13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

4. mál, almannatryggingar

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð, sem hv. þm. V-Húnv. sagði hér áðan, sem ollu því, að ég tek nú hér aftur til máls. Hann taldi, að eðlilegt væri að fella niður skerðingu allra þeirra, sem greiddu til sérstakra lífeyrissjóða. En þó gat hann þess jafnframt, að í ákvæðunum um lífeyrissjóð togarasjómanna er sú breyting gerð, að ekki skuli valda skerðingu þær tekjur, sem sjóðfélagar fá frá lífeyrissjóði togarasjómanna. Þá gat hann þess um leið, að enda greiði þeir nú til lífeyrissjóðs Tryggingastofnunar ríkisins. Það er skilsmunurinn og það er sá munur, að ég hygg, að Tryggingastofnun ríkisins hefði ekkert haft á móti því, að þetta væri samþ., ef þetta væri svona um hina sjóðina. En þarna er stór munur á, og munurinn er sá, að þessi sérréttindi, sem styrkþegar eða sjóðfélagar hinna lífeyrissjóðanna hafa, að þurfa ekki að greiða til lífeyrissjóðs Tryggingastofnunarinnar, valda því, að Tryggingastofnunin fær minni tekjur vegna þess, hvað þeim sjóðfélögum fer fjölgandi og tekjurnar leggjast með auknum þunga á hina, sem ekki hafa aðstöðu til að njóta réttinda í þessum lífeyrissjóði, eins og réttilega var tekið fram af hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. Þarna er grundvallarmunur, sem gerir, að ekki var óeðlilegt, a.m.k. frá tryggingasjónarmiði, að svona var litið á þetta mál.