13.08.1959
Neðri deild: 15. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

4. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virtist koma hér misskilningur fram í síðari ræðu hv. þm. Ísaf. Það er vitað, að það er svo um allmarga sérstaka lífeyrissjóði aðra, en lífeyrissjóð togarasjómanna, að þeir sjóðir hafa ekki fengið svonefnda viðurkenningu hjá Tryggingastofnun ríkisins og félagsmenn í þeim sjóðum greiða þess vegna full iðgjöld til Tryggingastofnunarinnar. En þó að frv. mitt yrði samþ., mundi það engu breyta fyrir þá sjóði eða viðkomandi félagsmönnum þeirra sjóða, sem hafa fengið viðurkenningu. Ef þeir hafa einhverju sinni afsalað sér rétti til lífeyris hjá Tryggingastofnuninni, þá breytir þetta frv. engu í því efni. Þeir fá ekki aftur rétt til þess að fá lífeyri frá Tryggingastofnuninni, nema þeir tækju þar upp sérstaka samninga um að greiða iðgjöld fyrir þann tíma, sem liðinn er, sem þeir hafa sloppið undan fullum greiðslum til stofnunarinnar. — Ég vildi aðeins leiðrétta þennan misskilning, sem virtist gæta í ræðu hv. þm.