29.07.1959
Neðri deild: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Þegar það er athugað, sem sagt er að þeim kosningum loknum, sem fram fóru í vor og borið saman við það, sem sagt var fyrir kosningarnar, þá kemur það greinilega í ljós, að þeir stjórnmálamenn, sem standa að þeirri kjördæmabreyt., sem hér er til umr. nú, halda fram að kosningunum loknum, að það hafi eingöngu verið kosið um kjördæmamálið og annað ekki. En hverju héldu svo frambjóðendur þessara þingflokka fram fyrir kosningarnar? Hvað var það? Hver var uppistaðan í þeirra aðalmálflutningi? Uppistaðan var algerlega gagnstæð því, sem þeir halda fram nú að kosningunum loknum, því að þá héldu þessir sömu menn því fram, þríflokkarnir, sem að kjördæmaskipuninni stóðu, að það væri verið að kjósa um hin almennu þjóðmál. Þessir flokksmenn vissu það, að kjördæmamálið, einkum til sveita, var mjög óvinsælt og þess vegna þurfti að blekkja með einhverju. Það þurfti að villa um fyrir kjósendum. Sjálfstæðismenn héldu því hiklaust fram, að nú væri fyrst og fremst kosið um vinstri stjórn Hermanns Jónassonar og að þau víti, sem bæri að varast, væru einkum þau, að unnið væri með kommúnistum, eða eins og sjálfstæðismenn héldu fram fyrir kosningarnar 1956 og m.a. kemur greinilega fram í bæklingi þeim, er þeir sendu þá inn á hvert heimili í landinu og hlaut sá bæklingur nafnið „Dómur reynslunnar“, — þar stendur á fyrstu síðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Allir kjósendur að undanteknum þeim, sem hafa ánetjazt alþjóðakommúnisma og greiða þar af leiðandi atkvæði án tillits til íslenzkra hagsmuna, verða að bera saman afleiðingar eða árangur hinna tveggja stjórnarstefna og marka afstöðu sína með tilliti til þeirra staðreynda, sem þeim verða ljósar, því að reynslan er réttlátur dómari.“

Já, reynsla sjálfstæðismanna af kommúnistum var ekki góð og þeir vöruðu við þeim. En þó var hún ekki verri en það, að þar voru einmitt mennirnir, sem voru góðir og það ágætir til að breyta kjördæmaskipan landsins, enda bera þeir ekki íslenzka hagsmuni fyrir brjósti, segja sjálfstæðismenn, eins og þeir orðuðu það 1956. Bækling þennan enda svo sjálfstæðismenn með því að segja, með leyfi hæstv. forseta:

„Leiðin til endanlegs sigurs lýðræðis yfir kommúnisma er leiðin til betri lífskjara og leiðin til einarðrar andstöðu gegn ofbeldisöflunum á alþjóðavettvangi. Sjálfstfl. einn ratar þessa leið. Þess vegna fylgir þjóðin honum fram til sigurs.“

Ekki efast ég um það, að Sjálfstfl. hefur hlotið nokkur atkv. út á þetta árið 1956. En ég minni á þetta nú, vegna þess að það mál, sem mestri byltingu veldur í stjórnarfari lands okkar, nær fram að ganga nú fyrir samvinnu sjálfstæðismanna og kommúnista, að ógleymdum Alþfl. „Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann,“ má segja nú um Sjálfstfl. eða sjálfstæðismenn. Það er jafnmikið að marka ummæli sjálfstæðismanna í síðustu kosningum eins og ummæli þeirra um það, að þeir mundu aldrei beita sér fyrir fáum og stórum kjördæmum í landi voru. En hvað er komið á daginn? Og svona mætti lengi telja upp ummæli og fyrirheit sjálfstæðismanna um ýmis mál og þau stangast algerlega á við framkvæmdirnar og staðreyndirnar, þegar allt er skoðað niður í kjölinn.

Fyrir kosningarnar héldu þríflokkarnir því fram, að það væri að vísu kosið um kjördæmamálið, en ekki frekar en önnur mál og sjálfstæðismenn, sem voru mjög óttaslegnir, sendu a.m.k. tvo bæklinga inn á hvert heimili í landinu og annar þeirra var eingöngu um það að varast vinstri stjórn, og hlaut sá bæklingur nafnið „Víti til varnaðar“. Og þessi bæklingur, svo góður sem hann er, var aðaluppistaðan í öllum þeirra málflutningi. Þeir lásu þessa lexíu á hverjum fundi, eitt í dag og annað á morgun og minntust varla á kjördæmamálið, nema þá helzt til að raða niður á lista í þessum tilvonandi kjördæmum, sem þeir eru að berjast fyrir og nú eru þeir að berjast um að fá örugg þingsæti í framtíðinni. En þá var ekki að heyra annað á sjálfstæðismönnum, en það mundi vera fullkomið bræðralag innan þess flokks um öll framboð og niðurröðun á lista. Vonandi, að svo verði. Og frambjóðandi Sjálfstfl. í Dalasýslu, Friðjón Þórðarson, hélt því fram, að hann mundi fá öruggt þingsæti í Vesturlandskjördæmi. Það var aðeins á einum fundi, sem hann gat þess, að hann mundi fá svo til öruggt þingsæti. Ekki veit ég, hvað kann að verða ofan á. Enn fremur héldu frambjóðendur sjálfstæðismanna mjög fram, af því að þeir vissu, að það var vinsælt, að sýslurnar mundu þrátt fyrir þessa kjördæmabreyt. halda sínum fulltrúum innan sýslnanna. En ekki veit ég, hvernig slíkt má ske eftir þessa breyt. Og það mun reynast erfitt að standa við þetta, eins og raunar fleira, sem kom fram úr herbúðum sjálfstæðismanna fyrir þessar kosningar, sem eru nú afstaðnar. Og út á þessa villukenningu slæddust nokkur atkvæði yfir á sjálfstæðismenn, af því að fólkið á landsbyggðinni vill umfram allt annað, hafa áfram á Alþ. menn, sem gerþekkja hagsmuni hinna einstöku byggðarlaga í landinu og reynslan hefur líka sýnt, að það er héruðunum og landsbyggðinni fyrir beztu.

Þá er það hinn bæklingur sjálfstæðismanna um kjördæmamálið. Þennan bækling kalla ég „Biblíu sjálfstæðismanna“, vegna þess, að þegar einn frambjóðandi þeirra var á fundi spurður, hvað hann meinti með því, er hann skrifaði í þennan bækling, þá var svarið til fyrirspyrjandans þetta: Þú hefur sjálfsagt þurft að lesa biblíuna oftar en einu sinni, áður en þú skildir hana og þannig er með þetta. — Já, þannig var með þetta. Þarna var ekki neinn smámaður á ferðinni, maður, sem hafði þann boðskap að flytja, sem líktist því helgasta, sem út hefur verið gefið í heiminum, sjálfri biblíunni. Sennilega hefði þessi maður átt að verða prestur. Lesi maður sum af þessum ummælum, þá eru þau mjög ósamhljóða, því að sum fela í sér hótanir eins og þær, að það muni jafnvel kosta sambandsslit af hálfu Reykvíkinga, ef þeir fái ekki fullt jafnrétti á við aðra í almennum kosningarrétti til Alþingis. Önnur ummæli fela það í sér, að aldrei sé meiri þörf á, en nú að efla samhug og nauðsynlegt samstarf í strjálbýlinu. Það kemur greinilega fram hjá hv. þm. Snæf. í þessum bæklingi og þetta er algerlega rétt hjá þeim hv. þm., því að þessi kjördæmabreyting mun verða þess valdandi, að það fólk, sem staðið hefur saman um sín málefni til þessa og náð á þann hátt góðum árangri í lífsstarfi sínu, það verður, þótt það kosti meiri vinnu, að ná víðtækara samstarfi en verið hefur, ef það á að bera jafnmikið úr býtum og hingað til, því að kjördæmabreytingin kollvarpar því félagakerfi, sem hér hefur ríkt og byggt er upp á hinum gömlu kjördæmum, sem nú leggjast niður.

Í kjölfar kjördæmabreytingarinnar munu sennilega í framtíðinni koma ný lögsagnarumdæmi og ekki óeðlilegt, ef réttlæti á að ríkja á milli flokka, að þá verði upp teknar hlutfallskosningar til sýslunefnda og í verkalýðsfélögum og víðar, þar sem þarf að auka réttlæti á milli flokka, eins og það er kallað. Það er rætt um jafnrétti á milli flokka, en hinu er einnig gleymt, að tala um jafnrétti í aðstöðu allri og lífsþægindum á milli fólksins í landinu. Atkvæðisrétturinn er ekki nema brot af því, sem til þarf til að skapa jafnrétti á milli þegna þjóðfélagsins. Þar kemur fjöldamargt annað til greina, sem fólki er ljóst og mun sýna sig síðar. Og þjóðin mun ábyggilega átta sig á kjördæmamálinu betur í framtíðinni, en þegar er orðið og sýna það með vaxandi fylgi Framsfl., því að ekki kann góðri lukku að stýra, þegar sjálfstæðismenn taka höndum saman við kommúnista, sem þeir jafnan hafa fordæmt, eða þegar kommúnistar falla í faðm Alþfl., sem þeir lýstu svo í blaðinu Útsýn 11. maí s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Aumkunarverður flokkur er Alþfl. Nú ræður íhaldið gerðum hans í einu og öllu og lætur hann jafnvel einan taka ábyrgð á óvinsælustu verkunum. Fyrir ári síðan réð Framsókn yfir Alþfl. eins og sínum eigin flokki. En svo sveik Alþfl. samning sinn við Framsókn. Í verkalýðshreyfingunni samdi Alþfl. við íhaldið, en á síðasta Alþýðusambandsþingi sveik Alþfl. þann samning. Næst samdi Alþfl. við Alþýðubandalagsmenn um sambandsstjórn í Alþýðusambandinu, en strax næstu daga sveik Alþfl. það samstarf með nýjum samningi við íhaldið um almenna kauplækkun.“

Þetta segja kommúnistar um Alþfl. Þannig eru lýsingar þeirra flokksbræðra, sem að kjördæmabreytingunni standa, hvors á öðrum. Það býst því enginn við góðu af þeim í framtíðinni. Grundvöllurinn, sem lagður er með þessari kjördæmabreytingu, er ótraustur, og það sem á eftir kemur, mun þar eftir fara.

Við framsóknarmenn munum hér eftir sem hingað til starfa í þeim anda, sem skapar frjálsa samvinnu og jafnrétti þegnanna í þjóðfélaginu, því að hornsteinn lýðræðis er jafnrétti þegnanna í þjóðfélaginu án tillits til þess, hvar þeir eru búsettir í landinu. Ég er því á móti frv. því, sem hér er til umræðu um breyt. á kjördæmaskipan landsin, og treysti því, að hv. þm. sjái sóma sinn í því að greiða atkv. með þeirri dagskrártillögu, sem fyrir liggur á þskj. 10, svo að þjóðinni gefist kostur á að sýna vilja sinn í þessu máli, áður en lengra er haldið og þjóðarviljinn fái að ráða gerðum þessa máls og annað ekki.