27.07.1959
Efri deild: 4. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

5. mál, stjórnarskrárnefnd

Flm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er að vísu tekið fram í 16. gr. þingskapa um fastanefndir, að þegar þær vinni saman, kallist þær samvinnunefndir. Sams konar ákvæði er ekki um lausanefndir. En ég tel enga heimild til þess að álykta á þann veg, að af þessu leiði, að lausanefndum sé óheimilt að vinna eða tala saman í þingi. Ég held, að þessar n. ráði því sjálfar og það fari eftir samkomulagi þeirra, hvort þær vilja vinna eingöngu hvor í sínu lagi eða einnig sameiginlega.

Vitanlega verða vinnubrögðin þau, eins og hv. 1. þm. Eyf. gat um varðandi störf fjhn. þessarar hv. d., að þó að n. starfi saman að þessari athugun, munu þær auðvitað hvor um síg sjálfstætt athuga frv. og skila sérstöku áliti og ég held, að það sé engin ástæða til að óttast, að þessi hv. d. eða stjskrn. hennar tapi nokkru af sjálfstæði sínu, þó að hún sé kosin nú, í stað þess að kjósa hana þegar frv. kemur formlega til deildarinnar: En ég ætla, að með þessum hætti verði málin ekki verr athuguð, heldur fái betri og gagngerari athugun en ella.

Röksemdafærslu hv. 1. þm. N-M. skil ég ekki fyllilega. Hann heldur því fram, að kosningalagafrv., sem hann telur ákaflega illa undirbúið af hálfu hæstaréttardómaranna, — og efast ég ekki um það, að hæstaréttardómarar þekkja heldur meira inn á kosningalögin, en hv. 1. þm. N-M., fái þá miklu lélegri athugun og meðferð í þinginu. Eins og ég tók fram áðan, mun hvor nefnd að sjálfsögðu athuga málið sjálfstætt, en ég fæ ekki skilið, að það spilli neitt málsmeðferðinni, þó að n. tali einnig saman og fari sameiginlega yfir frv. Það gæti þá aðeins verið út frá því sjónarmiði, að hv. 1. þm. N-M. vilji taka sér í munn orð Ólafs þá, að „þeim mun verr gefist heimskra manna ráð sem fleiri komi saman.“ En að mínu áliti á það spakmæli alls ekki við um allan þorra þingmanna.