29.07.1959
Neðri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (16)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skil það vel, að forgöngumenn þessa máls kysu helzt, að það gengi þegjandi og hljóðalaust í gegnum þingið að þessu sinni. Á þessari óskhyggju þeirra er einföld skýring. Hún er sú, að talsmenn hinnar fyrirhuguðu kjördæmabreytingar hefur alltaf brostið og brestur enn frambærileg rök málstað sínum til stuðnings. En hitt þykir mér raunar einkennilegra, að forgöngumenn málsins skuli ekki treysta sér betur, en raun ber vitni um til þess að sitja í þingdeildarsal og hlusta á mál manna, því þó að þeir geti sjálfsagt tekið undir með manninum, sem sagði: Ég er ekki kominn hingað til þess að láta sannfærast, — þá skilst manni þó, að þeir séu nú kosnir á þetta þing til þess að sitja þar.

En hvað sem því líður, þá geta framsóknarmenn vitaskuld ekki látið að óskum kjördæmabyltingarmanna í þessu efni. Þeir hljóta enn sem fyrr að halda uppi vörnum fyrir hin fornu héraðakjördæmi. Þeir hljóta enn sem fyrr að mæla sín varnaðarorð. Þeir hljóta enn að freista þess að fá lagfæringu á þessari fyrirhuguðu stjórnarskrárbreytingu, svo að hún samrýmist betur, en nú er til stofnað, bæði hagsmunum hinna einstöku kjördæma og þjóðarinnar í heild.

Ég mun nú leyfa mér að fara hér við þessa umr. málsins nokkrum orðum um hina fyrirhuguðu stjórnarskrárbreytingu. Því miður verður ekki hjá því komizt, að í því máli mínu gæti nokkurra endurtekninga frá því, sem áður hefur verið sagt um þetta mál, bæði á þessu þingi og eins á hinu fyrra þingi, sem málið hafði til meðferðar. En ég vona þá, að það metist mér til afsökunar, að ég hef ekki átt þess kost að tala um þetta mál hér á þessum stað fyrr og í annan stað hitt, að þetta mál er svo mikilvægt í alla staði, að það verðskuldar vissulega, að það sé rætt ýtarlega og að því sé að öllu leyti gaumur gefinn.

Allir hljóta að játa, að stjórnarskrárbreyting sú, sem hér er um að tefla, felur í sér stórkostlega breytingu á kjördæmaskipun og kosningatilhögun, miklu stórkostlegri og gagngerðari breytingu, en nokkru sinni hefur átt sér stað áður, allt frá því að við fyrst fengum stjórnarskrá árið 1874. Með þessari fyrirhuguðu stjórnlagabreyt. eru öll núverandi kjördæmi utan Reykjavíkur þurrkuð út og í stað þeirra tekin upp tiltölulega fá, en stór kjördæmi. Kosningafyrirkomulaginu er gerbreytt, horfið með öllu frá einfaldri meirihlutakosningu og í stað þess hvarvetna upp teknar hlutfallskosningar. Auk þess er svo þm. fjölgað úr 52 upp í 60.

Um þetta síðastnefnda atriði, þingmannafjölgunina, er út af fyrir sig ekki ágreiningur á milli þingflokka. Framsfl. hefur til málamiðlunar tjáð sig reiðubúinn til að fallast á þá þingmannatölu, sem stjskrfrv. gerir ráð fyrir, enda verði þm. fjölgað með svipuðum hætti og áður hefur átt sér stað, þ.e.a.s. með upptöku nýrra kaupstaðakjördæma og með fjölgun þm. í Reykjavík og á Akureyri. Framsfl. hefur því viljað og vill fallast á þá aukningu á fulltrúatölu kaupstaðakjördæmanna, sem í stjórnarskrárbreytingunni felst, enda verði hinum gömlu héraðakjördæmum þá þyrmt. — Allir eru þannig sammála um að taka tillit til hinna gífurlegu fólksflutninga, sem átt hafa sér stað tvo s.l. áratugi og veita hinum nýju þéttbýlisbyggðum rétt til sérstakra fulltrúa á Alþingi.

Ágreiningurinn er því um tvö og aðeins tvö grundvallaratriði, kjördæmaskipunina og kosningatilhögunina, um það, hvort öll núverandi kjördæmi utan Reykjavíkur skuli niður lögð og hvort innleiða skuli hlutfallskjör um land allt. Það er um þessi efni, sem deilan snýst.

Enginn sæmilega skynugur maður getað neitað því, að hér sé um að ræða gerbreytingu á grundvallaratriðum stjórnskipulagsins. Í rauninni ættu því allir gætnir og greindir menn að geta orðið sammála um það, að til þvílíkra gerbreytinga skuli ekki stofnað á stjskr., nema til þeirra sé knýjandi þörf. Sú siðferðislega skylda hvílir á formælendum þessarar stjórnarskrárbreytingar að leiða gild rök að því, að hin núverandi kjördæmaskipan með hæfilegum leiðréttingum, sem alls enginn ágreiningur er um, sé óviðunandi og þurfi gerbreytingar við. Og í annan stað ættu þeir að réttu lagi að sýna fram á, að líkur séu til, — því að um það atriði verður ekki fengin nein bein sönnun eða óyggjandi vissa, — að líkur séu til þess, að hin nýja kjördæmaskipan og hið nýja kosningafyrirkomulag muni gefast vel í reyndinni. Án þess að slíkt liggi fyrir, er óskynsamlegt að stofna til jafngagngerðrar breytingar á gamalreyndu skipulagi og hér er gert.

Því fer nú að mínum dómi víðs fjarri, að formælendum þessarar stjórnarskrárbreytingar hafi tekizt að færa fram haldgóð rök fyrir þessu tvennu, sem ég minntist á. Þeim eru ekki tiltæk nein frambærileg rök fyrir því að leggja hin gömlu kjördæmi niður. Öll þeirra rök, sem rök mega kallast, lúta að því, að rétta þurfi hlut þéttbýlisins við Faxaflóa, sem þeir telja að hafi búið við skarðan hlut að undanförnu. En um það atriði er bara alls ekki deilt í þessu máli eða þessu sambandi. Um það er alls enginn ágreiningur á milli flokka og enginn ágreiningur á milli þessara flokka þriggja, sem standa að þessari fyrirhuguðu stjórnarskrárbreytingu og nú má ef til vill, fara að kalla stjórnarflokka alla saman,og á milli Framsfl., enda þótt það sé svo annað mál, sem ég mun hér ekki ræða frekar að sinni, að í raun og veru hefur þéttbýlið hér við Faxaflóa ekki yfir neinu að kvarta út af samskiptum sínum við landsbyggðina.

Það eru alls engin rök fram borin fyrir því, að jafna þurfi aðstöðuna innbyrðis á milli þeirra kjördæma, sem ætlunin er að steypa saman, enda ekki kunnugt, eins og reyndar hefur verið rakið hér áður, að úr þeim kjördæmum hafi borizt neinar óskir, hvað þá heldur kröfur um slíka samsteypu og það er ekki heldur kunnugt, að þar hafi nokkrir úfar eða ágreiningur risið með nágrannakjördæmum af þeim ástæðum, að atkvæðafjöldi á bak við þingmenn þeirra hafi verið eitthvað mishár, né heldur að vart hafi orðið neins metings þeirra í milli af þessum ástæðum. Þvert á móti hafa — eins og greint var frá hér af síðasta ræðumanni — úr ýmsum þessara kjördæma eða frá fyrirsvarsmönnum þeirra, svo sem sýslunefndum, borizt ákveðin mótmæli gegn samsteypu kjördæmanna. Það væri auðvitað einnig auðvelt að jafna á milli hinna einstöku kjördæma, ef þess þætti þörf, án þess að leggja þau niður, t.d. með því að úthluta uppbótarþingsætum á annan veg, en nú er gert og til þess hefði ekki einu sinni þurft stjórnarskrárbreytingu.

Formælendur þessa stjskrfrv., sem hér liggur fyrir til umr., hafa ekki sýnt fram á, hvorki við þessa umr. né áður fyrr, að þess sé að vænta, að nýtt og betra stjórnarfar hefjist í þessu landi, eftir að hin gömlu kjördæmi hafa verið að velli lögð. En auðvitað ætti það sjónarmið fyrst og fremst að ráða gerðum manna í þessu máli, en ekki ímyndaðir flokkshagsmunir eða flokkaumhyggja.

