13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (112)

3. mál, kosningar til Alþingis

Páli Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er bara til að leiðrétta misskilning eða til að reyna að koma réttum skilningi inn hjá hv. þm. Barð. (GíslJ) á því, sem ég sagði áðan.

Eins og núna er ákveðið í frv., á í Sþ. eftir hverjar almennar alþingiskosningar að kjósa 5 manna landskjörstjórn hlutbundnum kosningum og jafnmarga til vara. Svona hljóðar þetta nú í 3. gr. Og eins og nú á að breyta 9. gr. á, á sama hátt að kjósa yfirkjörstjórnir í hinum einstöku kjördæmum. Afleiðingin af þessu er, að það þurfa engir fimm menn að deyja á milli þinga, til þess að kjörstjórn verði óstarfhæf. Það þarf bara að deyja einn varamaður og einn aðalmaður frá sama flokki. Ef t.d. Alþfl. á einn mann kosinn á Alþ. og einn varamann, þá er kjörstjórnin óhæf, ef þeir báðir deyja. Það er ósköp vel hugsanlegt á einu ári, ég tala nú ekki um á 4 árum milli kosninga, að það deyi tveir menn, svo að það verði óstarfhæf kjörstjórn. Þess vegna er það, að ef menn vilja virkilega láta Alþ. vera að kjósa kjörstjórnirnar, sem ekki er nein þörf á og ekkert vit i, í raun og veru, þó að menn vilji gera sig mikla með því að beita þar valdi sínu gagnvart sýslunefndum, þá þarf að búa öðruvísi um þetta, þá þarf að búa þannig um þetta, að það sé einhver aðili til, sem geti skipað menn í staðinn, þegar Alþ. situr ekki. Það er meira að segja hugsanlegt, að þeir deyi einum, tveimur, þremur, fjórum dögum fyrir kosningu, bæði aðalmaður og varamaður frá einhverjum flokki. Þá er enginn maður til í kjörstjórninni og enginn aðili til, fyrr en næsta Alþ. kemur saman, til að kjósa þá. Þetta hljóta allir menn að sjá, þegar þeir athuga málið. Það er ekki hægt að hafa þetta svona.

Þm. Barð. skildist, að það væri hægt að hafa það þannig, að ef það dæju tveir kjörstjórnarmenn, aðalmaður og varamaður, frá Sjálfstfl., þá mætti bara setja komma í staðinn. Það gerði ekkert til, þó að það væri einhver í kjörstjórninni, sem væri kosinn af kommum. Þá mætti hafa bara komma í staðinn eða einhvern annan. Það er ekki meiningin. Hins vegar er það óforskammað að reyna að gera þessar kjörstjórnir pólitískar með því að kjósa pólitískt í þær. Það á alls ekki við. Kjörstjórn á að vera gersamlega ópólitísk og hafin yfir það. Hún á að líta á málin frá lögfræðilegu og réttlætissjónarmiði og alls ekki vera kosin pólitískt á Alþ. Það er rangt að láta hana vera það. Það er ekki heldur þannig í sýslunefndunum, það er svo langt frá því. Það er alveg sitt á hvað með það í sýslunefndunum. Sýslunefndirnar hafa ákaflega víða reynt að kjósa menn, sem væru ekki langt hver frá öðrum, til þess að spara peninga og menn, sem allir treystu. Þetta hefur verið sjónarmið sýslunefndanna. Nú á þetta að hætta, Alþingi að kjósa mennina pólitískt, ekki segja eitt einasta orð um það, hvort eigi að borga þeim. Þeir eiga kannske að kjósa annan manninn norður í Skeggjastaðahreppi og hinn manninn suður í Öræfum til að lenda í kjörstjórn í Austfjarðakjördæminu og verða svona tvo daga úr hvorri sýslu að komast á fund. Nei, sýslunefndirnar mundu ekki kjósa þannig, ef þær kysu. Þær mundu kjósa af viti og réttlæti séð frá heildarinnar sjónarmiði.

Ég held nú, að það sé ákaflega misráðið, en ef farið er inn á það að láta þingið kjósa þá, þarf að búa betur um þetta en nú er. Þá þarf að setja inn í frv., að það sé borgaraleg skylda að taka þessari kosningu, ef maður er kosinn. Helmingurinn af þeim mönnum, sem á að kjósa núna, getur neitað að taka kosningu. Það er engin borgaraleg skylda að taka kosningu í þessa nefnd, ekki nokkur. Það vantar alveg inn í frv. Það hefur þm. Barð. ekki heyrt áðan eða leitt það alveg hjá sér að segja nokkuð um það. Og svo er líka ekkert vit í því að láta einn manninn taka allt upp undir fimm hundruð kr, á dag fyrir að sitja í yfirkjörstjórn, en annan ekki nema á annað hundrað, eins og hefur verið undanfarið. Það á að samræma þetta um landið, og það á að gera það með lögunum, svo að menn viti, að hverju þeir ganga, þegar þeir taka þátt í henni, en ekki að það séu handahófsreikningar eftir á, sem borgaðir eru.