05.08.1959
Sameinað þing: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

2. mál, byggingarsjóður ríkisins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Hæstv. forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, er þess eðlis, að um hana þarf ekki langa framsögu. Málið, sem hún fjallar um, er öllum þm. kunnugt og sömuleiðis nauðsyn á ráðstöfunum, sem þar er gert ráð fyrir, að gerðar verði.

Þörfin fyrir aukið fjármagn byggingarsjóðs er öllum kunnug. Það munu nú liggja fyrir eitt hvað 200 umsóknir um íbúðalán, sem ekki hefur verið hægt að fullnægja nema þá að mjög takmörkuðu leyti og það er mjög nauðsynlegt, að úr þessu verði bætt.

Tilgangurinn með starfsemi byggingarsjóðs er, eins og kunnugt er, að styðja efnalítið fólk til að eignast sínar eigin íbúðir, hjálpa mönnum þannig til sjálfsbjargar og það er áreiðanlega hin rétta stefna af hálfu þess opinbera að styðja slíka viðleitni.

Samkvæmt athugunum, sem gerðar hafa verið, er nú fjármagnsþörf byggingarsjóðs mjög mikil, áætlað í ársbyrjun 1959, að þá þyrfti einar 170 millj. í sjóðinn, til þess að hægt yrði að fullnægja þeim lánsbeiðnum, sem þá lágu fyrir, og síðan hefur sennilega lánsþörfin frekar aukizt, en hið gagnstæða. Í þeim till., sem hér liggja fyrir, er hvergi nærri gert ráð fyrir því að fullnægja allri þessari þörf, heldur aðeins að mjög takmörkuðu leyti og þetta er gert vegna þess, að ég hef talið líklegra til samkomulags að ganga ekki mjög langt í þessum efnum, heldur fyrst og fremst miðað við þær till., sem hafa verið gerðar um þetta mál í húsnæðismálastjórn og fulltrúar allra flokka þar hafa orðið sammála um. Þrátt fyrir það, þótt samkomulag hafi nú orðið um þessar tillögur í húsnæðismálastjórninni, hafa þær enn þá ekki verið framkvæmdar og þess vegna hygg ég, að það mundi verða stuðningur bæði fyrir húsnæðismálastjórnina og ríkisstj. að fá þessa ályktun eða samþykkt húsnæðismálastjórnar áréttaða hér. Og til þess að vekja ekki ágreining um málið, sem gæti orðið til þess að tefja fyrir afgreiðslu þess hér, hef ég eingöngu tekið upp þá liði úr samþykkt húsnæðismálastjórnar, sem fulltrúar allra flokka þar voru sammála um. Af þeim ástæðum treysti ég því, að þetta mál fái góðar undirtektir hér í þinginu og skjóta afgreiðslu, en það er till. mín, að umr. um till. verði frestað og málinu vísað til allshn. til nánari athugunar.