Formælendur þessarar stjórnarskrárbreytingar hafa ekki heldur sýnt fram á það, að aðstaða íbúanna í kjördæmunum, sem niður skal leggja, muni batna við breytinguna, að áhrif þeirra á löggjöf og landsstjórn muni fara vaxandi til hagsældar fyrir hinar dreifðu byggðir. Ónei. Sannleikurinn er sá, að við meðferð málsins á þessu þingi hafa formælendur stjskr.-breyt. alls enga tilraun gert til þess að rökstyðja málstað sinn og við meðferð málsins á síðasta þingi fengust þeir helzt ekki til að ræða málið og báru vægast sagt fram heldur fátækleg rök fyrir jafngagngerðum breytingum á grundvallaratriðum stjórnskipunarinnar og hér er um að ræða.

En sé litið yfir málflutning talsmanna kjördæmabyltingarinnar, svo sem hann áður hefur birzt í málgögnum þeirra og á málþingum og hér á hinu háa Alþ., að því litla leyti sem þeir hafa þar reynt að benda á atriði máli sínu til styrktar, virðast mér það einkum hafa verið fimm ástæður, fimm höfuðröksemdir, sem fram hafa verið bornar til stuðnings eða réttlætingar þeirra málstað og þær eru þessar: Í fyrsta lagi eins konar réttlætissjónarmið, að jafna þurfi aðstöðuna á milli kjósenda í hinum einstöku kjördæmum. Í öðru lagi, að nauðsynlegt sé, að kosningafyrirkomulagið sé eitt og hið sama, hvar sem er á landinu. Í þriðja lagi, að einmenningskjördæmin þurfi að hverfa úr sögunni. Í fjórða lagi, að hlutfallskosningar tryggi rétt minni hlutans. Og í fimmta og í síðasta lagi kemur nú rúsínan í pylsuendanum, sem í munni margra sjálfstæðismanna a.m.k. virðist vera höfuðskýringin á aðför þessari að hinum gömlu kjördæmum, sem sé sú, að fyrirhuguð stjskr.-breyt. sé nauðsynlegt eða hæfilegt andsvar við kosningasamvinnu Framsfl. og Alþfl. 1956, að breytingin á kjördæmaskipuninni og kosningatilhöguninni sé hefndarráðstöfun fyrir þá kosningasamvinnu, sem þeir kölluðu venjulega áður Hræðslubandalag, en upp á siðkastið stundum með öðru enn ljótara nafni, sem sé Klækjabandalag.

Ég mun nú síðar í ræðu minni víkja að þessum sýndarröksemdum og hrekja þær lið fyrir lið. En áður en ég kem að því, vil ég fyrst gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna ég tel þessa fyrirhuguðu stjskr.-breyt. stórlega varhugaverða og beinlínis hættulega, bæði fyrir íbúa hinna einstöku kjördæma, sem niður skal leggja og fyrir þjóðfélagið í heild. Ég mun nú ekki hér að sinni víkja neitt að upptöku málsins á síðasta Alþ. né að aðdraganda þess öllum; enda þótt hann væri auðvitað með eindæmum. Ég mun ekki hér heldur, a.m.k. ekki að svo stöddu, ræða það, hversu fráleitt það er að taka hér til meðferðar nú aðeins einn þátt hins svokallaða stjórnarskrármáls, kjördæmamálið, í stað þess að láta fram fara þá heildarendurskoðun stjskr., sem flestar ríkisstjórnir hafa heitið að láta framkvæma, allt frá því að lýðveldið var endurreist 1944, en einlægt hefur verið svikið, enda hafa þessi efni verið rækilega rakin og skýrð hér áður — eða á síðasta Alþ. — af framsóknarmönnum.

Ég mun aðeins ræða efnishlið málsins, og mun ég þá fyrst víkja að sjálfri kjördæmabreytingunni, en síðar að kosningatilhöguninni, en þetta tvennt er algerlega sitt hvað, enda þótt allt of margir rugli þessu saman og tali um þetta í einum graut. Stjórnarskrárbreytingarnar 1934 og 1942 voru t.d. ekki nema að sáralitlu leyti kjördæmabreytingar og ekki nema að því leyti til, að af stjórnarskrárbreytingunni 1942 leiddi upptöku eins nýs kjördæmis, Siglufjarðar. Hins vegar fólu þessar stjórnarskrárbreytingar 1934 og 1942 í sér auk þingmannafjölgunar mjög mikilvægar breytingar á kosningatilhögun.

Eins og ég hef áður sagt og öllum er ljóst, er með kjördæmabreytingunni verið að leggja niður öll núverandi kjördæmi landsins utan Reykjavíkur, þurrka þau gersamlega út. Langflest þessara kjördæma eiga að baki sér langa sögu, því að í meginatriðum hefur kjördæmaskipunin verið óbreytt allt frá því Alþingi var endurreist árið 1845, nema hvað kaupstaðakjördæmi hafa smám saman bætzt við. Kjördæmaskipunin var samkvæmt alþingistilskipun frá 1843 byggð á sýsluskiptingu landsins og á raunar rætur sínar í hinni fornu goðorða- og þingaskipun. Núverandi kjördæmi hvíla því á sögulegum grunni, eru aldagamall arfur og falla með eðlilegum hætti saman við aðra umdæmaskiptingu landsins, enda var umdæmaskipting þessi í öndverðu byggð á landfræðilegum staðháttum, sem engin stjórnlög fá breytt.

Það liggur í augum uppi, að það hlýtur að valda mikilli röskun og margvíslegum óþægindum og ófyrirsjáanlegum óþægindum að hverfa þannig algerlega frá hinni gömlu og fastmótuðu kjördæmaskipan og taka í þess stað upp algerlega ný kjördæmi, sem hvorki styðjast við né falla saman við nokkra aðra umdæmaskiptingu, sem fyrir er í landinu. Hin fyrirhuguðu kjördæmi svífa þannig algerlega í lausu lofti. Þau hafa ekki sérstaklega nein sameiginleg málefni umfram þau málefni, sem sameiginleg eru öllum landsins börnum, sem sameiginleg eru öllum kjördæmum landsins. Svo að ég nefni t.d. dæmi frá því svæði, þar sem ég er kunnugastur, þá get ég t.d. spurt: Hvað er sameiginlegt með Vestur-Húnavatnssýslu og Siglufirði umfram það, sem öllum kjördæmum er sameiginlegt? Og hvað er það þó hjá því, sem er á Austfjörðum eða í Austurlandskjördæmi og í Vestfjarðakjördæmi, þar sem staðhættir gera það að verkum, að byggðirnar eru miklu sundurskildari, heldur en þó á Norðurlandi?

Allt frá 1845 hefur ekkert kjördæmi verið lagt niður. Hins vegar hefur nokkrum nýjum kjördæmum verið bætt við á liðnum áratugum vegna aukinnar byggðar á ákveðnum stöðum, og nokkrum tvímenningskjördæmum hefur verið skipt í einmenningskjördæmi. Þingmönnum höfuðstaðarins hefur og smám saman verið fjölgað, eftir því sem íbúatala hans hefur vaxið. Þá leið á enn að fara að dómi Framsfl., leggja núverandi kjördæmaskipan til grundvallar, en gera á henni eðlilegar lagfæringar í samræmi við breytta byggð og búsetu fólksins. Á hinn bóginn tel ég það hið mesta glapræði að gerbylta í einu vetfangi allri kjördæmaskipan landsins og raska þannig grundvelli stjórnskipulagsins. Það er að mínum dómi fásinna að kasta þannig í fljótræði öllum hinum gömlu kjördæmum fyrir róða. Það þarf þung rök til svo gagngerrar breytingar. Þau gildu rök eru ekki fyrir hendi. Hin gömlu kjördæmi eru helguð af langri reynslu, eiga sér sterk ítök í hugum fólksins og eru studd gildum hagkvæmisrökum.

Mér virðast þessar ástæður, að við höfum lengi búið við þessi kjördæmi og að þau hafa lengst af verið talin sjálfsögð og eðlileg og hefur þó aldrei veríð fullkomið samræmi á milli þeirra þannig, að íbúatala eða kjósendatala þeirra hafi verið hin sama í hlutfalli við þingmenn þeirra, — mér virðast þessar ástæður vera þungar á metum, þegar spurning rís um það, hvort nú eigi allt í einu að varpa þessari kjördæmaskiptingu með öllu fyrir borð. Höfum við nú efni á því, Íslendingar, á þessum umbrota- og upplausnartímum að kasta á glæ gamalreyndri og rótgróinni skipan? Ég segi nei. Kjördæmabyltingarmenn gera að vísu lítið úr hinum sögulegu rökum í þessu máli. En við skulum varast að tala með lítilsvirðingu um söguleg rök.

