13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

13. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, samþykkti síðasta Alþ. að fresta samkomudegi reglulegs Alþ., sem samkv. l. á að koma saman ár hvert 15. febr., til 10. okt. n.k. Nú er fyrirsjáanlegt, að þær kosningar, sem fram undan eru, fara sennilega ekki fram fyrr en eftir miðjan október og ber því brýna nauðsyn til, að þessum samkomudegi næsta reglulegs Alþingis verði frestað.

Í þeim lögum, sem venjulega hafa verið afgreidd um frestun á samkomudegi Alþingis, hefur verið sett eitthvert mark, sem setning Alþingis mætti ekki dragast fram yfir, en heimilt, að Alþingi gæti komið saman fyrr, ef svo þætti henta.

Í þessu frv. er lagt til, að reglulegt Alþingi 1959 skuli koma saman föstudaginn 20. nóv., hafi forseti Íslands eigi tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu. Eftir þeirri reynslu, sem fékkst af kosningunum síðustu, sem fram fóru 28. júní s.l., var ekki talið með fyllsta hraða, sem hægt var að hafa á, að Alþingi gæti komið saman fyrr en eftir 20. júlí, eða 21. júlí var það víst, sem Alþingi kom saman nú, og ef þess vegna kosningarnar dragast eitthvað fram eftir októbermánuði, þá er ekki talið öruggt að setja þetta mark fyrr en 20. nóv. Hins vegar útilokar það ekki, að þingið komi saman fyrr, ef það þykir fært af teknískum ástæðum. Og það verður sjálfsagt látið koma saman eins fljótt og mögulegt er, hvað sem þessu úrslitatakmarki eða lokatakmarki fyrir samkomudaginn líður.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að þessu máli verði hraðað í gegnum þingið. Ég sé ekki ástæðu til þess að leggja til, að því verði vísað til n. Málið liggur svo ljóst fyrir, að þessa frestun verður að veita og eftir þá yfirlýsingu mína, að þingið verði kallað fyrr saman, hvað sem þessari tímasetningu líður, ef mögulegt er, þá ætti ekki að þurfa að vera neinn ágreiningur um þetta tímatakmark sjálft.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr.