07.08.1959
Neðri deild: 12. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

6. mál, endurlán eftirstöðva af erlendu láni

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Fyrrv. ríkisstj. hafði lagt drög að því, að tekið yrði erlent lán til framkvæmda hér á landi. Á síðasta þingi var núv. hæstv. ríkisstj. heimilað að taka allt að 6 millj. dollara erlent lán og mun sú heimild verða notuð. Þessi upphæð í erlendri mynt jafngildir með yfirfærslubótum nálega 150 millj. kr. Fulltrúar Framsfl., sem sæti áttu í fjvn. á síðasta þingi, lögðu þar til, að þessar 150 millj. kr. yrðu endurlánaðar þannig, að raforkusjóður fengi 45 millj. kr., ræktunarsjóður 30 millj., fiskveiðasjóður 25 millj. og 50 millj. yrðu lánaðar til hafnargerða. Alþ. ákvað hins vegar eftir till. meiri hl. fjvn. að ráðstafa eigi meiru af þessu fé en um 98 millj, kr. og var sú heimild til þeirrar ráðstöfunar veitt í 22. gr. fjárlaga fyrir árið 1959.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fjárþörf þeirra stofnana, sem framsóknarmenn lögðu til á síðasta þingi að nytu góðs af þessu fé, er mjög mikil. Skv. heimildinni í 22. gr. fjárl. er ákveðið, að raforkusjóður fái 45 millj., ræktunarsjóður 25 millj. og hafnarsjóðir 28 millj., en fiskveiðasjóði hefur ekki verið ætlað neitt af þessu lánsfé. Fjárþörf ræktunarsjóðs er svo mikil, að sjóðurinn hefur að undanförnu ekki fyllilega getað fullnægt eftirspurn eftir lánum, og allar líkur benda til, að sjóðinn skorti allmikið fé á þessu ári til þess að veita þau lán, sem um er beðið. Svipað má segja um fiskveiðasjóð. Sú lánsstofnun á að veita stofnlán til skipakaupa og fiskvinnslustöðva og er lánsfjárþörf sjávarútvegsins mjög mikil.

Á þingi 1956 var lögum um fiskveiðasjóð breytt þannig, að numin voru úr gildi hámörk, sem áður höfðu verið í lögum um það, hve sjóðurinn má lána háa fjárhæð til einstakra framkvæmda, og skipaflotinn stækkar þannig, að þau skip, sem fengin eru til landsins, eru yfirleitt stærri og dýrari en skip, sem notuð voru til fiskveiða fyrir nokkrum árum. Þetta veldur auknum stofnkostnaði og kallar á hærri lán frá þeirri lánsstofnun, sem á að veita sjávarútveginum stofnlán, heldur en ella mundi.

Því mun vera svo farið, að fiskveiðasjóður hefur ekki haft fjármagn til að fullnægja eftirspurn eftir lánum. Hann mun hvorki hafa getað veitt lán til skipa af hinum stærri tegundum, sem flutt eru til landsins, né fullnægt eftirspurn eftir lánsfé til fiskvinnslustöðva. Það er því að áliti okkar flm. þessa frv. mjög mikil þörf á að auka fjármagn fiskveiðasjóðs.

Það er undirstaða að blómlegu atvinnulífi við sjávarsíðuna, að hafnarskilyrði séu sem bezt. En það kostar mikið fjármagn að gera hafnirnar svo úr garði sem þörf er á. Því fé, sem ákveðið er að leggja fram til hafnarsjóðanna eða endurlána hafnarsjóðunum skv. heimildinni í fjárl. fyrir þetta ár, mun nú þegar hafa verið ráðstafað. Því mun hafa verið ráðstafað til 19 hafna. En alls eru þær hafnir alit að 60, sem veitt hefur verið fé til í fjárlögum að undanförnu og þar sem um hafnarframkvæmdir er að ræða. Og mér er kunnugt um það, a.m.k. að því er snertir sumar þær hafnir, sem njóta ekki góðs af því fé, sem þegar hefur verið ráðstafað skv. heimildinni í 22. gr. fjárl., að þar eru fyrirhugaðar mjög kostnaðarsamar framkvæmdir nú á næstunni, sem eru nauðsynlegar vegna atvinnulífsins á hlutaðeigandi stöðum.

Hér er því lagt til, að því fé, sem hefur ekki verið ráðstafað áður, verði nú með sérstakri löggjöf ráðstafað þannig, að til ræktunarsjóðs renni 5 millj. í viðbót við það framlag, sem honum var ætlað af hinu erlenda lánsfé skv. heimildinni í fjárl., að fiskveiðasjóður fái 25 millj. kr. og að til hafnarframkvæmda verði varið 22 millj. kr. umfram það, sem þegar hefur verið úthlutað.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál nú við þessa umr. og legg til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. fjhn. En þar sem þetta þing mun aðeins sitja mjög stuttan tíma úr þessu, þá vænti ég þess, að hv. fjhn. afgreiði málið mjög bráðlega.