Hin sögulegu rök hafa löngum reynzt okkur Íslendingum haldgóð. Svo var í sjálfstæðisbaráttunni og svo mun enn reynast í landhelgismálinu, ef þeir menn, sem með þau mál fara, vildu og fengjust til þess að sinna hinum sögulegu rökum þar. Því hefur að vísu verið haldið fram af skillitlum mönnum og óskyggnum á íslenzka sögu, að hin gömlu héraðakjördæmi megi okkur í léttu rúmi liggja, því að ákvörðun um þau sé eiginlega af erlendri rót runnin, þar sem alþingistilskipunin hafi á sínum tíma verið gefin út af dönskum konungi. Að því er jafnvel látið liggja í Bláu bókinni, — þessari hérna, — sem Sjálfstfl. dreifði út fyrir kosningar og hv. frsm. meiri hl. n. drap á og er nú sannarlega blá, bæði að umbúðum og innihaldi, — það er jafnvel látið liggja að því þar, að ákvörðunin um kjördæmi hafi verið andstæð óskum Íslendinga og gagnstæð vilja Jóns Sigurðssonar, hann hafi viljað fylgja annarri stefnu í því efni. Þetta er alrangt og villandi.

Það er að vísu rétt, að alþingistilskipunin var gefin út af Danakonungi, svo sem var um öll lagaboð íslenzk á þeim tíma. En uppkast að þessari tilskipun og þar með ákvörðun kjördæmanna var gerð af hinni einu ráðgefandi samkomu, sem þá var til í landinu, embættismannanefndinni svokölluðu. Embættismannanefndin lagði einmitt til þá kjördæmaskipan, sem lögleidd var, enda höfðu um hana komið fram áður tillögur af hálfu Íslendinga, og danska stjórnin hróflaði ekkert við tillögum nefndarinnar að þessu leyti. Á þessari eðlilegu kjördæmaskipan hefur síðan verið byggt í grundvallaratriðum, og Íslendingar höfðu á þessum árum engan hug á breytingum á kjördæmaskipuninni. Um það er fyrir hendi glöggur vitnisburður frá Þjóðfundinum. Fyrir Þjóðfundinn lagði danska stjórnin, svo sem kunnugt er, frv. til laga um stöðu Íslands í fyrirkomulagi ríkisins og um ríkisþingskosningar, þ.e.a.s. frv. til eins konar stjórnlaga fyrir Ísland. Þetta frv. fór til n. á Þjóðfundinum. Þessi nefnd klofnaði. Meiri hluti hennar, 8 af 9, með Jón Sigurðsson í broddi fylkingar hafnaði frv. stjórnarinnar og bar nýtt frv. fram um stjórnskipun Íslands. En hvað sagði þessi meiri hluti um kjördæmaskipunina, en í frv. stj. hafði verið byggt á sömu kjördæmaskipan og áður, en lagt til, að sum kjördæmanna yrðu gerð að tvímenningskjördæmum? Jú, meiri hluti nefndarinnar sagði þetta, með leyfi hæstv. forseta, og það má lesa í Þjóðfundartíðindum á bls. 529:

„Með því að nefndin álítur það ógerandi að skipta landinu í kjördæmi með hér um bil jöfnum fólksfjölda, þá verðum vér að vera fastir á þeirri skoðun, sem stjórnin hefur fylgt í frv. þessu, að yfirgnæfandi ástæður séu fyrir því að halda hinni gömlu kjördæmaskipan eða lögsagnarumdæmum, eins og þau eru nú.“

Undir þetta nál. skrifar Jón Sigurðsson o.fl. ágætir menn. Hitt er svo allt annað mál, að Jón Sigurðsson vildi fjölmennara þing og vildi, að sum kjördæmanna væru tvímenningskjördæmi. Ég hef ekki getað orðið þess var eða séð það, að Jón Sigurðsson hafi nokkru sinni gert tillögur um breytingar á kjördæmaskipun landsins.

Í stjórnarskrárfrumvörpum þeim, sem flutt voru á öldinni sem leið og allmörg voru, held ég að aldrei hafi verið gerðar neinar tillögur um breytingar á kjördæmaskipun landsins. Það er fyrst í áliti nefndar, sem fékk til meðferðar kosningalagafrv. á Alþ. 1901, að því er hreyft, að gera þurfi slíkar breytingar eða breytingar á kosningatilhögun og það er eftir áskorun eða að frumkvæði þeirrar n., að Hannes Hafstein ráðherra leggur svo síðar fram sitt kosningalagafrv., sem mjög oft hefur verið vitnað til í þessum umr., fyrst 1905 og svo síðar 1907. En á það má nú minna, að þegar Hannes Hafstein lagði fram frv. sitt á Alþ. 1907 og þegar hann fylgdi því úr hlaði, þá sagði hann einmitt þessi orð, með leyfi forseta:

„En flestir hafa þó látið í ljós, bæði í sýslunefndum og á héraðsfundum, að þeir aðhyllist helzt einmenningskjördæmi.“

Þetta má lesa í B–deild Alþingistíðindanna frá 1907, bls. 2.090. Eigi að síður lagði Hannes Hafstein fram þetta frv. En frsm. meiri hl. n., sem fékk þetta frv. Hannesar Hafsteins til meðferðar, Jón Magnússon, segir frá því í sinni framsöguræðu, en hann lagði á móti samþykkt frv., að á rúmum 30 þingmálafundum í 20 kjördæmum hafi verið samþykkt ályktun um málið og þær ályktanir gangi allar á móti málinu nema ein. Þannig var nú stemmingin fyrir þessu máli 1907 og vitaskuld var það í samræmi við þá stemmingu, að þetta frv. Hannesar Hafsteins eða stjórnarinnar á Alþ. 1907 var fellt.

Það fær því vissulega ekki staðizt, þegar þess er gætt, sem ég hef nú rakið, þegar því er haldið fram, að kjördæmaskipunin sé af erlendri rót runnin og að hún hafi verið ákveðin, svo sem gert var, gagnstætt vilja landsmanna sjálfra og að menn hafi verið óánægðir með hana. Þvert á móti er það alveg víst og liggur alveg ljóst fyrir, að þessi umdæmaskipting hefur lengst af þótt sjálfsögð og eðlileg, og hefur þó, eins og ég hef áður drepið á, íbúatala hinna einstöku kjördæma frá öndverðu verið misjöfn. Ég held því fram, að það sé óskynsamlegt að gera jafngagngerar breytingar og hér eru ráðgerðar á svona gamalreyndu, hefðbundnu skipulagi, án þess að fyrir liggi nokkrar óskir þar um frá íbúum hinna einstöku kjördæma. Ég tel ekki réttlætanlegt að gera slíkar breytingar, nema sýnt sé, að meiri hluti kjósenda á hverju fyrirhuguðu kjörsvæði sé samsteypunni meðmæltur, enda hafi það þá verið kannað með tryggilegum hætti, hver viljaafstaða þeirra til málsins er.

Formælendur kjördæmabreytingarinnar hafa reynt að halda því fram, að betra væri að eiga fyrir fulltrúa 5–6 þm. úr stóru kjördæmi en 1–2 úr sýslu eða kaupstað, að betra væri þannig að eiga hlutdeild í 5–6 þm. en eiga sérstaklega fyrir sig 1 eða 2 fulltrúa. Ef þessi rök væru rétt, ættu þau auðvitað að leiða til þess, að landið væri allt gert að einu kjördæmi. Það ætti þá að vera bezt að eiga þannig hlutdeild í 60 þingmönnum. En þetta eru alger falsrök, eins og auðveit er að sanna með einföldum dæmum og oft hefur verið gert í þessum umræðum.

Á framboðsfundum í því kjördæmi, Skagafjarðarsýslu, sem ég var í, nefndi ég það t.d. eða bar fram þá spurningu, hvort t.d. smæstu hrepparnir í Skagafjarðarsýslu mundu telja sér ávinning að því, að farið væri að kjósa sýslunefndina í einu lagi með hlutfallskosningu, í stað þess að þeir kysu sérstakan fulltrúa fyrir sig, eins og nú er. Ég held, að það hafi ekki komið eitt einasta jákvætt svar við þeirri spurningu. Og ég tók enn fremur annað dæmi og það má taka það hér: Mundu Íslendingar telja það til hagræðis fyrir sig á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að Ísland hætti þar að eiga sinn sérstaka fulltrúa, en í stað þess væri t.d. tekið upp sameiginlegt hlutfallskjör á öllum fulltrúunum frá Evrópu? Ég hygg, að Íslendingar mundu sízt af öllu telja sér þá breytingu til hagsbóta.

Sannleikurinn er sá, að við kjördæmabreytinguna hlýtur afstaðan á milli þingmanns og kjósanda nokkuð að breytast. Hin persónulegu tengsl á milli kjósanda og þingmanns hljóta að rofna að talsverðu leyti. Nú eru kjördæmin yfirleitt ekki stærri en svo, að þingmenn, a.m.k. ef þeir eru ekki því skemur, þekkja flesta íbúa kjördæmis persónulega. Þeir verða gerkunnugir högum og þörfum umbjóðenda sinna og verða þess þar af leiðandi betur umkomnir, en ella, að gæta hagsmuna þeirra í hvívetna. Þeir hafa með höndum ýmiss konar þjónustu eða erindisrekstur fyrir fólkið í kjördæmi sínu, sem því er áreiðanlega til mikils hagræðis.

Í hinum fyrirhuguðu stóru kjördæmum verður þingmanni vitaskuld ókleift að kynnast öllum umbjóðendum sínum persónulega. Fundahöldum og ferðalögum um kjördæmi verður miklu síður við komið. Þingmanni verður af eðlilegum ástæðum ókleift að annast ýmiss konar fyrirgreiðslu fyrir kjósendur með sama hætti og tíðkazt hefur. Það má sjálfsagt með nokkrum rétti segja, að slíkt fyrirgreiðslustarf eða þjónusta liggi utan við hið eiginlega þingmannsstarf, en hingað til höfuðstaðarins liggja nú svo margar leiðir og þarf svo margt að sækja, að ég hygg, að hinum einstöku kjördæmum þyki það ekki einskis nýtt að eiga sér hér sérstaka þingmenn til slíkrar fyrirgreiðslu. Í hinum stóru kjördæmum verður fyrst og fremst kosið um flokka, en ekki um menn. Stjórnmálaflokkar eru að vísu nauðsynlegir, en okkur vantar þó ekki flokka. Okkur vantar miklu fremur einstaklinga, sem fólkið ber traust til.

Sannleikurinn er sá, að við kjördæmabreytinguna missa kjósendur í hinum einstöku kjördæmum það aðhald, sem þeir hafa nú að þingmanni. Hann verður þeim óháðari, en verður aftur á móti háðari sínum flokki og það er þetta, sem í mínum huga er höfuðatriði og mælir sterklega gegn hinni fyrirhuguðu breytingu. Ég álít, að kjósendur eigi að hafa aðstöðu til að velja sér menn, en ekki bara flokka, þegar þeir kjósa sér þingfulltrúa. Það er m.a. af þessari ástæðu, sem ég persónulega hef alltaf verið og er fylgjandi einmenningskjördæmafyrirkomulagi. Ég lít svo á, að það sé varhugavert að ýta undir flokkavaldið með þeim hætti, sem þessi fyrirhugaða stjórnarskrárbreyting hlýtur að gera.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar að sinni um sjálfa kjördæmabreytinguna, en ætla þessu næst að víkja að breytingunni á sjálfri kosningatilhöguninni, þ.e.a.s. að því, að hlutfallskjör skuli alls staðar innleitt.

Því skal ekki neitað, að ýmislegt má fram færa hlutfallskosningum til gildis. Í sumum tilfellum verða þær taldar bezt við eiga. Þar sem samtímis á að kjósa marga menn í einu úr sama umdæmi, er hlutfallskosning eðlilegust. En hinu verður heldur ekki neitað, að hlutfallskosningum til Alþingis fylgja stórir annmarkar. Það eru allar líkur til þess, að þær muni leiða til flokkafjölgunar, smáflokkamyndunar, hrossakaupa, vandræða um stjórnarmyndanir, stjórnarkreppu, í stuttu máli til glundroða og upplausnar. Þessar afleiðingar hlutfallskosninga til þjóðþinga má hvarvetna rekja. Það er athyglisvert, að hin elztu þingstjórnarlönd og þau lönd, þar sem lýðræðisstjórnarhættir standa föstustum fótum, hafa aldrei innleitt hjá sér hlutfallskosningar. Svo er í Bretlandi og svo er í Bandaríkjunum og mörgum öðrum enskumælandi löndum. Þar er kosið einfaldri meirihluta kosningu og þar hafa menn þótzt geta fullnægt öllu réttlæti án þess að hverfa til hlutfallskosninga.

Um skeið áttu hlutfallskosningar og þá einkanlega á fyrstu áratugum þessarar aldar, þá áttu hlutfallskosningar allmiklu fylgi að fagna víða um lönd og mörg ríki innleiddu hjá sér hlutfallskosningar þá, en nú eru menn orðnir reynslunni ríkari. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Þegar ég lauk ræðu minni áðan, þá hafði ég gert nokkra grein fyrir, hverjir annmarkar fylgdu hlutfallskosningakerfi samkvæmt dómi reynslunnar, þar sem það er jafnvel svo, að jafnvel stórveldi hafa orðið að hverfa frá lýðræðisstjórnarháttum, af því að stjórnarformið var orðið óstarfhæft vegna sundrungar og upplausnar. Þannig fór t.d. fyrir Þýzkalandi, þ.e.a.s. Weimar—lýðveldinu svonefnda og þannig fór nú síðast fyrir Frakklandi. Hvernig halda menn t.d. að það hafi verið að stjórna í Þýzkalandi árið 1932, þegar flokkar þar í landi voru orðnir milli 20 og 30? Ég held því alls ekki fram, að hlutfallskosningar hafi verið eina ástæðan til þess, hvernig fór í þessum löndum, en hinu held ég fram, að þær hafi átt sinn þátt í því, hvernig fór þar. Og það er í þessu sambandi oft vitnað til Norðurlandanna og hlutfallskosningafyrirkomulagið rökstutt með því, að þar sé þetta kerfi og þar hafi það gefizt vel. En ég held, að þetta byggist á nokkrum misskilningi. Það er að vísu rétt, að hlutfallskosningar tíðkast á Norðurlöndum og hafa tíðkazt þar um skeið, en ég held, að það sé misskilningur, að það hafi gefizt sérstaklega vel í þeim löndum, vegna þess að eftir því sem ég þekki þar til, þá er það svo á Norðurlöndunum öllum, að Noregi máske undanskildum, að í þeim löndum hefur um langt skeið ekki verið hægt að mynda hreinar meirihlutaflokksstjórnir, heldur hafa setið þar að völdum stöðugar samsteypustjórnir og það hefur oft og einatt gengið heldur illa að koma þeim stjórnum saman. Og eins og dæmi mætti mörg nefna um, þá hefur það stundum orðið svo, að stjórnarmyndunarsamningar hafa tekið þar ákaflega langan tíma og stærri flokkar hafa næstum því orðið, ef svo mætti segja, að kaupa smáflokka til samvinnu við sig, til þess að það væri hægt að mynda meirihlutastjórn í þeim löndum, þannig að það er nú síður en svo, að þetta kerfi hafi gefizt svo sérstaklega vel á Norðurlöndunum að þessu leyti til, auk þess sem á það má benda, að flokkar á Norðurlöndum, stjórnmálaflokkar, eru t.d. talsvert fleiri, en hér á landi og það má sjálfsagt rekja til þess, a.m.k. að nokkru leyti, að þetta hlutfallskosningakerfi hefur þar verið í lögum.

Það er þannig síður en svo, að reynsla annarra þjóða af hlutfallskosningum hvetji til þess, að þær séu innleiddar hér í ríkara mæli, en þær eiga sér nú stað.

En þó að reynsla annarra þjóða sé mikils virði í þessu sambandi, þá er það þó auðvitað reynsla okkar sjálfra, sem hér sem endranær er ólygnust, og það er nú svo, að við hér á landi höfum nokkra reynslu af hlutfallskosningum, af því að sannleikurinn er sá, að eftir núgildandi kerfi er í raun og veru svo komið, að meiri hluti þingmanna er kosinn með hlutfallskosningakerfi. Það má segja, að fyrsta verulega skrefið til hlutfallskosninga hafi samt verið stigið hér á landi með upptöku uppbótakerfisins 1934 — og hvernig er reynslan af þeim í okkar stjórnarfari? Hún er á þá lund, að eftir 1934 hefur ekki verið hægt að mynda hreina flokksstjórn hér á þessu landi, heldur höfum við stöðugt orðið að búa við samsteypustjórnir með þeirra göllum.

Og það var enn stigið stórt skref í áttina til hlutfallskosninga hér á landi árið 1942, þegar hlutfallskosningar voru upp teknar í tvímenningskjördæmunum. Hverjar voru afleiðingarnar af því, að því er varðar okkar stjórnarfar? Þær voru þær, að á tveimur árunum næstu þar á eftir reyndist ekki unnt að mynda eiginlega þingræðisstjórn hér á landi, heldur sat þá að völdum utanþingsstjórn, svo sem öllum er kunnugt um.

Með hliðsjón af innlendri og erlendri reynslu, þá held ég þess vegna, að það sé sízt af öllu ástæða til þess að auka hlutfallskosningar fram yfir það, sem nú á sér stað. Verkanir þeirra verða óefað þær sömu hér sem annars staðar. Hlutfallskosningar í stórum kjördæmum munu ýta undir myndun smáflokka, sem munu ganga kaupum og sölum við stjórnarmyndanir og þær munu grafa undan heilbrigðu stjórnarfari.

Af þessum sökum er óhætt að staðhæfa, að allar líkur eru til þess, að stjórnarskrárbreyting sú, sem hér er um að ræða, muni leiða til tjóns fyrir þjóðarheildina.

Sannleikurinn um hina fyrirhuguðu stjórnarskrárbreytingu er auðvitað sá, að með henni er verið að færa valdið til, það er verið að draga valdið úr höndum hinna einstöku kjördæma og í hendur flokkanna. Þetta er að mínum dómi óheilbrigð stefna. Þess vegna álít ég þessa stjórnarskrárbreytingu spor í öfuga átt, er henni algerlega andvígur.

En þó að ég telji fyrirhugaða breytingu á kjördæmaskipun og kosningatilhögun sízt af öllu til bóta, er hitt ekkert launungarmál, að ég tel ýmsa annmarka á núgildandi skipan. Einkanlega hef ég gagnrýnt hið svonefnda uppbótarkerfi og hlutfallskosningar í tvímenningskjördæmum. Ég persónulega hef talið og tel enn, að kosningar í einmenningskjördæmum séu almennt heppilegastar fyrir pólitískt líf í landinu og haldgóða framtíðarstjórn.

Á hinn bóginn eru mér ljósar og ég legg mikið upp úr þeim ástæðum, sem liggja til grundvallar hinu blandaða núgildandi kerfi, þ.e.a.s. þar sem er viljinn til að halda við hinni gömlu kjördæmaskiptingu í aðaldráttum, en rétta jafnframt hlut hinna tiltölulega nýju þéttbýlisbyggða.

Þegar því um er að ræða að velja á milli núgildandi skipunar með hæfilegum lagfæringum og hinar fyrirhuguðu skipunar samkvæmt fyrirliggjandi stjskrfrv., þá er auðvitað í mínum huga enginn vafi á því, hvorn kostinn beri að velja, svo sem ég þegar hef áður tekið fram og af þeim ástæðum, sem þar eru raktar og ég skal ekki endurtaka það.

Herra forseti. Það gæti líklega ekki verið, að það væru flokksfundir? Mér sýnist vera svo einkennilega fáir þingmenn annarra flokka hér. (Forseti: Mér er ekki kunnugt um, að flokksfundir séu núna og fundurinn var boðaður hér áðan, þegar fyrri fundinum lauk, svo að þm. hlýtur að vera kunnugt um það, að fundi sé fram haldið.) Þannig að það er ekki ástæða til að athuga það? (Forseti: Það má gjarnan. Ég skal biðja starfsmenn þingsins að athuga það, hvort þm. séu hér inni, og mælast til þess, að þeir mæti á fundinum.)

Mig langar svo þessu næst að taka til nokkurrar athugunar ástæðurnar fimm, sem ég áður nefndi og kjördæmabyltingarmenn virtust einkum vilja réttlæta stjórnarskrárbreytinguna með. Og þá er það fyrst réttlætissjónarmiðið að breytingin á kjördæmum og kosningatilhögun sé nauðsynleg til að jafna kosningarréttinn.

Ég vil fyrst og fremst í þessu sambandi vekja athygli á því og undirstrika það, að um fjölgun þm. í þéttbýlinu er enginn ágreiningur, eins og nú er komið. En hvernig í ósköpunum er hægt að halda því fram, að það sé eitthvert mannréttindamál eða stórt spor í lýðræðisátt að leggja niður hin gömlu kjördæmi og steypa þeim saman í stærri kjörsvæði, enda þótt um það hafi engar óskir borizt frá fólkinu, sem þar býr? Þvert á móti sýna nýafstaðnar kosningar, að í mjög mörgum hinna gömlu kjördæma er meiri hluti kjósenda samsteypunni gersamlega andvígur. Er þó langt frá því, að raunveruleg viljaafstaða manna til þessa máls hafi getað komið fram með eðlilegum hætti í síðustu kosningum og er alveg vitað, að þar að auki er fjöldi manna í þessum kjördæmum, sem er breytingunni andvígur, fjöldi fólks, sem ekki hefur greitt Framsfl. atkvæði í þessum kosningum, á þessu svæði, sem er kjördæmabreytingunni gersamlega andvígur, enda þótt þeir hafi ekki séð sér fært nú að yfirgefa flokka sína í þessum kosningum, sumpart vegna villandi áróðurs kjördæmabyltingarmanna.

Hvernig má það t.d. vera nokkurt mannréttindamál fyrir Skagfirðinga, Húnvetninga og Siglfirðinga að kjósa í einu lagi með hlutfallskjöri fimm alþingismenn í stað þess, eins og nú er, að Siglfirðingar kjósi einn, Skagfirðingar kjósi tvo, Austur-Húnvetningar einn og Vestur-Húnvetningar einn? Allt tal um það, að verkamenn fái ekki notið sín í núverandi kjördæmum og muni ríkulegar uppskera í hinum stóru, væntanlegu kjördæmum, er alveg út í hött og hrein fjarstæða.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) talaði um verkalýðsflokkana, Alþb. og Alþfl. Hvernig er það nú? Verða þeir flokkar sterkari á þingi eftir breytinguna, en þeir eru nú? Blaðið Þjóðviljinn hefur reiknað það út, hver mundi verða þingmannatala flokkanna í næstu kosningum, miðað við það, að þeir hlytu sömu atkvæðatölur og í nýafstöðnum kosningum. Og hver er niðurstaðan? Hún er sú, að Alþb. fær 9 þm., Alþfl. fær 7 þm. Hvort er nú meira 8 af 52 eða 9 af 60, og hvort er nú stærra 6 af 52 eða 7 af 60? Ég hygg, að flest skólabörn geti leyst úr því. Það liggur þannig ljóst fyrir samkvæmt útreikningum Þjóðviljans sjálfs, að verkalýðsflokkarnir, sem svo eru kallaðir, munu hafa minna hlutfallslegt þingfylgi eftir stjórnlagabreytinguna en fyrir. Hins vegar stinga þeir steiktum gæsum enn í munn íhaldsins, alveg eins og þeir gerðu árið 1942. Ja, þetta eru nú stjórnmálaforingjar verkalýðsflokka, sem kunna vel til verka og hafa vit í kollinum á réttum stað, sem stofna til svona stjórnarskrárbreytingar, — ég verð að segja það — og stofna til svona mannréttindamála.

Það er vissulega hart fyrir fólkið í landinu, sem hefur viljað vinstra samstarf og studdi vinstri stjórnina af einlægni, að þurfa að horfa upp á, að stjórnarsamstarfi því skuli ljúka með þvílíkum ósköpum. En ég er hræddur um, að þeim háu herrum, forustumönnum verkalýðsflokkanna svonefndu, gangi illa að koma óbreyttum liðsmönnum sínum úti um land í skilning um, að í nafni mannréttinda og lýðræðis hafi verið nauðsynlegt að færa slíka fórn á altari íhaldsins. Og eins og margoft hefur verið sýnt fram á, hafa allir flokkar jafna aðstöðu í núverandi kjördæmum, hvort sem fjölmenn eru eða fámenn, jafna möguleika til þess að vinna sér þar fylgi. Ég efast einnig um, að þegar kaupstaðirnir eru fráskildir, þá sé meiri munur upp og ofan á kjósendatölu í hinum einstöku kjördæmum heldur, en hefur verið frá fyrstu tíð og ég get aðeins hér til rökstuðnings mínu máli að þessu leyti, að þetta sé ekkert mannréttindamál, vísað og vitnað til ummæla, sem áður hafa komið hér fram á þingi, með leyfi hæstv. forseta. Jón Þorláksson heitinn sagði hér árið 1931 á þessa leið:

„Í ummælum hv. flm., Héðins Valdimarssonar, fólst, að honum finnst líka þurfa sérstaklega að bæta úr því, ef einhver víðáttumikil kjördæmi eru svo fámenn, að kjósendatala þar verði langt fyrir neðan meðaltal þeirrar kjósendatölu, er kemur á hvern þingmann. En ég get ekki fylgt honum í því. Landshagir eru svo víða hér á landi, að sum kjördæmi hljóta að verða miklu fjölmennari en önnur og mér finnst mannfleiri kjördæmin ekki hafa yfir neinu að kvarta. Það er sanngjarnt, að hver staður líti til þess, að hans hagur sé ekki stórlega fyrir borð borinn. Ég álít rétt að tryggja það, að fámennari, fjarlægari og afskekktari landshlutar séu ekki sviptir réttinum til að senda sína sérstöku fulltrúa á Alþingi, því að þeir þurfa að eiga þar hver sinn fulltrúa til að tala máli sínu sérstaklega.“

Þetta sagði Jón Þorláksson á sínum tíma og er það viturlega mælt, svo sem von var til. Þetta læt ég svo nægja um röksemd númer eitt og ætla, að það sýni, hversu haldlítil hún er.

