14.08.1959
Efri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

4. mál, almannatryggingar

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég vil einungis taka það fram í sambandi við þetta mál, að ég og mínir flokksmenn erum að sjálfsögðu sammála því, að fella beri niður skerðingarreglur almannatryggingalaganna, og ég geri ráð fyrir, að allir hv. þm. séu á þeirri skoðun. En það er rétt að benda á það hér í leiðinni, að þessar reglur eiga að falla úr gildi samkvæmt ákvæðum laganna sjálfra í árslok 1960, þ.e.a.s. þær eiga eftir að gilda í eitt ár enn þá, ef ekki verður gerð breyting á því.

En afstaða mín til málsins á síðasta fundi um það, hvort málið skyldi tekið á dagskrá, markaðist einungis af því, að ég tel algerlega óforsvaranlegt, að mál slíkt sem þetta sé afgreitt á þinginu í flaustri, án þess að það fái þinglega meðferð. Sérstaklega tel ég alveg óhjákvæmilegt, að málið fái meðferð í n., að n. sú, sem málið fær til meðferðar, hafi samráð við Tryggingastofnun ríkisins. sem hefur veg og vanda af framkvæmd þessara mála og það er óforsvaranlegt með öllu, að ganga fram hjá þeirri stofnun, þegar jafnmikilvægu máli og þessu er breytt. Það mun skipta háum fjárhæðum, mörgum milljónum, e.t.v. tugum milljóna, sem þetta kostar. Hv. 5. landsk., sem beindi orðum sínum til mín fyrir skömmu, virtist ekki hafa hugmynd um, hvað þetta kostaði mikið fé. Hann gerði ekki heldur grein fyrir því, hvort n. sú, sem um málið fjallaði í hv. Nd., hefði haft um málið samráð við Tryggingastofnun ríkisins og hvort fé væri fyrir hendi til þess að mæta þeim þörfum, sem skapast, ef þessu verður nú breytt, — og ef fé er ekki fyrir hendi, þá hvort séð hefði verið fyrir því að afla þess.

Eins og málið stendur nú, þykir mér sýnt, að það sé vonlaust, að hægt sé með nokkrum hætti að breyta því á þessu þingi, sem nú er að ljúka. Hins vegar er eðlilegt og sjálfsagt, að þetta mál verði tekið fyrir á næsta þingi, sem verður ekki ýkja langt að bíða og er þess að vænta, að það fái þar betri undirbúning, þannig að hægt verði að fella þessar leiðu skerðingarreglur niður, sem því miður eru búnar að vara allt of lengi.