13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

4. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í þeirri grg., sem fylgir þessu frv. mínu á þskj. 4, er m.a. bent á það, að fyrir skömmu voru sett hér á Alþingi lög um lífeyrissjóð togarasjómanna. Í þeim lögum er tekið fram, að þau réttindi, sem togarasjómenn öðlast þar, skuli í engu rýra rétt þeirra til lífeyris samkv. lögum um almannatryggingar. Togarasjómenn greiða eftir sem áður full iðgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins og njóta þar á sínum tíma óskerts elli- eða örorkulífeyris þrátt fyrir það, þó að þeir fái þá einnig tekjur frá hinum sérstaka lífeyrissjóði. Þegar svo var komið, mátti gera ráð fyrir, að það yrði enginn ágreiningur um það í hæstv. Alþ., að það væri rétt að láta sömu reglur gilda um aðra menn í þjóðfélaginu, sem kaupa sér elli- og örorkutryggingu hjá sérstökum lífeyrissjóðum. Því var það, að á síðasta Alþ. flutti ég ásamt einum af þáv. þm. Alþfl., Benedikt Gröndal. frv. samhljóða þessu, sem hér liggur fyrir. Við gerðum ráð fyrir því, að um þetta gæti ekki orðið ágreiningur, fyrst stigið var á annað borð út á þá braut að undanþiggja að þessu leyti tekjur frá sérstökum lífeyrissjóðum, þannig að þær yrðu ekki þess valdandi, að lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnuninni yrðu skertar, — að þá mundu menn geta á það fallizt, að það væri eðlilegt, að þetta gilti um alla þá, sem kaupa þannig sérstakan lífeyri hjá sérsjóði.

Það fór nú þannig, að þetta mál dagaði uppi á síðasta þingi og því bar ég það fram aftur nú í byrjun þessa þings. Nú hefur meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. mælt með frv. með þeirri breyt., að þar verði ákveðið að fella alveg niður hina svokölluðu skerðingu á elli- og örorkulífeyri. Ég get vel fallizt á þessa breyt. Ég tel, að það sé orðið tímabært að nema burt þetta skerðingarákvæði. Það má segja, að það hafi kannske ekki verið óeðlilegt að setja þetta í almannatryggingalögin upphaflega, þegar þau voru sett og má þó um það deila, hvort hafi verið ástæða til þess. En þó að þeir, sem stóðu að þeirri lagasetningu þá, hafi álitið þetta rétt, þá er viðhorfið óneitanlega annað nú. Nú eru menn búnir að borga full iðgjöld til Tryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um almannatryggingar í milli tíu og tuttugu ár og margir hafa greitt áður til trygginganna samkvæmt eldri lögum um alþýðutryggingar. Þegar svo er komið, að menn eru búnir að greiða svo langan tíma full iðgjöld til stofnunarinnar, er fyllilega tímabært, virðist mér, að afnema þessa skerðingu. Og ýmsar fleiri ástæður koma þar til greina, sem hv. 1. landsk. nefndi í sinni framsöguræðu.

Ég vil einnig taka undir það, sem hann sagði, að ef samkomulag væri milli flokkanna um þetta mál, ætti að vera hægt að fá það afgreitt nú og það ætti alls ekki að þurfa að tefja neitt þingstarfið, ef samkomulag væri um þetta.

Ég vil þakka hv. heilbr.- og félmn. eða meiri hl. hennar fyrir skjóta afgreiðslu á frv. og vænti þess, að það hafi sem greiðastan framgang gegnum þingið.