Þá er það önnur ástæðan, að það sé nauðsynlegt, að kosningafyrirkomulagið sé eitt og hið sama, hvar sem er á landinu. Þessi virðist vera höfuðröksemd hv. 1. þm. Reykv. (BBen). Hann segir orðrétt í Bláu bókinni á bls. 10, með leyfi forseta:

„Frá mínu sjónarmiði hefur það ætíð verið höfuðatriðið í kjördæmamálinu og lausn þess oltið á því, að sams konar reglur giltu hvarvetna á landinu, í Reykjavík sem annars staðar.

Endalaust verður deilt um, hvort heppilegra sé að hafa hlutfallskosningar eða einmenningskjördæmi. En sama háttinn verður að hafa alls staðar. Annað skapar óþolandi ranglæti.“

Svo mörg eru þau orð. Sem sagt, það skiptir ekki máli, hvor aðferðin er, bara að það sé sama aðferðin alls staðar. Ég verð nú að segja, að mér þykir þetta nokkuð nýstárleg kenning, og hún minnir mann eitthvað óþægilega á víssar kenningar Jesúíta.

En hvað hinu blandaða kerfi viðvíkur, þá höfum við Íslendingar búið við það æði lengi, eða að ég ætla allar götur a.m.k. frá 1916, þegar innleitt var fyrst landskjör með hlutfallskosningu, sem var svo aukið með hlutfallskosningunum í Reykjavík frá 1920, með upptöku uppbótarkerfisins 1934 og hlutfallskosningu í tvímenningskjördæmum 1942. Ekki voru það framsóknarmenn, sem voru höfundar að þessu blandaða kerfi. Það voru Sjálfstfl. og Alþfl., sem stóðu að breytingum á kosningatilhöguninni 1934 og 1942 og þá þótti ekkert athugavert við þetta blandaða kerfl. Hvernig má það nú vera, að það, sem þá var gott og gilt og réttarbót, sé allt í einu nú orðið ómögulegt?

Reynslan af uppbótarþingmönnum er að vísu ekki góð, það skal ég játa. En það er nú bara svona, að eftir alla þessa réttarbót, sem nú á að eiga sér stað og eftir þetta samkynja kerfi, sem á að vera, þá þurfa uppbótarmennirnir bara eftir allt saman að vera áfram. Þeir eiga ekki að hverfa. Og ég veit nú ekki betur, en ýmsar þjóðir búi enn við svokallað blandað kosningakerfi í einni eða annarri mynd og að þær uni því sæmilega og það reynist þeim allvel.

Ég held því, að þessi röksemd verði harla léttvæg fundin. Ég held, að það sé út af fyrir sig æskilegt, að kosningakerfið sé alls staðar hið sama, en ég álít, að það sé engin óhjákvæmileg nauðsyn.

Þá er komið að þriðju röksemdinni og um hana skal ég vera fáorður. Hún er á þá lund, að einmenningskjördæmi þurfi að hverfa, þau séu skaðleg í okkar stjórnarfari. Það er sagt, að kosningar þar séu svo harðar og ekki mannsæmandi, þar sé beitt óleyfilegum aðferðum o.s.frv.

En ég sagði, að ég ætlaði ekki að tala langt mál um þessa ástæðu. Það ætla ég heldur ekki að gera, heldur ætla ég að leiða þar annan mann sem vitni. Ég ætla að leiða þar sem vitni um það, hvort einmenningskjördæmi séu heppileg eða óheppileg, sjálfan 1. þm. Reykv., Bjarna Benediktsson, en eftir því sem Morgunblaðinu segist frá 24. jan. 1953, þá sagði hann á þessa lund:

„Þvert á móti mundi skipting Reykjavíkur í t.d. sextán eða sautján kjördæmi hafa í för með sér miklu nánara samband þingmanns og kjósenda, en verið hefur. Þingmaður mundi miklu betur en nú, vita hvað kjósendum hans liði og eiga þess kost að greiða fyrir mörgum áhugamálum þeirra og veita einstaklingunum sams konar fyrirgreiðslu og þingmenn utan af landi verða að veita sínum kjósendum. Þetta yrði aukin vinna og umstang fyrir þingmennina,

en ég þori að fullyrða að ,að því yrði mikill ávinningur fyrir kjósendur.“

Þarna hefur Bjarni Benediktsson alveg réttilega gert grein fyrir þeim kostum, sem fylgja einmenningskjördæmaskipulagi og þó ekki nema að nokkru leyti, því að aðalatriðið a.m.k. í mínum huga er það, að með einmenningskjördæmaskipulagi er betur tryggt, eins og ég sagði áðan, að hér í landinu verði haldgóð stjórn og það er það, sem mestu skiptir. Í annan stað eru þessar ástæður, sem fram eru færðar, að kosningar í einmenningskjördæmum séu harðari, en annars staðar, algerlega rangar, því að öllum er kunnugt um það, sem nokkuð þekkja til, að hvergi á landinu eru kosningar harðari, en einmitt hér í Reykjavík. Og í annan stað verður það að segjast, að þessar sífelldu dylgjur, að það sé hægt að kaupa upp fólkið í þessum fámennu kjördæmum, eru vægast sagt óviðeigandi, því að sem betur fer, þá erum við Íslendingar yfirleitt það þroskaðir og það gott fólk, að það er ekki hægt að koma við því, sem kallað er mútur eða uppkaup.

Og þá kem ég að fjórðu ástæðunni, að hlutfallskosningar tryggi rétt minni hlutans. Þetta er alröng kenning. Hlutfallskosningar þurfa alls ekki að tryggja rétt minni hlutans og þurfa alls ekki að tryggja það, að meiri hluti fulltrúa hafi meiri hluta á bak við sig hjá kjósendum. Það má t.d. benda á bæjarstjórn hér í Reykjavík, þar sem meiri hluti bæjarfulltrúa hefur verið hjá Sjálfstfl. um langa hríð, en án þess þó að hann hefði hreinan meiri hluta kjósenda á bak við sig og slík dæmi mætti nefna frá ýmsum öðrum bæjarstjórnum. Og þegar hlutfallskosningarnar sýna þannig mynd, þá verður mönnum að spyrja, hvar sé þá það öryggi, sem hlutfallskosningar tryggðu minni hl., þær sem sé stuðluðu miklu fremur að því eða leiddu til dreifingar atkvæða milli flokka og í skjóli þess gat svo stærsti flokkurinn fengið hreinan meiri hluta í bæjarstjórn, enda þótt sá flokkur hefði engan veginn meiri hluta bæjarbúa á bak við sig.

Að hinu sama er að sjálfsögðu stefnt nú með þessu stjórnarskrárfrv., sem hér liggur fyrir. Sjálfstfl. hugsar sér að fá meiri hluta á Alþingi, enda þótt hann hafi ekki meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig.

En svo langar mig aðeins til þess að benda á einkennilegt réttlæti í sambandi við hlutfallskosningar eða sem hlutfallskosningar leiða til og tek þá það kjördæmi sem dæmi, sem ég sit hér fyrir, þ.e. Skagafjarðarsýslu. Þar stendur svo á, að ég hef verið kosinn þar með meiri hluta atkvæða, hreinum meiri hluta og ég mun greiða atkvæði gegn þessari stjórnarskrárbreytingu. En samþingismaður minn, Gunnar Gíslason, er kjörinn með miklum minni hluta. Hann mun væntanlega greiða atkvæði með þessari breytingu. Þ.e.a.s.: minni hlutanum í Skagafjarðarsýslu er með þessu veittur réttur til þess að gera vilja meiri hl. algerlega óvirkan, þannig að meiri hlutinn ræður þar alls ekki meiru, en minni hl. Þetta er nú dálítið einkennileg mynd af lýðræði, vægast sagt, því að maður hefði þó haldið, að það væri yfirleitt reglan í lýðræðisskipulagi, að meiri hlutinn ætti að ráða. En til svona réttlætis geta hlutfallskosningar leitt.

