14.08.1959
Efri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

4. mál, almannatryggingar

Dómsmrh. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hv. 5. landsk. þm. (FBV) fór um það allhörðum orðum, að ég virtist ekki hafa hugmynd um, hvað það kostaði mikið fyrir Tryggingastofnun ríkisins, ef þau ákvæði, sem frv. það, sem hér er á dagskrá, felur í sér, yrðu samþ. Ég hafði ekki hugmynd um, að þetta mál yrði tekið á dagskrá hér í dag, en að sjálfsögðu mundi ég hafa kynnt mér þetta mál betur og rækilegar, búið mig undir það, ef ég hefði um það vitað. Þá mundi ég einnig hafa getað upplýst um það, hvort Tryggingastofnun ríkisins hefði haft málið til meðferðar. En það get ég þó upplýst, að hv. n., sem hafði málið til meðferðar í Nd., hefur ekki rætt við félmrn. um það.

Ég tel ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en ég vil aðeins endurtaka þá spurningu, sem hv. þm. Barð. beindi til hv. 5. landsk.: Hvers vegna barðist hann ekki fyrir þessu máli, meðan vinstri stjórnin sat? Þá hefði hann haft miklu betri aðstöðu til þess að koma því í gegn, ef hann hefði raunverulega haft áhuga á því.