14.08.1959
Efri deild: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

4. mál, almannatryggingar

Finnbogi R. Valdimarsson:

Mér þykir það undarlegt að heyra það hjá hæstv. félmrh., að hann fylgist ekki neitt með og telji sér ekki skyldu að fylgjast neitt með frumvörpum um félagsmál, fyrr en þau koma hingað til hv. d., þar sem hann á sæti sem þingmaður. Hann upplýsir, að hann hafi ekki gert sér neitt far um að kynna sér þetta mál, fyrr en það kæmi hér til hv. d. Það er búið að fara gegnum 3 umr. í hv. Nd., vera þar í n., og ég skal upplýsa það, að það var frá þeirri n., hv. heilbr.- og félmn. Nd., sent samdægurs, þegar það kom þar fyrir, til Tryggingastofnunar ríkisins til umsagnar. En það hefur staðið á umsögn Tryggingastofnunar ríkisins og er það ekki sök hv. n. í Nd. né Alþingis. Hæstv. félmrh. getur auðvitað sem ráðh. fylgzt með umr. um mál í hv. Nd. og kynnt sér þau, jafnóðum og þau koma þar fyrir.

Þá spyr hæstv. ráðh., hvers vegna ég hafi ekki beitt mér fyrir þessu máli, meðan vinstri stjórnin sat. Ég veit, hvað er til fyrirstöðu í þessu máli. Það er andstaða hv. þm. og ráðh. Alþfl. gegn því að afnema þessi ákvæði, af því að það kostar nokkuð. Það var eins í vinstri stjórninni. Og það hefur verið eins á undanförnum þingum, þeim tíu þingum, sem ég hef setið, þá hefur það strandað fyrst og fremst á andstöðu hv. þm. Alþfl. að fá þessi ranglátu ákvæði afnumin. Hér átti lengi sæti í hv. d. forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins. Honum var það ljóst hvort tveggja, að þessi ákvæði voru ranglát, en honum var líka ljóst sem forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, að það kostaði nokkuð þá stofnun að afnema það. Og þess vegna beitti hann sínum áhrifum gegn því, að þau væru afnumin. Þetta er sannleikurinn í málinu. Það hefur ekki staðið á mér sem þm. fyrr né síðar, síðan ég tók sæti hér á hæstv. Alþ., að standa að því að afnema þessi ákvæði. Aldrei, ekki heldur meðan vinstri stjórnin sat. En það stendur á Alþfl. og hefur staðið á honum.