13.08.1959
Efri deild: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

3. mál, kosningar til Alþingis

Páll Zóphóníasson:

Það er svo sem auðséð, að hæstv. forseti ætlar ekki að gefa n., sem hefur haft málið til meðferðar, neitt tækifæri til að athuga þær brtt., sem ég var að tala um að þyrfti að gera. Ég mun þess vegna sjálfur koma með þær. En hins vegar þarf maður þó að hafa tíma til að skrifa þær, en það hefur maður nú ekki einu sinni nú.

Brtt., sem ég mun koma með, er í fyrsta lagi við 7. gr. frv.: „Kjörstjórnir við alþingiskosningar skulu vera þrennar, landskjörstjórn, yfirkjörstjórnir, undirkjörstjórnir. Það er borgaraleg skylda að taka við kosningu í kjörstjórn.“ Það er mín viðbót þar.

Hitt var við 9. gr. Greinin hljóðar svo: „Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn og skal hún skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara, og eru þeir kosnir á sameinuðu Alþingi á sama hátt og landskjörstjórn. Kýs hún sér sjálf formann. Yfirkjörstjórnarmenn skulu allir vera búsettir í hlutaðeigandi kjördæmi.“

Ég er búinn að benda á það, að vel geti svo farið, að kjörstjórn verði ekki fullskipuð, þegar Alþingi á að skipa hana, af þeirri einföldu ástæðu, að menn deyi, sem í hana hafa verið kosnir eða flytji í burtu og að það geti komið fyrir, að tveir geri það, bæði aðalmaður og varamaður frá sama flokki. Ég er alveg á móti því fyrst og fremst að gera þessar kjörstjórnir pólitískar og kjósa þær þannig. Það kann að hafa verið gert í kaupstöðunum, en það hefur yfirleitt aldrei verið gert í sveitinni. En það þarf a.m.k. alltaf að tryggja, að það verði til kjörstjórn. Þess vegna vil ég gera brtt. við 9. gr. til að reyna að leiðrétta það: „Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn. Skal hún skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara, og eru þeir kosnir af sameinuðu Alþingi á sama hátt og landskjörstjórn. Kýs hún sér sjálf formann. Yfirkjörstjórnarmenn skulu allir vera búsettir í hlutaðeigandi kjördæmi.“ Þarna vil ég bæta við: „Deyi kjörstjórnarmaður milli þinga, skipar forsrh. mann í hans stað eftir till. þess þingflokks, sem hann kaus.“ Þá er þar möguleiki fyrir ráðh. til að gera kjörstjórnina starfandi, sem hún annars ekki er. Að vísu varðar þetta ekkert það, að kjörstjórnin er pólitísk o.s.frv., sem hún alls ekki á að vera, en það lagar þó það, að það er til kjörstjórn, þegar kosið er.

Ég nefndi sem dæmi í minni fyrstu ræðu, að t.d. í Norður-Múlasýslu hafa síðan um kosningar dáið fjórir menn, sem áreiðanlega hefðu einhverjir verið í kjörstjórn, hefði hún verið skipuð þannig. Og nákvæmlega eins gæti farið á þeim tíma, sem líður fram að kosningum, þó að við kysum einhverja núna. Það getur dáið bæði aðalmaður og varamaður fyrir einhvern flokk í einhverju kjördæmi og þá er kjörstjórnin ekki til löglega skipuð. Þess vegna er það þó svolítil bót í máli að gefa ráðh. heimild til þess að skipa þá mann eftir tilnefningu þess flokks, sem hefur kosið eða tilnefnt manninn eða mennina, sem hafa forfallazt, annaðhvort með því að deyja eða með því að flytjast úr kjördæminu, því að þá eru þeir orðnir ekki einu sinni kjörgengir. (Gripið fram í.) Flokkurinn? Ég geri nú ekki ráð fyrir, að allir flokksforingjarnir deyi svoleiðis í hvelli, að enginn verði til að benda ráðherra á mann eða menn í stað þess, er horfið hefur úr kjörstjórninni. En þetta er ósköp eðlilegt að setja og sjálfsagt.