13.08.1959
Efri deild: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. lýsti því hér áðan við umr., að hann mundi bera fram 2 skriflegar brtt. við þessa umr., aðra við 7. gr. um, að það skuli vera borgaraleg skylda að taka við kosningu í kjörstjórn. Í 12. gr. frv. á þskj. 20 stendur í 2. mgr.: „Það er borgaraleg skylda að taka við kosningu í kjörstjórn,“ — svo að þetta er þegar í frv. og þarf ekki að ræða um það nánar.

Hann lýsti því einnig yfir, að hann mundi bera fram skrifl. brtt. við 9. gr. frv., eins og hún er á þskj. 34, í sambandi við, hver ætti að skipa varamenn í kjörstjórnir, ef aðalmenn skyldu falla frá. Út úr þessu skaut n. á fundi. Hæstv. dómsmrh. var þar til staðar og við ræddum málið við hann og þá varð að samkomulagi, að stjskrn. flytti skrifl. brtt. við 9. gr. frv., svo hljóðandi:

„Aftan við fyrri mgr. bætist: Nú forfallast landskjörstjórnar- eða yfirkjörstjórnarmaður eða yfirkjörstjórnarmaður flyzt búferlum úr kjördæmi og varamaður er ekki tiltækur og skipar ráðh. menn í þeirra stað eftir till. þess flokks, sem kaus þá á Alþingi.“

Það er m.a. álit skrifstofustjórans, að þetta sé ekki alveg nauðsynlegt með tilliti til þeirrar venju, sem hefur skapazt. En um það skal ég ekki ræða frekar, þar sem samkomulag er um að bera fram þessa tillögu.

Hins vegar vildi n. ekki taka upp ábendingu frá hv. 1. þm. N-M. um að ákveða í frv., hver skyldu vera laun kjörstjórnarmanna. Þó að sett væri inn í frv., að ráðherra skuli ákveða laun þeirra, þá er það ekkert nær því takmarki, sem hann vildi ná, að það verði sett ákveðin, föst laun fyrir starfið. Það yrði þá greitt eftir hans áliti, hvort sem væri. Og það var okkar álit og einnig hæstvirts dómsmrh., að það mundi, eins og lögin munu nú verða, ákveðið af ráðh., hvað greitt yrði fyrir þessi störf. Þyki nauðsynlegt síðar, þegar vitað er, hversu víðtæk þessi störf eru, að ákveða þetta með lögum, ber ríkisstj. væntanlega fram breyt. á lögunum. En nefndin sá ekki ástæðu til þess að bera fram slíka brtt. nú, enda allt of stuttur tími til að fastákveða upphæð fyrir þetta starf. Þyrfti þá áður að leita ýmissa upplýsinga um þetta atriði.

Ég hygg, að hv. 1. þm. N-M. sætti sig við þessa afgreiðslu.

Önnur atriði ræddi n. ekki og mun ég því leggja til, að þessi brtt. við 9. gr., sem ég afhenti forseta, verði samþ. Vænti ég, að allir hv. dm. geti fallizt á þá afgreiðslu málsins.