14.08.1959
Efri deild: 11. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

13. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi var, eins og kunnugt er, samþykkt að fresta samkomudegi reglulegs Alþingis frá 15. febr. til 10. okt. Nú er sýnt, að kosningum þeim, sem fram undan eru, verður ekki hægt að ljúka fyrir þennan dag og þess vegna nauðsynlegt að fresta samkomudeginum enn. Til þess að vera viss um að reka sig ekki á aftur, hefur hér verið gerð till. um 20. nóv. En það þýðir þó ekki, að þingið geti ekki komið saman fyrr, ef það reynist fært og verður að því stefnt, ef mögulegt reynist, að hafa samkomudag næsta reglulegs Alþingis fyrr, ef kostur er, þó að þetta sé sett sem lokatakmark.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., — ég geri ekki till. um n., það fór ekki í n. í Nd. Málið liggur ljóst fyrir.