Og þá er loks komið að fimmtu og síðustu ástæðunni, sem kjördæmabyltingarmenn bera fram til réttlætingar sínum málstað, þ.e.a.s., að stjórnarskrárbreytingin nú sé hefndarráðstöfun vegna kosningasamvinnu Alþfl. og Framsfl. 1956.

Þessi ástæða er náttúrlega fyrst og fremst hlægileg fjarstæða, því að hver er höfundur að eða á fyrstu hugmyndina að þessari stjórnarskrárbreytingu nema Alþfl., sem var annar aðili kosningasamvinnunnar 1956 og sérstaklega hafði vakið athygli á þessari samvinnuleið með kosningabandalagsfrv. sínu árið 1953? Hvernig á nú kosningasamvinnan 1956 að vera orsök eða réttlætingarástæða fyrir því, að Alþfl. beiti sér nú fyrir þessari stjórnarskrárbreytingu? Hvernig á að vera um að ræða hefndarráðstöfun af hálfu Alþfl. gagnvart sjálfum sér?

En hvað þá um Sjálfstfl.? Er ástæða til fyrir hann að tala um hefndarráðstöfun í sambandi við kosningasamvinnuna 1956? Hafði Sjálfstfl. ástæðu til að hneykslast á kosningasamvinnunni 1956? Nei, ég held nú síður, af því að það var einmitt Sjálfstfl., sem fyrstur gaf fordæmi að slíkri kosningasamvinnu sem átti sér stað 1956 og það gerði hann í öðrum kosningum, sem fram fóru eftir að uppbótarkerfið var lögleitt að hans frumkvæði árið 1934. Það muna vissulega enn þá margir eftir Breiðfylkingu allra sannra Íslendinga, en svo nefndist kosningabandalag Sjálfstfl. og Bændaflokksins í kosningunum 1937. Sú kosningasamvinna, sem þá átti sér stað á milli Sjálfstfl. og Bændaflokksins, var í eðli sínu að engu leyti frábrugðin kosningasamvinnu Alþfl. og Framsfl. 1956. Um Breiðfylkinguna sagði Morgunblaðið orðrétt 20. maí 1937, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og kunnugt er, hafa Sjálfstfl. og Bændaflokkurinn samvinnu í ýmsum kjördæmum. Þannig bjóða þeir fram sinn manninn hvor í þremur tvímenningskjördæmum, Árnes-, Eyjafjarðar- og Norður–Múlasýslum. Þá hefur Sjálfstfl. engan í kjöri í fjórum einmenningskjördæmum, Dala-, Stranda-, Vestur-Húnavatns og Austur-Skaftafellssýslu og munu kjósendur flokksins í þessum kjördæmum styðja frambjóðendur Bændaflokksins. Á sama hátt munu kjósendur Bændaflokksins í ýmsum kjördæmum styðja frambjóðendur Sjálfstfl. eða þar sem bændaflokkurinn hefur ekki sjálfur frambjóðendur.“

Samvinna þessara flokka var þá meira að segja svo náin, að í tvímenningskjördæmunum voru meira að segja framboð frambjóðendanna, annars frá Bændaflokknum og hins frá Sjálfstfl., ákveðin á sameiginlegum fundi.

Ef það væri rétt hjá sjálfstæðismönnum, að með kosningasamvinnu sinni 1956 hefðu Alþýðuflokksmenn og framsóknarmenn liðað í sundur núgildandi kosningakerfi, þá höfðu sjálfstæðismenn vissulega byrjað á því að brjóta það niður með Breiðfylkingunni 1937 og gáfu þá fordæmið og það er þó til gamall málsháttur, sem segir: Sá veldur miklu, sem upphafinu veldur. Og þá, 1937, voru þeir þó í þessu efni vissulega, ef þessi skoðun þeirra er rétt, að éta sitt eigið afkvæmi, því að þeir áttu hugmyndina að uppbótarkerfinu. Og hugmyndin með kosningasamvinnunni 1937 hjá Sjálfstfl. og Bændaflokknum var vitaskuld sú að ná þingmeirihluta, og þá var ekkert skilyrði, að það væri meiri hl. kjósenda á bak við þann þingmeirihluta. Sjálfstæðismenn láta svo nú sem það hafi verið hin mesta goðgá af framsóknarmönnum og Alþýðuflokksmönnum að ætla sér að fá þingmeirihluta 1956 án þess að hafa meiri hl. kjósenda á bak við sig. En það var ekki lengra liðið, en frá árinu 1953, þegar Morgunblaðið birti það æ ofan í æ og ítrekaði það hvað eftir annað, að Sjálfstfl. vantaði aðeins 344 kjósendur í 6 kjördæmum, að mig minnir, til þess að fá hreinan meiri hl. á Alþ. Þá var ekkert skilyrði, að meiri hl. kjósenda væri á bak við þingmeirihlutann.

Ég gat þess áðan, að sjálfstæðismenn hefðu upp á síðkastið valið þessari kosningasamvinnu 1956 heldur óskemmtilegt og óveglegt heiti, þeir hefðu kallað það Klækjabandalag. Og þm. Alþfl. hafa þá verið kallaðir klækjaþingmenn, uppbótarmennirnir. Sjálfstæðismenn greiddu atkv. gegn því, að kosning þessara þm. Alþfl. væri tekin gild, þeir vildu láta þá vera utanþings. En hvað gerðu sjálfstæðismenn seinna? Þeir hófu tvo af þessum klækjaþingmönnum, sem þeir kalla svo, upp í ráðherrastóla og þeir notuðust við það að láta þessa 4 þm. Alþfl., sem þeir vildu halda utan við, samþ. með sér þessa stjórnarskrárbreytingu, sem hér er um að ræða, því að þegar Alþfl. var farinn að vinna með íhaldinu, þá var allt í lagi með umboðið fyrir Alþýðuflokksþingmennina. Þá stóðu engir klækir því í vegi, að við þá mætti notast. Það má segja, að Alþýðuflokksþingmennirnir hafi hér fengið mikla uppreisn. En jafnframt verður að benda á það, að í þessu endurspeglast sá hugsunarháttur, sem einkennir, hefur alltaf einkennt og mun alltaf einkenna íhald allra alda, sá hugsunarháttur, að þó að mér leyfist þetta, þá á ekki öðrum að leyfast það. Það er hugsunarháttur íhaldsins. — Nei, sannleikurinn er sá, að sjálfstæðismenn ættu vissulega eftir allt þetta að blygðast sín fyrir að tala um klæki í sambandi við þetta bandalag og blygðast sín fyrir að tala um klækjaþingmenn í því sambandi.

Sjálfstfl. getur vissulega ekki réttlætt aðför sína nú að héraðakjördæmunum með kosningasamvinnu Framsfl. og Alþfl. 1956. Sannleikurinn er auðvitað líka sá, að kosningasamvinna Framsfl. og Alþfl. var í alla staði lögleg. Hvorki í stjskr. né kosningalögum voru nein ákvæði slíkri kosningasamvinnu til fyrirstöðu. Fordæmi voru einnig fyrir henni, svo sem áður er sagt, og hún var úrskurðuð lögmæt af meiri hl. landskjörstjórnar, sem vissulega var skipaður lagamönnum, sem létu lög og réttvísi ráða gerðum sínum, en ekki flokkssjónarmið. Sjálfstæðismenn höfðu líka vissulega lýst því yfir áður, að slík kosningasamvinna væri lögleg. Komu þær yfirlýsingar fram frá talsmönnum flokksins í umr. um kosningabandalagsfrumvarp Alþfl. á Alþ. 1953 og vildi ég — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að vitna í ummæli þau, sem Jón Pálmason, þáv. þm. A-Húnv., lét falla, en þau ummæli eru birt í C-deild Alþingistíðinda 1953, í dálki 397, en þá sagði Jón Pálmason á þessa lund:

„Hitt er eðlilega ekkert við að athuga, þó að bandalagsreglan, sem hér hefur oft gilt, sé áfram. Það er ekkert því til fyrirstöðu samkv. núgildandi kosningalögum og okkar stjórnarskrá, að einn flokkur bjóði ekki fram á móti öðrum, eins og átti sér stað á Ísafirði og í Vestur-Skaftafellssýslu og það bandalag er í alla staði löglegt og getur staðizt.“

