylki og hvert þetta svæði hefði haft sitt fylkisþing, þá er ekki nokkur minnsti vafi á, að slíkum fylkisþingum hefði verið falið að velja kjörstjórnirnar nema e.t.v. formenn þeirra. Það hugsa ég, að allir geti verið sammála um. Nú er ekki tilgangurinn með þessum breytingum, sem gerðar eru, að stofna nein slík fylki að sinni og er þá nokkuð eðlilegra en að sýslunefndir og bæjarstjórnir haldi sínum rétti til að kjósa þessa starfsmenn, eins og þær hafa haft, eða að svo miklu leyti sem það samrýmist breyttu skipulagi? Ég sé engin rök á móti því og ég heyrði ekki, að hv. frsm. n. færði nokkur minnstu rök á móti því. Hann var að færa rök að því, að það væri ekkert hættulegt að láta Alþ. gera þetta. Það kann að vera, að það sé ekkert sérstaklega hættulegt. En ég sé engin rök liggja til þess að breyta þarna til. Það er hægt að koma því við, að sýslunefndir og bæjarstjórnir kjósi áfram kjörstjórnirnar. Ég held því, að hv. þd. ætti að fallast á þá brtt. við frv., sem þeir flytja hv. þm. S-Þ. (KK) og hv. þm. Str. (HermJ) og ég verð að segja það, að ef sú till. verður ekki samþ., þá fyndist mér réttara að færa þá frv. í hið fyrra horf, eins og það var lagt fyrir, að því er þetta atriði snertir. Ég hygg, að flestir muni treysta því, að dómarar séu öðrum mönnum færari og hæfari til þess að skera úr ýmiss konar ágreiningi og ég held, að það væri réttari skipun á yfirkjörstjórnum, að þær væru skipaðar eins og upprunalega var ákveðið í frv., að það væru þrír sýslumenn og bæjarfógetar í hverju kjördæmi, heldur en Alþ. væri að kjósa þær. Ég býst við að vísu, að Alþ. sé þannig skipað, að það séu menn til á Alþ., sem þekkja menn í öllum þessum kjördæmum, sem á að stofna og það valdi ekki vandkvæðum, en vitanlega verður kosningin á Alþ. algerlega pólitísk, eins og við vitum að allar kosningar eru. Ég held líka, að það hefði átt að afnema landskjörstjórnina og fela hæstarétti að vinna það verk, sem henni er ætlað, en út í það fer ég nú ekki.

Það er víst ekki í frv. neitt ákvæði um það, hvaða borgun þessir menn ættu að fá fyrir starfa sinn, því að það verður töluvert verk, því að fyrst eiga þeir, að mér skilst eftir frv., að vera saman komnir kjördaginn og einhvern dag eða daga verða þeir að vera saman komnir eða a.m.k. oddviti kjörstjórnarinnar að vera til staðar á ákveðnum stað, miðsvæðis í kjördæminu, seinustu dagana, sem framboðsfrestur varir og síðan í þriðja lagi að telja atkvæðin með öllu því vafstri, sem nú verður, því að það er sýnilegt, að það verður mikið verk í hverju kjördæmi að telja atkvæði. Það er býsna lengi verið að opna kassana, athuga bókanir hinna einstöku kjördeilda og steypa þessu öllu saman, þegar kjördeildir eru orðnar fjöldamargar, eins og búast má við. Ég man það í síðustu kosningum í mínu kjördæmi og eru kjördeildirnar þar ekki nema 15, en bara þessi undirbúningur tók æði mikinn tíma. Ég sé ekki annað, en það gefi orðið æði mikið starf að vera í yfirkjörstjórn og er það sjálfsagt réttmætt, sem 1. þm. N-M. vék að, að það þyrfti að ákveða um greiðslur til þeirra, sem þetta starf inntu af hendi. E.t.v. getur hæstv. dómsmrh. gefið lögskýringu á því, að það sé sjálfgefið, að þeim beri greiðsla úr ríkissjóði.