05.08.1959
Sameinað þing: 6. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

2. mál, byggingarsjóður ríkisins

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að leggja dálítið orð í belg í sambandi við þær umr., sem hér fara fram, og einhverjum hefði vissulega þótt það tímanna tákn, að það ætti eftir að verða fyrsta mál hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) hér á Alþ. að flytja till. um eflingu byggingarsjóðs, eftir þá hörmungarsögu Framsfl. og fulltrúa hans bæði hér á Alþingi og í bæjarstjórn höfuðstaðarins einmitt í þessu máli, sem fyrir liggur. Og ég held, að það sé alveg rétt fyrir hv. 7. þm. Reykv. að gera sér ljóst í upphafi, að því mun ekki verða tekið með neitt sérstaklega mikilli hrifningu af þm., þegar hann ætlar að fara að fræða þá á Tímavísu um pólitíska sögu mála eins og byggingarmálanna og annarra. Honum er náttúrlega ekki of gott að koma hér og þylja upp gömul ranghermi og ósannindi úr Tímanum um afstöðu flokka til mála, jafnvel 20 og 30 ára gamalla, en þm. gera ekki annað, en brosa að slíkum tiltektum.

Þessi hv. þm. kemur og segir, að það hafi verið hlutverk Sjálfstfl. frá fyrstu tíð að vera með úrtölur í málum eins og byggingarmálum. Þó hygg ég, að það sé leitun á því, ekki aðeins hér á landi, heldur jafnvel þó að farið sé í önnur lönd, að önnur eins átök hafi verið gerð í byggingarmálum og fyrir almenning og gerð hafa verið einmitt hér á Íslandi og sérstaklega í höfuðstað landsins undir forustu Sjálfstfl. Þessu taka allir menn eftir og er það fyrsta, sem útlendingar, sem hingað koma, reka augun í. Þessi hv. þm. kemur hér og er starblindur og talar um, að það hafi verið hlutverk þessa flokks frá fyrstu tíð að vera með úrtölur í slíkum málum eins og þessum. Menn eru ekki hissa á því hér í höfuðstaðnum, hversu lítið hefur verið byggt. Það er ekki það, sem vekur undrun manna, þegar menn koma hingað og kynnast aðstöðunni í Reykjavík. Nei, það er það hversu gífurlegt átak hefur verið gert, einmitt undir forustu sjálfstæðismanna bæði fyrr og síðar. Og það er alveg rétt, sem hv. þm. V-Ísf. (ÞK) sagði, að það var það, sem m.a. var haldið fram af fulltrúum Framsfl., að hefði legið til grundvallar fyrir stjórnarslitunum 1956. Æ ofan í æ er þessi hv. 7. þm. Reykv. búinn að halda því fram í sínu málgagni, Tímanum og fulltrúar Framsfl. hér á þingi, að ein höfuðorsökin til þess, að slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu við sjálfstæðismenn, væri það, að þeir hefðu viljað gefa frjálsa fjárfestinguna til íbúðabygginga, sem þó var ekki gefin frjáls nema til hæfilegra íbúðabygginga og einmitt sérstaklega miðað við það, að menn kæmu upp eigin íbúðum.

Þetta hefur klingt við hér í þingsölunum fyrr og síðar og svo kemur þessi hv. þm., 7. þm. Reykv., nú og segir, að það sé dæmalaus vitleysa og það séu engin rök, að framlög til byggingarframkvæmda verði til þess að auka verðbólguna, þegar sé of mikil fjárfesting. Það kann að vera, að þetta sé nokkuð rétt hjá honum í grg., en þetta er bara allt annað, en hefur alltaf staðið í hans eigin blaði og alltaf hefur verið haldið hér fram af fulltrúum Framsfl. á mörgum undanförnum árum.

Ég hygg, að byggingarmálum sveitanna hafi ekki verið gert betra, en með þeirri löggjöf, sem sett var á sínum tíma í tíð nýsköpunarstjórnarinnar og ævinlega hefur verið studd síðan af hálfu sjálfstæðismanna varðandi byggingarsjóð sveitanna. Pétur Ottesen hafði forgöngu um það á sínum tíma, þáv. þm. Borgf., þegar hann var hér, að helmingurinn af mótvirðissjóðnum skyldi fara til Búnaðarbankans til þess að efla byggingarsjóð ásamt ræktunarsjóði sveitanna. Þetta er eitt langöflugasta og sterkasta framlagið til byggingarsjóðs sveitanna, sem fram hefur komið og framkvæmt hefur verið á undanförnum árum. Svo er verið að halda því hér fram, að sjálfstæðismenn hafi unnið á móti byggingum í sveitum landsins.

Eins er það með verkamannabústaðina. Þeir, sem þekkja þá sögu, vita það og það er fullkomlega viðurkennt af fulltrúum verkamanna í byggingarfélögum verkamanna, að fáir hafa lagt þeim málum meira lið á undanförnum árum, en einmitt sjálfstæðismenn. Hafa verkamenn sýnt þetta með sérstökum viðurkenningum, sem þeir veittu forustumönnum sjálfstæðismanna fyrir sérstakan dugnað þeirra og árvekni í málefnum verkamanna, eins og bæði Jakob Möller á sínum tíma og Bjarna Benediktssyni einnig, þegar þessir menn voru fyrirsvarsmenn þessara mála í bæjarstjórn Reykjavíkur.

Þá talaði hv. 7. þm. Reykv. um merkilegar ráðstafanir Framsfl. á árunum 1950–56. Það var Sjálfstfl., sem hafði forgöngu um það eftir alþingiskosningarnar 1949 að leggja grundvöllinn að nýjum viðreisnartill. í efnahagsmálunum með gengisbrtt., sem þá voru lagðar fram, ásamt hliðarráðstöfunum, sem þeim fylgdu. Framsfl. vann sér það til ágætis að bera fram vantraust á Sjálfstfl. fyrir framburð þessa máls, en myndaði síðan stjórn með Sjálfstfl. á eftir til þess að framkvæma í öllum meginatriðum þær till., sem þarna voru fram bornar. Og það voru þessar nýju till. og nýja stefna í efnahagsmálunum, sem mörkuð var í frv. sjálfstæðismanna eftir kosningarnar 1949, meðan Sjálfstfl. fór einn með stjórn landsins, sem lagði grundvöllinn að því jafnvægi í efnahagsmálunum og því jafnvægi í verðlagsmálunum, sem skapaðist á árunum eftir 1951 og 1952, eftir að áhrif gengislaganna voru verulega farin að koma í ljós, sem leiddu m.a. til þess, að á árunum 1953–56 jókst sparifé landsmanna á þessum fjórum árum, um 700 millj. kr. Og það er rétt hjá hv. þm. V-Ísf., að það er þessi öra sparifjáraukning á þeim árum, sem lagði grundvöllinn að því, að hægt var að setja hér á sínum tíma löggjöfina um veðlán til íbúðabygginga eða hina nýju íbúðalánalöggjöf, sem jafnframt var grundvöllurinn og undirstaðan undir hinni merkilegu rafvæðingaráætlun sveitanna, sem samið var um í stjórnartíð sjálfstæðismanna undir forustu Ólafs Thors 1953. Og þó að það sé rétt, að það hafi fallið í hlut ráðherra Framsfl. þá, sem var Steingrímur Steinþórsson, að fara bæði með byggingarmálin, félagsmálin og raforkumálin, þá er það kunnug saga, að tryggð framlög af hálfu bankanna á þeim tíma til þessara mála og sérstaklega raforkuframkvæmda í sveitunum voru fyrst og fremst fyrir forgöngu þáv. forsrh., formanns Sjálfstfl., Ólafs Thors. Forgangan í raforkumálunum var í höndum forsrh. þessarar ríkisstj., en ekki þess manns, sem fór með þessi mál. Og ég hygg, að við sjálfstæðismenn undir allri meðferð íbúðamálsins, undirbúningi málsins í sérstakri n., sem ríkisstj. skipaði, áður en löggjöfin var sett og undir meðferð málsins hér á þinginu höfum engir eftirbátar verið í framkvæmd málsins, miðað við fulltrúa Framsfl., enda varð aldrei neinn ágreiningur um það við þáv. félmrh. (StgrSt). En það er ekki ónýtt að heyra það nú frá fulltrúa og nýbökuðum þingmanni Framsfl. hér á Alþingi, að það vanti ekkert nema viljann, það vanti ekki nema það að ráðast gegn þrjózkunni í bönkum landsins, til þess að nóg fé sé í íbúðabyggingar, eins og hann leggur hér til að veitt sé fé í. Það eru ekki liðin núna nema 2 ár, síðan Framsfl. hafði forgöngu um það, að hann og stuðningsflokkar hans tóku hreinan meiri hluta í öllum bankaráðum landsins og stofnuðu 13 nýjar bankaráðsstöður og bankastjórastöður eða veittu þessar stöður. Og nú, eftir að ástandið hefur verið þannig, að það er í fimm manna bankaráðum í bönkunum einn sjálfstæðismaður fyrir til verknað þessara manna, þá er það upplýst af fulltrúa og þm. Framsfl., að það sé ekkert annað, en viljaskortur hjá bönkunum og þeim mönnum, sem þar ráða, að nægilegt fé skuli ekki vera lagt fram af þeirra hálfu til byggingarmála og annarra slíkra framkvæmda og það þurfi að gera einhverjar ráðstafanir hér á þinginu til þess að ráða við þrjózkuna í þessum mönnum, sem nú ráða þessum málum. Hv. þm. sagði: Það er ekki reynt að selja vísitölubréfin. — Það var þó komið fyrir tilverknað þessara manna, nýju sniði á seðlabankann í landinu. Seðlabankinn hefur með að gera sölu vísitölutryggðu bréfanna. Ég held, að fulltrúar vinstri flokkanna svokölluðu hafi góða aðstöðu í Seðlabankanum, bæði í yfirstjórn hans og á annan hátt. Hvernig stendur á því, að það þarf nú með þáltill. á Alþingi að fara að píska þessa menn til þess að auglýsa vísitölubréfin?

Sannleikurinn er sá hins vegar, að seðlabankinn hefur auðvitað gert æ ofan í æ tilraunir til þess að selja þessi bréf og margsinnis auglýst þau, þó að það hafi farið fram hjá þessum hv. þm. En það er einkennilegt að heyra þetta nú og þess vegna sé slík till. fram borin.

Varðandi það, að það sé ekkert óraunhæft, að bankarnir og þá væntanlega aðrir, en Seðlabankinn kaupi svo aftur A-bréfin, þá er það sannast bezt að segja svo, að þegar hin nýja húsnæðismálalöggjöf var upphaflega sett á árinu 1954, meðan Sjálfstfl. hafði stjórnarforustu, var samið um það við bankana, að þeir legðu svo og svo mikið fé til byggingarmálanna og raforkumálanna og því var lofað, en með vissum fyrirvara, a.m.k. af hálfu sumra bankanna og sá fyrirvari var, að sparifjármyndunin héldi áfram í hlutfallslega jafnríkum mæli og verið hefur. Því miður hefur það ekki verið. Enda þótt sparifé hafi að krónutölu aukizt töluvert undanfarin ár, hefur það ekki verið neitt svipað því, sem áður var, miðað við auknar þjóðartekjur og aukna verðbólgu, allra sízt miðað við aukna rekstrarlánaþörf atvinnuveganna og alveg sér í lagi eftir þær efnahagsráðstafanir, sem gerðar voru á árinu 1958, í maímánuði. Öllum var þá ljóst, að það mundi þurfa gífurlega mikið aukið rekstrarfé til atvinnuveganna vegna þessara ráðstafana og skal ég ekki fara neitt að víkja að efni ráðstafananna út af fyrir sig. Hins vegar voru engar sérstakar ráðstafanir gerðar til þess að sjá atvinnuvegunum fyrir auknu rekstrarfé. Hin aukna þörf atvinnuveganna lagðist því með síauknum kröfum dag frá degi á viðskiptabankana í landinu, sem m.a. leiddi til þess, að það blandaðist engum hugur um það, sem fóru með stjórn bankamálanna og um það var enginn ágreiningur, að framlög, sem áður var búið að lofa til takmarkaðs tíma og með fyrirvörum til íbúðabygginganna, urðu að sitja á hakanum. Ég kannast ekki við neinn í þeim banka, þar sem ég á hlut að máli, sem hefur ekki viðurkennt þessa staðreynd og kannast allra sízt við nokkurn viljaskort af hálfu nokkurra manna, sem þar eiga hlut að máli. Því að mér er persónulega kunnugt um, að það hefur verið fullkominn vilji og áhugi einmitt til þess að styðja þessi mál, byggingarmálin, á hverjum tíma eftir fyllsta mætti. Það er því aldeilis að ófyrirsynju að taka á móti ásökunum eins og þeim, sem hér eru fram bornar, að ekki þurfi annað en einhverjar till. eins og þessa, sem á að vera einhver pískur til þess að hafa þrjózkuna úr þeim mönnum, sem fara með stjórn þessara mála í bönkunum.