Ég vildi í annan stað leyfa mér að vitna til annars talsmanns Sjálfstfl. við þær umr., hv. 2 þm. Eyf., Magnúsar Jónssonar, með leyfi forseta, en hans ummæli er að finna á bls. 405 í C-deild þingtíðinda frá 1953. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það hefur verið á það bent hér og tekið fram, t.d. af hv. þm. A-Húnv., að það væri auðvitað eðlilegt og ekkert við því að segja, að flokkar hefðu með sér bandalög við kosningar, ef þeir ganga hreint til verks og velja ákveðinn frambjóðanda hver í sínu kjördæmi. Þeir geta skipzt á um það, einn flokkurinn hefur frambjóðandann í þessu kjördæmi og annar í hinu. Það væri eðlilegur máti til þess að fá fólkið til að fylkja sér um ákveðinn frambjóðanda.“

Kosningasamvinnan 1956 var þess vegna í alla staði lögmæt. Um það þarf ekki að fjölyrða. Og sannleikurinn er sá, að þessi kosningasamvinna var heiðarleg að því leyti til, að flokkarnir höfðu lýst þessari samvinnu sinni fyrir kosningar, kjósendur vissu því alveg, að hverju þeir gengu. En oft er það svo og einmitt nú kannske í þeim kosningum, sem eru fram undan í haust, að kjósendur vita alls ekki og hafa ekki hugmynd um, hvert stjórnarsamstarf þeir eru að kjósa.

Þetta var nú um Sjálfstfl. og hans afstöðu til þessarar réttlætingarástæðu. En hvað þá um Alþb.? Hefur það ekki ástæðu til að hneykslast á kosningasamvinnunni og réttlæta afstöðu sína til kjördæmabreytingarinnar með tilvísun til hennar. Hv. 3. þm. Reykv. hefur nýlega ritað grein í blað sitt, Þjóðviljann, um nauðsyn á aukinni samvinnu og samstöðu verkalýðsflokkanna. Þessi grein var nefnd hér af síðasta ræðumanni. Ég ætla ekki að gera þá grein hér að umræðuefni, þó að hún sé fyrir margra hluta sakir allrar athygli verð, en með leyfi forseta, þá langar mig til að lesa upp fáein orð úr nefndri grein hv. 3. þm. Reykv. í Þjóðviljanum 24. þ. m. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Eða á nú að stinga við fótum, taka höndum saman og hefja sókn til þess að gera verkalýðshreyfinguna leiðandi afl í stjórnmálum Íslands með skipulögðu kosningasamstarfi, Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins?“

Ég endurtek: „með skipulögðu kosningasamstarfi Alþýðubandalagsins og Alþýðuflokksins“ Vill nú ekki hv. 3. þm. Reykv. skýra það, við hvað hann á með skipulögðu kosningasamstarfi? Skyldi það ekki vera kosningasamstarf með svipuðu sniði og í svipuðu skyni og kosningasamvinnan á milli Framsfl. og Alþfl.?

Ég hef hér sýnt fram á, að ástæður þær, sem kjördæmabyltingarmenn virðast einkum hafa bent á til réttlætingar niðurlagningu héraðakjördæmanna og til breytingar á kosningatilhöguninni, eru hreinar tylliástæður, sem ekkert hald er í.

Ég ætla svo ekki að fara að ræða það hér, hverjar ástæður liggi sérstaklega til grundvallar því ofurkappi, sem lagt er nú á það að hrinda þessu máli fram. Það hefur verið gert áður í þessum umræðum og verður sjálfsagt vikið að því síðar og ég ætla ekki að lengja mitt mál með því að minnast á þær.

Þessar kosningar, sem fram fóru s.l. vor, áttu að sjálfsögðu að snúast um stjórnarskrármálið samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar, vegna þess að það er ljóst, að það er tilgangur stjórnarskrárinnar. Það sjónarmið var túlkað af Framsfl. og frambjóðendum framsóknarmanna. Þeir héldu því fram, að þessar kosningar ættu að snúast um stjórnarskrárbreytinguna og um stjórnarskrárbreytinguna eina.

Bókstaf stjórnarskrárinnar hefur vissulega verið fullnægt með því að láta þessar kosningar fara fram. En reynslan er nú sú, að kosningar, sem farið hafa fram í tilefni af stjórnarskrárbreytingu, hafa hér á landi aldrei fullkomlega snúizt um þá stjórnarskrárbreytingu, sem um var að ræða, heldur hefur afstaða manna mótazt í þeim kosningum með tilliti til afstöðu þeirra til flokka. Aðferðin að bera stjórnarskrárbreytingu undir kjósendur með svona óbeinum hætti í sambandi við kosningar, er því út af fyrir sig óheppileg og hefur aldrei gefið þá raun, sem til var ætlazt. En í þessum kosningum eru alveg sérstakar ástæður, sem gera það að verkum, að sú mynd, sem kosningarnar sýna í þessu efni, er algerlega villandi. Því var sem sé haldið fram, eins og þegar hefur verið rakið og einkum af hv. frsm. minni hluta nefndarinnar, í blöðum og af ýmsum talsmönnum stjórnarskrárbreytingarinnar fyrir þessar kosningar, að kosningarnar snerust alls ekki um stjórnarskrárbreytinguna, heldur um allt annað, eins og hann nefndi mörg dæmi um og las m.a. sínu máli til stuðnings upp úr blöðum kjördæmabyltingarflokkanna og ég veit það frá mínu kjördæmi eða mínum framboðsfundum. Ég verð að vísu að segja það, að minn hv. samþingismaður var svo heiðarlegur að viðurkenna, að kosningar þessar ættu fyrst og fremst að snúast um stjórnarskrárbreytinguna, en því var ekki til að dreifa um aðra frambjóðendur. T.d. hélt frambjóðandi Alþb. því fram, að þessar kosningar í vor væru bara forleikur, eins konar undanrás að kosningunum í haust, þær ættu alls ekki að snúast um stjórnarskrárbreytinguna, þær gætu eðli sínu samkvæmt alls ekki snúizt um stjórnarskrárbreytinguna, það væri ekki hægt að kanna hug fólksins til stjórnarskrárbreytingarinnar nema með þjóðaratkvgr. Það er þess vegna alveg víst og það veit hver maður, sem þessum málum er nokkuð kunnugur, að vilji fólksins víðs vegar um landið til þessarar fyrirhuguðu stjórnarskrárbreytingar kom alls ekki fram í þessum kosningum.

Skírskotun meiri hluta stjórnarskrárnefndar til vilja kjósenda, sem fram hafi komið í kosningunum, er þess vegna algerlega villandi að mínum dómi. Ég verð þess vegna að álita, að það sé mjög skynsamlegt að láta fara fram þjóðaratkvæði sérstaklega um málið og fá þannig alveg skýrt og á þann hátt, að ekki verði um það villzt, hver sé vilji kjósenda í þeim kjördæmum, sem niður skal leggja eða saman á að steypa, til þessarar fyrirhuguðu kjördæmabreytingar. En ég verð að telja það ákaflega lítið lýðræði að vilja steypa þessum kjördæmum saman eða leggja þau niður þvert ofan í vilja þeirra manna, sem búa í þessum kjördæmum og það liggur í augum uppi, að ef kjördæmabyltingarmenn tryðu á sinn málstað, tryðu því, að þeir hefðu meirihlutafylgi við þessa breytingu í þessum kjördæmum, sem aðförin er nú gerð að, þá mundu þeir taka tillögu minni hl. nefndarinnar fegins hendi og kanna vilja kjósenda með þeim hætti, sem þar er ráð fyrir gert. En ég fyrir mitt leyti er hins vegar alveg sannfærður um það, að þetta þora þeir ekki að gera.

Ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um það, að þeir fella þessa tillögu og það er af þeirri einföldu ástæðu, að þeir þora ekki að láta viljann í þessum kjördæmum, sem niður skal leggja, koma hreint og greinilega fram, en ég verð, eins og ég sagði áðan, að telja það ákaflega einkennilegt lýðræði að fara að leggja þessi kjördæmi niður eða steypa þeim saman án þess að spyrja fólkið í þeim hreinlega að því, hver sé vilji þess í þessu efni. Það hefur að mínu viti ekki verið gert greinilega í þessum kosningum, en þó er það samt svo, að í fjölmörgum þeim kjördæmum, sem þannig á að fara með, er eftir kosningaúrslitunum í þessum síðustu kosningum algerlega hreinn meiri hluti andvígur samsteypunni.