Því miður held ég, að það sé réttur skilningur t.d. hjá hv. þm. V-Ísf., að till. eins og þessi, þó að hún yrði samþ., mundi litlu fá áorkað, miðað við þann tíma, sem hún er hugsuð. Hitt er svo annað mál, að ef það tekst að taka efnahagsmál okkar fastari tökum, en að undanförnu hefur tekizt, standa vissulega vonir til þess og er mikilvægast, að skapazt geti það jafnvægi í efnahagsmálunum, að traust manna vakni aftur á verðgildi peninganna og sparifjármyndun aukist í landinu. Og þá munu bæði bankarnir og sparisjóðirnir og aðrar peningastofnanir, sem þarna eru nefndar, verða færar til þess að leggja af mörkum meira fé til þessara mála, en verið hefur til þessa og mundi þá sennilega nægja til þess að leysa úr þeim sárasta skorti, sem hér er fyrir bendi.

Ég hef sjálfur á mörgum þingum álitið, að það þyrfti að gera sérstakar ráðstafanir til þess að ráða bót á húsnæðisskortinum og þær ráðstafanir hef ég talið að þyrftu að vera að veita svo og svo miklu af erlendu fjármagni til þess að ljúka þeim byggingum, sem hér væru í smíðum. Við höfum horft upp á það á undanförnum árum, ef við lítum hér á höfuðstaðinn, að þá hafa verið frá 1.500 til 1.800 og 1.900 fokheldar íbúðir í gangi jöfnum höndum á hverjum tíma og ef heildin hefur verið tekin yfir landið, mun hafa látið nærri, að þetta hafi verið kannske um 2.500 íbúðir. Margar af þessum íbúðum hafa verið í smíðum ár frá ári og við það hafa tapazt ógurlega mikil verðmæti hjá viðkomandi aðilum og einnig hjá þjóðfélaginu í heild. Ég hef á fyrri tímum leitt rök að því, að það þyrfti ekki nema takmarkað átak til þess að ljúka þessum íbúðum, sem í smíðum væru, en naumast yrði það þó gert nema með einhverri erlendri lántöku og það mundi geta ráðið bót á skömmum tíma á þeim húsnæðisskorti, sem hér hefur verið fyrir hendi og annars staðar á landinu. Menn getur að vísu nokkuð greint á um það, hvort taka eigi erlent lán til íbúðabygginga. En sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að miðað við það ástand, sem hér hefur verið á undanförnum árum og ég hef nú lýst, hafi verið sjálfsagt að taka lán til þess að ljúka þessu átaki og fá hina miklu erfiðleika í byggingarmálunum úr vegi, en þau mál í eðlilegt ástand. Ég hygg enn, að það muni reynast erfitt að ráða fram úr þessum málum nema með einhverjum slíkum aðgerðum. Það kemur einnig til nú, að gjaldeyrisaðstaðan hefur verið mjög erfið og þá hæpið, hvort við hefðum getað gert stórátak, þótt við hefðum haft fé innanlands til þess að ljúka þessu, af gjaldeyrisástæðum, og erlend lántaka hefði að því leyti komið sérstaklega til góða í því sambandi að kaupa það inn af erlendum efnum, sem í íbúðirnar og byggingarnar þyrfti að fara.

Ég skal svo ljúka máli mínu með því að endurtaka það, sem ég hef sagt, að það er engin hætta á því, að þessi till. bæti nokkuð úr þessu máli að því leyti, að hún verði til þess að vekja, af einhverjum dvala, menn í peningastofnunum landsins og koma í veg fyrir, að þrjózka þeirra standi í vegi fyrir því, að einstaklingarnir, sem standa í hinum erfiðu byggingum, fái nægilegt lánsfé. Það er einlæg von mín, að málum megi skipa svo hið bráðasta hjá okkur, að lagður verði grundvöllur að heilbrigðu efnahagslífi með jafnvægi í efnahagsmálunum og stöðugu verðlagi, þannig að það veðlánakerfi, sem stofnað var með íbúðalöggjöfinni 1955 og síðan breytt að nokkru leyti með löggjöfinni frá 1957, geti átt fyrir sér að eflast og dafna og leysa fullkomlega úr þeim verkefnum, sem því er ætlað að sinna, að þeir, sem vilja koma upp húsum yfir sjálfa sig, fái nægilegt fjármagn eða lánsfé til þeirra þarfa.